Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég gerði athugasemd við brtt. sem hefur verið hvað mest á dagskrá í kvöld á þskj. 637 við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 og beindi orðum mínum fyrst og fremst að forseta og lagði fyrir hann ósk um það að hann léti kanna þegar í stað hvort þessi tillaga væri þinglega fram sett eða ekki. Ég hef ekki fengið svar við því. Ég vona að við berum svo mikla virðingu hvor fyrir öðrum að þegar við erum í okkar störfum fyrir þá sem hafa kosið okkur, fyrir þjóðþingið, þá fáum við svör. Þegar þingmaður dregur í efa að rétt sé að staðið hlýtur þingforseti að verða við þeirri beiðni að láta kanna þegar í stað hvort hann er að brjóta eða ekki brjóta þingsköp. ( Forseti: Mætti ég biðja hv. ræðumann að nefna númerið á viðkomandi þingskjali.) Ég gerði það í upphafi máls míns, en ég skal endurtaka það. Ég er hér að ræða brtt. á þskj. 637 við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989. Þetta voru mín upphafsorð.
    Aðalforseti er ekki staddur hér. Ég óska eftir því að hann verði sóttur, hann er í húsinu, og látinn skýra frá því hvort hann hafi hugsað sér að gefa þær upplýsingar sem ég bað um eða ekki. En ég ætla þó að bæta við það sem ég sagði fyrr í kvöld í máli mínu þegar ég dró í efa, vefengdi, allt að því fullyrti að hér væri rangt að staðið þar sem fjmrh. er gert með þeim hugmyndum sem hér eru á blaði að starfa í samráði við tvo aðra aðila, annars vegar landbrh. og hins vegar fjvn., í fleiri en einu og fleiri en tveimur tilfellum. Hér er verið að skerða framkvæmdarvaldið og við vitum að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað vald. Orðum mínum til stuðnings og sem frekari rök fyrir máli mínu vil ég benda á að til að breyta framkvæmdarvaldinu á einhvern hátt, hvað lítið sem það er, þarf skv. 26. gr. þingskapa Alþingis á bls. 15 annað og meira til. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp þá grein. Þar segir:
    ,,Lagafrumvarp, er felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frumvarp til stjórnskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn vísar forseti því frá.
    Breytingartillögu, sem felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, má aðeins gera við frumvarp til stjórnskipunarlaga. Sé hún gerð við annað frumvarp vísar forseti henni frá.``
    Það er ekki í nokkrum tilfellum heimilt að breyta frá því sem stjórnarskráin segir um löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið né dómsvaldið nema eftir ákveðnum settum reglum. Það er tekið fram í 26. gr. nákvæmlega hvað forseta ber að gera ef brtt. við stjórnsýslu landsins kemur fram í öðrum frumvörpum en þar er um getið.
    Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að þessi tillaga á þskj. 637 verði ekki afgreidd fyrr en þar til bærir aðilar hafa skorið úr um hvort ég fer með rétt eða rangt mál. Ég á afskaplega bágt með að sætta mig við það sem þingmaður að það skuli ekki tekið meira tillit til óska af þessu tagi frá hvaða þingmanni sem það kann að koma en gert hefur verið í dag. Ég endurtek: Það er ekkert eftir þessum leiðum sem gefur

flm. þessarar tillögu, meiri hl. hv. fjh.- og viðskn., heimild til að leggja þessa tillögu fram. Mér þætti, virðulegur forseti, afar miður ef ég er ekki tekinn alvarlega í ræðustól. Ef svo er ekki óska ég eftir orðinu aftur og þessi fundur verður ekkert búinn í nótt. Ég les þá bara upp úr einhverri bók þangað til ég er búinn að fá svar við þessu.