Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Jón Kristjánsson:
    Herra forseti. Það er kannski farinn dampurinn úr þessari umræðu sem fór fram á föstudaginn var um það mikilvæga mál sem hér er fram borið, frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Það er svo að húsnæðismál hafa ætíð verið fyrirferðarmikill málaflokkur í okkar þjóðfélagi. Það er ekki síst af því að við kostum miklu til við byggingu húsnæðis og af nauðsyn vegna okkar óblíðu veðráttu. Það hefur því alltaf þótt nauðsyn í gegnum tíðina að þjóðfélagið veitti aðstoð sem miðaði að því að allir byggju í mannsæmandi húsnæði. Í því skyni höfðum við komið upp Húsnæðisstofnun og þar með opinberu húsnæðiskerfi. Það hafa verið tíðar breytingar á þessu kerfi seinni árin, kannski of tíðar segja sumir, og nú liggur fyrir enn eitt frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég vil áður en frv. fer til nefndar, en ég á reyndar sæti í þeirri nefnd sem um það fjallar, segja örfá orð um afstöðu þingflokks Framsfl. til frv. því að við umræðuna á föstudaginn í hv. Alþingi var hún nokkuð til umræðu. En aðeins vil ég fyrst drepa á það kerfi sem við búum við nú.
    Því var komið á í tíð Alexanders Stefánssonar sem félmrh. og það voru merkar breytingar á sínum tíma. Það var tekið upp nýtt húsnæðislánakerfi sem fól það í sér að stilla saman krafta lífeyrissjóða landsmanna og húsnæðislánakerfisins. Það var samið við lífeyrissjóðina um að kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun fyrir 55% af ráðstöfunarfé sínu. Hlutfall lána hjá Húsnæðisstofnun stórhækkaði. Þetta voru merk þáttaskil í húsnæðismálum og það er ástæðulaust að dæma þetta kerfi óalandi og óferjandi. Þetta kerfi byggðist á trúnaðarsambandi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina í landinu og varast þarf það í þeirri vinnu sem nú fer í hönd við nýtt frv. um nýskipan húsnæðismála að spilla því sambandi.
    Núv. félmrh. gagnrýndi þetta kerfi harðlega á sínum tíma og sú vinna sem unnin hefur verið í húsnæðismálum undir hans stjórn hefur að hluta til eða öllu leyti byggst á því að finna nýtt kerfi sem leyst gæti þetta kerfi af hólmi.
    Vinna okkar framsóknarmanna að þessum málum hefur miðað að því og helgast af þeirri skoðun að það sé alls ekki tímabært að kasta því húsnæðiskerfi sem nú er fyrir róða. Við erum á móti því. Örar breytingar í húsnæðismálum valda ójafnvægi og óöryggi meðal húsbyggjenda og margt bendir til þess að það kerfi sem nú er leiti smám saman jafnvægis. Það hefði því mátt ræða þá leið og það má færa rök að því að hún hafi verið eðlileg að sníða af því þá vankanta sem komið hafa í ljós, en nokkur sjálfvirkni er í því og tekur ekki tillit til þess hvaða ástæður umsækjandi um lán hefur og vaxtaniðurgreiðsla er í kerfinu til allra nokkuð óháð efnahag og ástæðum. Þetta er m.a. ástæðan til biðraðarinnar sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í kerfinu, en hefur nú minnkað að mun.
    Það frv. sem hér er til umræðu byggist á starfi nefndar sem skipuð var í maí á sl. ári. Meiri hluti nefndarinnar lagði til í áliti sínu að tekið væri upp

svokallað húsbréfakerfi en tveir nefndarmenn, þeir Guðmundur Gylfi Guðmundsson og Ásmundur Stefánsson, skiluðu séráliti og sáu ekki ástæðu til að breyta núverandi húsnæðiskerfi í aðalatriðum. Auk þeirra létu aðrir nefndarmenn fara frá sér ýmsar bókanir í sambandi við þetta mál þannig að það er greinilegt á því nál. sem fyrir liggur að menn hafa haft ýmsa fyrirvara.
