Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hér fyrir nokkrum dögum síðan var mælt fyrir breytingum á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og gerð grein fyrir nýju kerfi sem ákveðið hefur verið að innleiða á þeim vettvangi. Liður í þeim breytingum er að taka upp vaxtabætur samkvæmt því frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem ég mæli hér fyrir.
    Í raun og veru má segja að þetta frv. sé eins konar fylgifrumvarp með því frumvarpi sem hér var mælt fyrir af hæstv. félmrh. og var við þá umræðu gerð þó nokkur grein fyrir þeim vaxtabótum sem hér eru gerðar tillögur um. Ég sé því ekki ástæðu til þess að vera að fjalla um það ítarlega hér á þessu stigi því í raun og veru má segja að öll ákvæði þeirra lagagreina sem hér kveður á um skýrist af samhengi við það frv. sem hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir.
    Að ýmsu leyti má segja að það séu þingtæknilegir erfiðleikar því samfara að óhjákvæmilegt er að flytja þetta frv. hér sem breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og samkvæmt þingsköpum að vísa því til hv. fjh.- og viðskn. Ég vil hins vegar mælast til þess að hv. fjh.- og viðskn. muni ásamt þeirri nefnd sem fær hitt frv. til meðferðar fjalla um þetta lagafrv. í tengslum við það.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að vera að reifa hér ítarlega efnisatriði þessa máls, en hægt er að gera það nánar við 2. umr. þegar fjallað hefur verið um það meginfrumvarp sem hér er enn til umræðu í deildinni. Ég mælist til þess að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.