Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Frv. til lánsfjárlaga er að nýju komið til þessarar hv. deildar þar sem nokkrar breytingar voru gerðar á því við 2. og 3. umr. í Nd. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar kom saman í gærkveldi og ræddi þær breytingar sem fyrir lágu á frv. í Nd. og meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd.
    Þær breytingar sem á því voru gerðar eru í stuttu máli þær að við 2. umr. var samþykkt breyting við 5. gr. Upphaf greinarinnar orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er, að höfðu samráði við fjvn. Alþingis, að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra sem hér segir:`` Og enn fremur ,,7. tölul. Aðrar skuldbreytingar vegna greiðsluvandkvæða, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 100 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.``
    Breytingin hér er í því fólgin að talan var áður 23 millj. en er nú hækkuð í 100 millj.
    Önnur breyting sem samþykkt var við 2. umr., og þessar breytingar er að finna á þskj. 637, hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt, að höfðu samráði við fjvn. Alþingis, að semja við Þormóð ramma hf. um ráðstafanir til að bæta fjárhag fyrirtækisins.`` Svo sem kunnugt er er ríkissjóður að hluta eignaraðili að þessu fyrirtæki.
    Við 3. umr. voru í Nd. samþykktar tvær breytingar. Við 28. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Þó er fjmrh. heimilt, að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.``
    Hin breytingin, með leyfi forseta: Við 29. gr. bætist nýr málsl. er orðist svo:
    ,,Þó er fjmrh. heimilt, að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til búfjárræktar á árinu 1988.``
    Þá hef ég, herra forseti, gert grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á frv. til lánsfjárlaga við 2. og 3. umr. í Nd. og meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd.