Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands sem eru ekki nema tæplega þriggja ára. Ég ætla ekki að ræða ítarlega efnislega um þetta frv. eða þær breytingar sem gerðar voru á frv. í hv. Ed., en ég vil ítreka það, sem kom raunar fram í máli mínu í dag í framsögu um frv. til lánsfjárlaga, að ég kom þá inn á að meðalvextir víxillána, nafnvextir, voru á sl. ári 28,5%, ávöxtun 34% og verðbólga 19,1%, en raunvextir voru að meðaltali 12,5% á því ári. Miðað við meðalvexti víxillána viðskiptabanka og sparisjóða frá áramótum og til 21. mars eru meðalnafnvextir 16,3%, ávöxtun 18% og verðbólga miðað við gömlu lánskjaravísitöluna 29,7%, en raunvextir eru neikvæðir um 9,1%.
    Mér er sagt að það hafi orðið verulegur halli á sumum bönkum fyrstu tvo mánuði þessa árs og segja mér fróðir menn að sá halli muni nema jafnvel um 300 millj. kr. Ég vil því spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hann telji fært að fara svo neðarlega með vexti að við stefnum í það og ætlum að viðhalda neikvæðum raunvöxtum. Ég tel að það sé afar hættulegt að stefna að því marki. Hins vegar er sjálfsagt að stefna að því að draga úr verðbólgunni og koma henni aftur niður, en hún er bara á rjúkandi ferð í þveröfuga átt við það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér.
    Það fylgja hér með, eins og hæstv. ráðherra gat um, fylgiskjöl, m.a. er fylgiskjal II, samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febrúar um peninga --- og vaxtamál. Í nýútkomnu fréttabréfi um verðbréfaviðskipti, sem Samvinnubankinn gefur út, er þessi samþykkt, sem er með þessu frv., prentuð upp og síðan segir að í þessu fylgiskjali sé bent á mörg mikilvæg atriði sem gætu stuðlað að umbótum í peninga- og vaxtamálum, lægri raunvöxtum og betra jafnvægi á lánamarkaði. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin veitt Seðlabanka heimild fyrir fram til að hækka bindiskylduhlutfall innlánsstofnana. Ríkissjóður mun neyta stöðu sinnar sem stærsti lántakandi á innlendum markaði til að ná fram hóflegum raunvöxtum. Lagt er að Seðlabankanum að beita sér fyrir endurskoðun á ávöxtunarkjörum viðskiptaskuldabréfa, viðskiptavíxla og skiptikjarareikninga og beðið er eftir tillögum sérstakrar nefndar um lækkun vaxtamunar. Seðlabankanum verði gefnar nokkru víðtækari heimildir til að blanda sér í vaxtaákvarðanir lánastofnana en nú er. Skilgreining á lausu fé innlánsstofnana verði með markvissari hætti en áður. Bindi- og lausafjárskylda nái til ráðstöfunarfjár innlánsstofnana en ekki eingöngu innlána eins og nú, þ.e. veðdeildir verði teknar með.
    ,,Maður fær á tilfinninguna``, segir í þessu fréttabréfi, ,,að verið sé að villa um fyrir lesandanum á ýmsan hátt. Látið er í veðri vaka að Seðlabankinn geti lækkað raunvexti með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs gegn 5% raunvöxtum óháð verðbólgu og væntingum fólks. Ríkissjóður getur auðvitað náð þessu markmiði fyrir sitt leyti með því að gefa út skírteini

sem seljast ekki. Raunvextir lækka hins vegar ekki fremur en verðbólga með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt. Það er verið að ruglast á orsök og afleiðingu og finna sökudólga í lánastofnunum og Seðlabanka fyrir háum raunvöxtum.``
    Ég spyr hæstv. viðskrh. hvort hann telji að bankaráð Seðlabankans hafi brugðist skyldum sínum. Ég spyr hæstv. viðskrh. að því: Telur hann eðlilegt að raunvextir séu neikvæðir? Telur hann það vera til góðs fyrir lánakerfið, fyrir bankana, sparisjóðina, að hætta þannig á að sparifjáreigendur taki fé út úr lánastofnunum og fari með það í framkvæmdir sem jafnvel teljast ekki þá allar þær allra nauðsynlegustu eða fari jafnvel inn á hinn ,,gráa markað``? Ég held að það verði að gæta hófs í þessum efnum og það sé ekki hægt að ganga þannig eins og samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febrúar ber með sér. Hún er barnaleg samþykkt að mínum dómi, þessi samþykkt frá 6. febrúar.
    Ég held að það sé sama hvar sé talað við menn í bankakerfinu og hvar sem þeir eru í flokki, einnig þá sem fylgja þeim flokkum sem standa að núv. hæstv. ríkisstjórn. Þeir telji það skyldu sína að reka bankakerfið með þeim hætti að bankarnir hagnist frekar en tapi. Það hefur nú verið heldur betur sungið hér í sölum á hæstv. Alþingi þegar hafa orðið töp í bönkum og þá er stjórnendum kennt um. Ég held að við getum ekki með einfaldri samþykkt og handauppréttingu í ríkisstjórn gjörsamlega horfið frá því markaðskerfi sem við hljótum að verða að lúta í þessum efnum.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hef heitið því að hraða því að standa að afgreiðslu þessa máls á morgun í hv. fjh.- og viðskn. og hef þegar óskað eftir ákveðnum mönnum á fund nefndarinnar og skal ekki, þó að ég sé að mörgu leyti andvígur því sem fram kemur í þessu frv. og þeim breytingum sem urðu í Ed., reyna að lengja meðferðartíma málsins í nefndinni og mun standa að því að nefndin geti afgreitt frv. frá sér á morgun eins og óskað hefur verið eftir.