Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir stjfrv. um breytingu á lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eins og það kemur frá hv. Ed.
    Brtt. í þessu frv. eru byggðar á þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd seðlabankalaganna á gildistíma þeirra, en þessi reynsla hefur sýnt að nauðsynlegt er að skýra betur og skerpa nokkur ákvæði í þessum lögum til að ná markvissari stjórn í peninga- og vaxtamálum.
    Í 1. gr. frv. er fjallað um laust fé innlánsstofnana. Í ljós hefur komið að endurbæta þarf ákvæði laganna varðandi skilgreiningu á lausu fé. Í júní í fyrra setti Seðlabankinn nýjar reglur um þessa skilgreiningu, en varð að hverfa frá henni um síðustu áramót þar sem lagagrundvöllur fyrir henni reyndist ekki ótvíræður. Um þetta efni vísa ég til fyrsta fylgiskjals með frv., en þar gerði Seðlabankinn grein fyrir málinu ásamt áformaðri breytingu á framkvæmd bindiskyldu lánsfjár sem er framkvæmd á grundvelli 1. mgr. 8. gr. þessara laga. Í greinargerð Seðlabankans kemur fram að fyrirhugað sé að bindiskyldan reiknist framvegis af ráðstöfunarfé í heild í stað innlánanna einna eins og nú er. Þessi breyting mun, að mati Seðlabankans, koma sér vel fyrir þá banka sem mesta fyrirgreiðslu veita fyrirtækjum í útflutningsgreinum vegna þess að undanskilin verða frá ráðstöfunarfénu endurlán erlendra lána vegna afurðalána. Á sama hátt mun þessi breyting líka fela í sér að bindiskyldan nái framvegis, ef þessi breyting verður framkvæmd, til útgáfu bankabréfa og til veðdeildarstarfsemi bankanna sem hingað til hefur verið undanskilin í grunni bindiskyldunnar.
    Miðað við síðustu áætlanir Seðlabankans úr reikningum bankanna mundi þessi breyting bæta að mun stöðu Landsbankans en einnig Búnaðarbanka og Útvegsbanka. Breytingin ætti því að auðvelda þessum bönkum að veita útflutnings- og samkeppnisgreinum betri fyrirgreiðslu en ella.
    Í 1. gr. í þessu frv. er einnig lagt til að Seðlabankinn hafi heimild til þess að setja innlánsstofnunum reglur um gengisbundnar eignir og skuldir og um endurlánajöfnuð sem ætlað er að koma í veg fyrir hættu á gengisbreytingum. Hér er um mikilvægt öryggisatriði að ræða fyrir íslenska bankakerfið að girða þannig fyrir gengisáhættu eftir því sem kostur er.
    Þá er líka í 1. gr. þessa frv. eins og það kemur frá hv. Ed. lagt til að í 8. gr. seðlabankalaganna komi ákvæði um heimild til Seðlabanka Íslands að láta sömu reglur eða jafngildar reglur gilda um verðbréfasjóði og settar eru innlánsstofnunum hvað varðar bindiskyldu. M.a. með kaupskyldu á öruggum verðbréfum, einkum ríkisskuldabréfum. Ákvæði þessa efnis var upphaflega í frv. til laga um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði en þykir betur fara samkvæmt sínu efni í þessu frv. eins og þegar hefur reyndar verið rætt ítarlega í þessari hv. þingdeild í tengslum við 1. mál þingsins sem samþykkt var sem lög frá þessari deild fyrr í kvöld.

