Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Á hinum stutta en árangursríka fundi sínum hefur hv. fjh.- og viðskn. leitt mörg mikilvæg mál til lykta eins og við höfum nú þegar fengið að heyra í ræðum hv. frsm. nefndarinnar og eitt af þeim er atriði sem vafðist nokkuð fyrir mönnum fyrr á fundinum.
    Nú hefur það orðið að ráði hjá meiri hl. nefndarinnar að halda sig við orðalag upprunalegu brtt. eins og hún var flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Það get ég mjög vel sætt mig við. Það hefur sýnt sig að tilraunir til að orða sama hlutinn með öðrum hætti, sem hér voru uppi hafðar af mér og fleirum í því skyni að reyna að skýra betur hluti sem ýmsum þóttu óljósir, hafa ekki skilað betri árangri en upphafleg tillaga fjh.- og viðskn. eða meiri hl. hennar. Þá legg ég að sjálfsögðu til að menn haldi sig við það og dreg til baka brtt. mína á þskj. 686, vísa að nýju til umræðna sem um þetta hafa orðið og skýringa á ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í vetur, sérstaklega framsöguræðu formanns fjvn. frá 5. jan. sl. sem í raun skýrir með fullnægjandi hætti það sem hér er efnislega á ferðinni þannig að út af fyrir sig þarf ekki að setja á langar ræður um endanlegt orðalag heimildarákvæðanna sem hér eru sett inn í lánsfjárlög.