Stjórnarfrumvarp um verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. 1. mál á dagskrá deildarinnar í dag er frv. um verðbréfaviðskipti. Svo vill til að þetta er 1. mál þingsins, mál sem var undirbúið af fyrrv. ríkisstjórn, vandlega undirbúið og lagt fram af núv. hæstv. ríkisstjórn sem 1. mál þessa Alþingis. Það hefur ekki enn komið til lokaafgreiðslu. Við umræðuna hafði komið fram að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður fjh.- og viðskn., óskaði eftir því að afgreiðsla málsins yrði tafin til þess að unnt væri að tengja hana afgreiðslu annars máls sem hann ber fyrir brjósti og var þá til meðferðar í Ed. Alþingis og ég hygg að sé þar enn. Það kom hins vegar fram í máli hæstv. viðskrh. að hann sæi ekki ástæðu til að tefja framgang þessa máls með þessum hætti og ég tek mjög eindregið undir þá skoðun hæstv. viðskrh. Það er ekki vansalaust hversu það hefur dregist að afgreiða þetta mál. Hv. fjh.- og viðskn. hefur haft nægan tíma til að fjalla um málið frá því að það kom síðast til umræðu í deildinni þannig að þau rök eiga ekki lengur við. M.ö.o., herra forseti: það eru engin málefnaleg rök lengur fyrir því að tefja lokaafgreiðslu og lokaumfjöllun hér og ég mælist eindregið til þess að málið verði útrætt og afgreitt þegar á þessum fundi, enda engin málefnaleg rök til annars.