    Það er rétt, sem hæstv. félmrh. hefur lýst, að frumvarpsdrögin hafa verið til meðferðar í stjórnarflokkunum alllengi. Það verður þó að taka það fram að málið er alls ekki smátt í sniðum og við sem höfum starfað í félmn. fyrir Framsfl. ásamt þingmönnum og ráðherrum flokksins höfum viljað gera okkur sem gleggsta grein fyrir þessu máli og ræða það sem ítarlegast við þá sem hafa sérþekkingu á húsnæðismálum. Það er ekkert gamanmál að stökkva úr einu kerfinu í annað og þess vegna reynist nauðsynlegt að undirbúa málið sem allra best þannig að þau skref sem tekin eru séu ekki mislukkuð og verr af stað farið en heima setið.
    Þá er eins og ég minntist á fyrr í ræðu minni áríðandi að spilla ekki því trúnaðarsambandi við verkalýðshreyfinguna sem skóp gamla kerfið. Þess vegna lagði Framsfl. höfuðáherslu á það í meðferð málsins að ekki kæmi til mála að leggja af núverandi kerfi heldur yrðu húsbréfaviðskipti tekin upp sem tilraun við hliðina á núverandi kerfi. Þetta er grundvallaratriði í okkar afgreiðslu á þessu máli.
    Við framsóknarmenn viljum að sjálfsögðu líta til nýrra leiða í húsnæðismálum. Þess vegna höfum við fallist á framlagningu þessa frv. þó að ekki beri því að leyna að um það eru mjög skiptar skoðanir. Við teljum rétt að láta gera þessa tilraun og láta á það reyna hvort hún getur vísað okkur leiðina til einfaldara og réttlátara húsnæðiskerfis þar sem aðstoð þjóðfélagsins kemur til þeirra sem þurfa hennar með. Þetta er eðlileg afgreiðsla þingflokksins og ég vísa á bug orðum hv. 1. þm. Suðurl. í ræðu hans sl. föstudag þar sem hann sagði að Framsfl. hefði unnið að þessum málum með vafasömum hætti og lét að því liggja að þetta væri dæmigert fyrir Framsfl.
    Einstakir þingmenn hafa hér lýst sinni afstöðu, en það er ekkert einsdæmi. Ég minnist þess frá síðasta þingi að hér voru mjög spennandi atkvæðagreiðslur um stór mál, t.d. fiskveiðistefnuna, þar sem þingmenn Sjálfstfl. snerust gegn stjórnarfrumvörpum. Ég held að sá réttur þingmanna að fara eftir samvisku sinni sé ótvíræður. Sá réttur er ótvíræður samkvæmt þingsköpum og það er ekkert óheiðarlegt við það þó að þetta frv. hafi verið afgreitt með venjulegum fyrirvörum um að flytja eða fylgja brtt. og einstakir þingmenn hafi lýst sinni afstöðu hér á hv. Alþingi.
    Þetta frv. verður að sjálfsögðu að athuga mjög vandlega í nefnd og það væri æskilegt í þeirri vinnu sem fram undan er að það væri athugað sérstaklega hvort unnt er að örva íbúðarbyggingar á landsbyggðinni, en landsbyggðin hefur staðið mjög höllum fæti hvað íbúðarbyggingar snertir á undanförnum árum. Það kæmi m.a. til greina að þeir

landsbyggðarmenn sem nú eru í biðröð hjá Húsnæðisstofnun hefðu forgang. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið byggt gífurlega á undanförnum árum og einhvern tímann hlýtur að koma að því, og það hlýtur að vera hagkvæmt fyrir höfuðborgarsvæðið, að hægt sé á þessari fjárfestingu hér og menn beiti sér að nýtingu og viðhaldi þess húsnæðis sem fyrir er. Á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni stendur húsnæðisskortur atvinnulífi og uppbyggingu fyrir þrifum.
