Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég held að menn tali sig upp í óþarflegan hita og noti kannski stærri orð en efni standa til. Einkum fannst mér það eiga við hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég held að það verði varla sagt með fullum rökum að hér sé sérstakur níðingsskapur eða þvingunaraðgerðir á ferðinni. Hér er ósköp einfaldlega verið nákvæmlega og orðrétt að festa í lög heimildarákvæði í samræmi við löngu kynnta afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á þessu máli og því til sannindamerkis vil ég, með leyfi forseta, lesa upp úr framsöguræðu formanns fjvn. við 3. umr. fjárlaga sem hugsast kann að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi einnig hlýtt á á sínum tíma. Þar var sérstaklega gerð grein fyrir afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á þessu máli, bæði hvað snerti lánsfjárlög og ákvörðun um að hefja endurskoðun þessara laga. Svo segir í dálki 2845 í þingtíðindum við umræður 5. janúar, 10. hefti:
    ,,Þessi afgreiðsla [þ.e. skerðing á þessum framlögum] á sér fordæmi frá afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 [og það er mjög athyglisvert og rétt fyrir hv. 2. þm. Norðurl. v. að minnast þess að fordæmið er sótt til þeirrar ríkisstjórnar sem hann studdi sérstaklega]. Í sambandi við þessar afgreiðslur er rétt að taka fram að landbrh. hyggst láta endurskoða lög um jarðræktarframlög og einnig búfjárræktarlög. Gert er ráð fyrir því að þær breytingar sem sú endurskoðun hefur í för með sér dragi úr útgjöldum vegna nýframkvæmda sem tengjast hefðbundnum búgreinum. Í tengslum við endurskoðun og afgreiðslu nefndra lagabreytinga er ætlunin að ganga frá uppgjöri á skuldum vegna þegar tilkominna framkvæmda samkvæmt gildandi jarðræktar- og búfjárræktarlögum og leita samkomulags um greiðslu þeirra á tilteknu tímabili.``
    Í tengslum við afgreiðslu þessara laga, segir þarna í framsöguræðu formanns fjvn., og nákvæmlega og samkvæmt orðanna hljóðan er því orðalag brtt. haft á þann veg sem nú gefur að líta brtt. á þskj. 686 eins og hún hefur verið prentuð upp, en þar segir:
    ,,Þó er fjmrh. heimilt að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis, að ganga frá uppgjöri og ákveða tilhögun greiðslna vegna ógreiddra framlaga ríkissjóðs til jarðræktarframkvæmda árið 1988 í tengslum við afgreiðslu nýrra laga um greiðsluskyldu ríkissjóðs vegna slíkra framkvæmda.``
    Sú endurskoðun laganna er nú í gangi og stendur yfir og nýtt frv. hefur bæði verið til umfjöllunar á búnaðarþingi og í þingflokkum stjórnarliðsins og mun væntanlega birtast á Alþingi innan fárra daga þannig að hér er í raun um nákvæmlega orðrétta afgreiðslu á þessari löngu samþykktu ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ræða.
    Um skerðingarnar þarf ekki að fara mörgum orðum. Þær eru þingreyndum mönnum mjög vel kunnar, m.a. þeim sem hafa staðið að afgreiðslu lánsfjárlaga um árabil á Alþingi eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. Hann kannast mætavel við að því miður hefur það orðið svo að margir góðir málaflokkar hafa

mátt sæta því að lögbundin framlög hafa verið skert með svonefndum ,,þrátt fyrir ákvæðum`` í lánsfjárlögum. Langir dálkar slíkra skerðingarákvæða hafa því miður verið niðurstaðan í hverju lánsfjárlagafrv. á fætur öðru og hafa ýmsir viðkvæmir málaflokkar eins og Framkvæmdasjóður fatlaðra verið skertir ár eftir ár þannig að hér er ekki nýmæli á ferðinni hvað það snertir.
    Ég get út af fyrir sig tekið það fram ef einhverjum finnst það fréttnæmt að þetta er ekki endilega óskaniðurstaða eða óskaafgreiðsla landbrh. á þessum málaflokki, en mér dettur ekki í hug að fara með einhverjum lítilmótlegum hætti að skjóta mér undan ábyrgð í þessu efni. Ég stend að sjálfsögðu fyllilega ábyrgur fyrir því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í þessum efnum og skammast mín ekki fyrir að flytja þessa brtt. í framhaldi af því.
    Ég endurtek að hversu hratt tekst síðan að greiða upp þessar skuldir verður að ráðast af aðstæðum eins og jafnan þegar slíkt á í hlut. Ég vil svo undirstrika að hér er verið að afla heimildarákvæðis til að gera þessar skuldir upp og það mætti hv. 2. þm. Norðurl. v. hugleiða að eins og lánsfjárlagafrv. hefur litið út fram að þessu hafa alls engin heimildarákvæði af þessu tagi verið þar inni þannig að hér er þó verið að afla heimilda til að ganga í að gera upp þessar skuldir. Ég hefði haldið að hann, hv. þm. sem gerði sig að sérstökum talsmanni og verndara bænda og að mér skildist í hans ræðu nánast sá eini sem nú stæði uppi eftir á Alþingi í þeim hópi sem einhvers mæti bændastéttina og vildi veg hennar einhvern, ætti að fagna því, hv. 2. þm. Norðurl. v., að hér er þó verið að afla heimildarákvæða til að gera upp þessar skuldir hverjar ekki voru fyrir í frv. eins og það liggur fyrir. Ég verð að segja það alveg eins og er að fyrr vil ég afgreiða frv. svo breytt, hafandi þó þessa heimild inni, en hafa hana alls ekki þannig að alls engin heimildarákvæði séu til að stofna til útgjalda í þessum efnum innan fjárlagaársins. Ég legg eindregið til að þessi brtt. verði samþykkt og ég sé ekki sérstaka ástæðu til að fresta þessari umræðu vegna þess að þessi tillaga hefur verið flutt í samráði við fulltrúa meiri hlutans í fjh.- og viðskn. og ég hygg að því verði ekki á móti mælt að hún sé í einu og öllu í samræmi við löngu ákveðna afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á þessu máli.