    Þá kem ég að 2. gr. frv., en þar er lagt til að 9. gr. laganna verði breytt á þann veg að Seðlabankinn geti með samþykki viðskrh. betur tryggt en nú er kostur að raunvextir útlána í innlánsstofnunum verði hóflegir og að jafnaði ekki hærri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Þá er einnig lagt til að Seðlabankinn geti bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til þess að draga úr óhæfilegum vaxtamun inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana. Með þessum breytingum er í reynd áréttuð og skýrð heimild Seðlabankans til að veita vaxtaákvörðunum innlánsstofnana aðhald. Hér er fyrst og fremst verið að skerpa þennan íhlutunarrétt Seðlabankans án þess að raskað sé í meginatriðum því fyrirkomulagi vaxtaákvarðana sem í gildi hefur verið, þ.e. um valddreifingu í þessum viðskiptum. Hins vegar tel ég að reynslan hafi sýnt að það sé erfitt að meta nákvæmlega raunvexti til samanburðar á milli landa og þá er einnig matið á vaxtamun inn- og útlána ekki síður vandasamt. Þess vegna er eðlilegt að gefa Seðlabankanum færi á huglægu mati á því hvað hóflegt geti talist í þessum efnum og þá ekki síður hvað varðar raunvexti en vaxtamun, en áður var slíkt mat lagt í hendur bankans hvað varðar vaxtamuninn.
    Þá er lagt til í 2. gr. frv. eins og það kemur frá Ed. að í 9. gr. seðlabankalaganna verði bætt nýrri málsgr. er veiti Seðlabankanum heimild til að binda ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum, enda hafi Seðlabankinn áður hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum á grundvelli þessarar greinar laganna. Hér er um hliðstæðu við það að ræða sem ég áður lýsti um innlánsbindingu, þ.e. efni þessarar greinar var áður í frv. um verðbréfasjóði og fyrirtæki en hefur nú verið fært til föðurhúsanna í seðlabankafrv.
    Þá er í 3. gr. frv. lagt til að endurskoðun hjá Seðlabanka Íslands skuli framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni er ráðherra skipar og er sú breyting í samræmi við lög nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, og er til þess hugsuð að einfalda fyrirkomulag endurskoðunar í Seðlabankanum eftir að til eru komin lögin um þessa stofnun þingsins, Ríkisendurskoðun.
    Þá kem ég að 4. gr. frv. En í henni er gerð tillaga um þá breytingu að viðurlög skv. 41. gr. seðlabankalaganna skuli renna að *y3/4*y hlutum í ríkissjóð. Samkvæmt lögum og reglugerð um Seðlabankann hefur bankinn heimild til þess að innheimta viðurlög ef hlutfall lausafjár er fyrir neðan sett mörk eða ef ekki er staðið við skyldu til innlánsbindingar. Þessi viðurlög eru mjög mikilvæg til þess að tryggja að settum reglum sé fylgt í þessum efnum sem er grundvallaratriði fyrir framkvæmd allrar stefnu í peningamálum.
    Það er betra að mínu áliti og verður ekki hjá því komist að hafa slík viðurlög í lögum, en því er ekki að neita að há viðurlög sem einstakar stofnanir þurfa

að greiða hafa oft og tíðum leitt til óánægju og þrýstings á bankann og á stjórnvöld að lina þessi tök og draga úr viðurlögunum. Það væri illa farið því að það er til lítils að hafa slík ákvæði án viðurlaga og hætt við að þá hefði bindiskylda og lausafjárkvöð litla stoð. Hér er lagt til að viðurlögin renni til ríkissjóðs að *y3/4*y hlutum strax árið eftir að þau hafa myndast. Með því er ljóst að Seðlabankinn hafi ekki lengur beinan verulegan hag af þessum viðurlögum sem ætti þá að kveða niður kröfur á hendur honum um að láta af hendi þetta fé.
    Að endingu er svo í 5. gr. laganna lagt til að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um að innheimta viðurlaga á árinu 1988 greiðist þegar að *y3/4*y hlutum til ríkissjóðs á árinu 1989. Ég vil upplýsa hv. þingdeild í þessu sambandi um það að innheimt viðurlög á síðasta ári námu samtals 335,8 millj. kr., en samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu sem hér er gerð tillaga um mundu 251,8 millj. kr. koma í hlut ríkissjóðs á þessu ári sem eru tekjur sem ekki hefur verið reiknað með á fjárlögum.
    Hæstv. forseti. Ég lýk máli mínu með því að óska þess að þetta mál hljóti skjóta en vandaða meðferð í deildinni. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.