    Í nóvember sl. kom út skýrsla um könnun Félagsvísindastofnunar á húsnæðismálum á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu sem tekin var saman að beiðni Húsnæðisstofnunar ríkisins og átti að leggja sérstaka áherslu á húsnæðismál landsbyggðarinnar. Í skýrslunni komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar. M.a. komu fram þær upplýsingar, með leyfi forseta, að tæp 70% landsbyggðarbúa og rúm 50% höfuðborgarbúa væru hlynntir sérstökum ívilnunum fyrir landsbyggðina í gegnum húsnæðiskerfið. Innan við 20% landsbyggðarbúa eru mótfallnir síkum hugmyndum en rúm 30% höfuðborgarbúa. Ég held því að það sé vilji fyrir því í landinu að þessi mál verði skoðuð mjög alvarlega.
    Hv. 1. þm. Vesturl. gerði í ræðu sinni hér sl. föstudag grein fyrir fyrirvörum Framsfl. varðandi framlagningu þessa frv. Þeir fyrirvarar voru þeir, ef ég rifja það upp, að húsbréfakerfið nái aðeins til eldri íbúða fyrsta árið, vextir verði þeir sömu og á spariskírteinum ríkissjóðs og skattaleg meðferð sú sama, þeir sem eru í biðröð gangi fyrir, a.m.k. til bráðabirgða í sex mánuði, húsbréfadeild verði í Húsnæðisstofnun, tilraunin verði endurmetin að tveimur árum liðnum og kaupskylda lífeyrissjóðanna verði óbreytt en heimilt verði að verja allt að 10% upphæðarinnar til kaupa á húsbréfum. Þetta ákvæði verði endurskoðað að sex mánuðum liðnum.
    Þetta er mikið grundvallaratriði í afgreiðslu okkar á þessu máli. Á þessu byggist að við viljum leyfa framlagningu þessa frv. og gera tilraun með þetta kerfi við hliðina á núverandi húsnæðislánakerfi. En ég vil undirstrika það að sú skoðun á mikið fylgi okkar á meðal að það sé óráð að skrúfa nú frá og setja meiri peninga inn í þetta kerfi að sinni. Það kann að vera að við getum gert það síðar, en það er óráð annað en að gera þessa tilraun nú vegna þess að við höfum fjárfest mikið í húsnæðismálum og við getum trauðla fjárfest mikið meira og dregið fé frá atvinnulífinu í landinu inn í þennan málaflokk fremur en orðið er. Ef þetta kerfi getur orðið til þess að spara okkur útgjöld í húsnæðismálum, ef þarna verður innri fjármögnun, þá er það af hinu góða, en slík mál verður að endurmeta að stuttum tíma liðnum.
    Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að vera að fjölyrða um þetta mál eða eyða tíma þessarar hv. deildar á kvöldfundi, þar sem mörg mál liggja fyrir til þess að fjölyrða um, þótt margt mætti ræða um þennan mikilvæga málaflokk. Þetta mál fer að sjálfsögðu til félmn. Nd. þar sem það mun auðvitað fá

vandlega skoðun. Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í henni af heilum huga.
    Ég vil undirstrika það að lokum að verði farið út í þessa breytingu, sem er mikilvægt, sem er afdrifaríkt skref, þá verðum við að sjá fram á það að þessi breyting takist og hafi ekki óheillavænleg áhrif á okkar vanþróaða peningamarkað. Það er einmitt það atriði sem þarf að athuga sérstaklega í nefndinni, það þarf að athuga mjög vandlega hvaða áhrif þessi breyting hefur á peningamarkaðinn í landinu. Það hefur að sönnu verið gerð greinargerð um það af sérfræðingum ríkisstjórnarinnar, en ég held eigi að síður að það sé hollt fyrir framgang málsins að kalla í þá menn sem vinna úti á akrinum í þessum verðbréfamarkaði og fá þeirra álit á þessu máli. Ég mun auðvitað stuðla að því fyrir mitt leyti að þetta mál fái meðferð og að unnið verði í því sem vandlegast en ég vildi eigi að síður láta þessi orð koma fram nú við 1. umr. málsins.
    Ég vil undirstrika það að við framsóknarmenn höfum á engan hátt unnið með óeðlilegum hætti að þessu máli. Það eru um þetta mál mjög skiptar skoðanir og einstakir þingmenn hafa lýst sínum sjónarmiðum. En að sjálfsögðu munum við vinna að málinu með eðlilegum hætti í þingnefndum þannig að málið fái þá vandlegu skoðun sem það þarfnast.