Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 670 við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Hreggviður Jónsson og Albert Guðmundsson. Tillagan er sú að 22. gr. falli brott, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum eigi nema hærri fjárhæð en 28 millj. kr. á árinu 1989.``
    Í lánsfjárlögum er Ferðamálaráði ætluð sama upphæð og í fyrra en skerðingin á framlagi ríkisins til ráðsins er nú meiri en þá. Tekjur Ferðamálaráðs skulu vera 10% af tekjum Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli af seldu áfengi og tóbaki og í fjárlögum fyrir 1989 er gert ráð fyrir að þær verði rúmlega 1 milljarður eða 1010 millj. kr. þannig að framlag til ráðsins ætti í raun og veru að vera 101 millj. kr., en verður þess í stað 28 millj.
    Lögin um tekjustofn Ferðamálaráðs tóku gildi 1976, en framlagið til ráðsins hefur ætíð verið skert. Skerðingin hefur að jafnaði numið um 60%. Með þessu er rekstrarfé Ferðamálaráðs skert verulega og þriðja árið í röð mun ráðið ekki geta veitt neinu fé til umhverfismála. Bróðurparturinn af rekstrarfé ráðsins mun renna til landkynningarverkefna, en auk þess er gert ráð fyrir að verja fé til að ýta undir ferðalög Íslendinga innan lands.
    Það væri athugandi, hæstv. forseti, að gera samanburð á framlaginu úr ríkissjóði til Ferðamálasjóðs og t.d. ferðakostnaði bara ráðherranna einna. Mig grunar fastlega að sá liður yrði allverulega hærri en framlag til sjóðsins.
    Það er í rauninni sorglegt að slíkur tekjustofn sem ferðamannaiðnaður er skuli vera jafnvannýttur og illa sinnt og raun ber vitni. Hér eru möguleikar á tekjum upp á fleiri milljarða króna ef vel væri að staðið.
    Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni afskaplega svipaða tillögu þar sem það var að vísu skilyrt að ákveðinn hluti hækkaðra framlaga til sjóðsins skyldi vera skilyrtur því að ákveðin krónutala skyldi renna til umhverfismála. Nú er það að vísu kannski ekki eðlileg málsmeðferð að skilyrða framlag sem slíkt, enda eiga Ferðamálaráð og Ferðamálasjóður að deila út sínum peningum eins og þeir telja að best sé gert. En ég get ekki látið hjá líða að vitna aðeins til orða núv. hæstv. samgrh. sem fer með þessi mál og mælti fyrir þessari brtt. okkar á síðasta þingi, en þar segir hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ég hygg að enginn liður sem höggvið er að í þessari lánsfjáráætlun sé jafnhlálega og hróplega í ósamræmi við hátíðarræður ýmissa manna og þessi framlög til ferðamálanna. Það er alkunna að það er vinsælt á tyllidögum að lofsyngja ferðamannaiðnaðinn eins og það er kallað núna þó það heyri víst ekki undir iðnrh. eins og halda mætti.``
    Og síðar í sömu ræðu: ,,Ég tel því að sú niðurstaða

sem verður hvað fjárveitingar til þessa verkefnaflokks varðar ef tillögur meiri hlutans verða hér knúnar í gegn og brtt. minni hlutans ná ekki fram að ganga sé nánast svívirða við landið, fóstru okkar, Ísland.``
    Þetta voru orð, hæstv. forseti, núv. hæstv. samgrh. fyrir ekki ári.
    Nú er freistandi að spyrja hæstv. ráðherra hvað hefur breyst svona mikið á þessum skamma tíma. Hefur hann algjörlega kúvent í skoðunum varðandi þennan málaflokk?
    Til að ljúka tilvitnun í ræðu hæstv. ráðherra vil ég lesa, með leyfi forseta, eftirfarandi: ,,Ég tel þetta, herra forseti, einhverja hneykslanlegustu og aumingjalegustu niðurstöðu að mörgum slíkum ljótum hjá hæstv. ríkisstjórn.``
    Er ekki ástæða til að ætla að hæstv. ráðherra mundi slást í hópinn með okkur og styðja nákvæmlega sama mál og hann lagði sjálfur fram hér í fyrra? Ég trúi ekki öðru. Ef ekki vænti ég þess að hæstv. ráðherra skýri frá sinni afstöðu og hvernig hans viðhorf hafa breyst á þessum stutta tíma.
    Hæstv. forseti. Á þskj. 634 liggur frammi brtt. frá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur sem gerir ráð fyrir að II. kaflinn eins og hann leggur sig falli brott. Þessi tillaga fékk fá atkvæði fyrr í dag, sjálfsagt af skiljanlegum ástæðum. Ég greiddi henni hins vegar atkvæði vegna þess að mér finnst fáránlegt að setja lög sem í upphafi á greinilega alls ekki að fara eftir. Það er skammarlegt að kveikja vonir hjá aðilum og stofnunum og fyrirtækjum og hverra sem gera sér vonir vegna slíkrar lagasetningar og svíkja þær síðan. Það er mikið hreinlegra að ganga beint til verks og fella þessi lög alfarið niður og ákveða þá fasta fjárveitingu hverju sinni. Þess vegna studdi ég þessa tillögu og má kannski segja að það hafi verið ákveðin mótmæli gegn því fyrirkomulagi sem hér er viðurkennt ár eftir ár og er í rauninni þinginu til háborinnar skammar. En síðan koma upp menn talandi fyrir ákveðna málaflokka og fara fram á að þar séu ,,þrátt fyrir ákvæðin`` í undantekningartilfellum felld niður. Auðvitað á að stíga skrefið til fulls og fella þennan kafla alfarið út.
    Sú brtt. sem hæstv. landbrh. lagði fram og olli smáfjaðrafoki fyrr í kvöld á þskj. 686 og hefur aftur verið breytt í fyrra form er vítaverð fyrir það hversu seint hún kemur fram, en ég vildi spyrja ráðherra til að fá það þá staðfest hvort þetta gildi ekki einnig um eldri skuldbindingar fyrir árið 1986 og 1987 og eins hvort það sé fordæmi fyrir því í lánsfjárlögum að svona sé að málum staðið. Mér heyrðist það á nefndarfundi hjá fjh.- og viðskn. að það væru sennilega engin fordæmi fyrir slíku og þá er kannski rétt að spyrja hæstv. forseta hvort það sé þinglega að staðið.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða frekari tíma þingsins. Ég legg að sjálfsögðu til að þær tillögur sem ég og hæstv. núv. samgrh. fluttum á síðasta þingi og eru endurfluttar í kvöld verði samþykktar og þar með samþykki og atkvæði hæstv. ráðherra.