Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á að vera ekki mættur við upphaf fundar. Það skeði einfaldlega þannig að mér var ekki ljóst að fundur yrði haldinn í hv. Ed. fyrr en að loknu hádegi og hafði ekki gert mér grein fyrir því að fundur hafði verið boðaður í hv. deild á öðrum tíma en í hv. Nd. En hv. 4. þm. Austurl. Egill Jónsson var svo vinsamlegur að láta mig vita að þessi mál kæmu til umræðu og ég kom því að sjálfsögðu til fundarins.
    Ég hef ekki miklu við þau svör að bæta og þær umræður sem þegar hafa orðið um þetta mál, bæði í þessari hv. deild fyrr í vetur og eins í hv. Nd. Ég endurtek að heimildarákvæði 28. og 29. gr. eru í beinu samræmi við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í framsöguræðu formanns fjvn. við 3. umr. fjárlaga þegar 5. jan. sl. og á því ekki að koma neinum á óvart. Eins og fyrir liggur í fjárlögum og með þessu lánsfjárlagafrv. verða fjárveitingar á fjárlögum ársins ekki nægar til að greiða útistandandi skuldbindingar ríkisins vegna jarðræktar- og búfjárræktarframlaga. Hér hagar sambærilega til og á síðasta ári þegar hv. 4. þm. Austurl. var eindreginn og ötull stuðningsmaður ríkisstjórnar sem þá sat, en varð vegna þröngra aðstæðna í ríkisfjármálum að grípa til skerðinga af því tagi sem við búum enn við í þessum efnum. Hér er því ekki nýmæli á ferðinni hvað þetta snertir heldur farið nákvæmlega í slóð fyrri ríkisstjórnar og þykir mönnum illt við að búa en verður ekki við því gert. Það er hins vegar ætlun manna að breyta þessu fyrirkomulagi og koma með nýjum lagaákvæðum nýrri skipan á tilhögun þessara mála. M.a. gera þau frumvarpsdrög, sem rædd voru og kynnt á búnaðarþingi og eru nú til athugunar hjá þingflokkum stjórnarliðsins, ráð fyrir því að í áföngum verði komið á staðgreiðslu þessara framlaga með þeim hætti að framlög ríkisins greiðist þegar á sama ári og til framkvæmdanna er stofnað að aflokinni úttekt á þeim framkvæmdum, enda hafi áður verið um framkvæmdirnar sótt og viðkomandi umsóknir fengist staðfestar áður en til framkvæmdanna er stofnað.
    Það er rétt að geta þess einnig að verið er að vinna að endurskoðun búfjárræktarlaga og ætlun er að koma fyrir yfirstandandi Alþingi nýju frv. til l. um búfjárrækt, sérstaklega þann hluta gildandi lagabálks um búfjárrækt sem fjallar um búfjárræktarstarfið sjálft. Það er áætlað að sá lagabálkur verði klofinn í tvennt og önnur ákvæði sem lúta að forðagæslu, vörslu búfjár og annað slíkt verði sjálfstætt lagafrv. sem verði þá afgreitt síðar.
    Ástæður þess að talin er nú þörf fyrir lagabreytingu í þessu efni, sérstaklega hvað snertir jarðræktarframkvæmdirnar, eru einfaldlega breyttar aðstæður og ég hygg að um það sé ekki deilt að það sé eðlilegt að þessi lagaákvæði séu endurskoðuð og þeim sé nokkuð breytt með tilliti til nýrra aðstæðna í landbúnaði. Svo að dæmi sé tekið sjá menn ekki að sterk rök hnígi að því að opinberir aðilar styrki sérstaklega nýjar framkvæmdir á sviði framræslu. Ætla

má að þegar hafi verið ræst fram að mestu leyti það land sem til búskapar þurfi á næstu árum á Íslandi og þess vegna standi ekki sömu rök til þess að ríkið styrki nýjan skurðgröft og áður gerðu þegar búskapurinn var í vexti og framleiðsla vaxandi ár frá ári.
    Nú hafa menn eins og kunnugt er og þarf ekki að fjölyrða um búið við stöðnun eða jafnvel samdrátt framleiðslunnar um skeið og þess vegna eðlilegt að áherslan færist meira yfir á það að nota það land sem þegar hefur verið brotið til ræktunar og styrkja endurræktun og hreinsun skurða fremur en nýrækt eða nýjan skurðgröft. Varðandi það hvernig hagað verði uppgjöri þeirra skuldbindinga ríkisins sem ekki hafa enn verið greiddar, þá vek ég athygli á því að hér er á ferðinni heimildarákvæði. Eins og alvenjulegt er er það í valdi fjmrh. sem lögum samkvæmt fær slíkar heimildir í hendur, gjarnan með þeim ákvæðum þó að um þær skuli hann hafa samráð við einhverja tiltekna aðila eins og hér er, við landbrh. og fjvn. Alþingis. Það leiðir svo af sjálfu sér að efni og aðstæður munu ráða lyktum um hversu hratt verður unnt að greiða þessar skuldbindingar. Það er ljóst að þessi heimildarákvæði gefa fjmrh. heimild til að hefja uppgjör þessara skuldbindinga á árinu 1989, en rétt er að undirstrika það, sem reyndar hefur margoft komið fram, að engin loforð eða engar skuldbindingar hafa verið út settar um að það takist að ljúka því uppgjöri á yfirstandandi ári, enda væri þá betur gert en gert hefur verið á yfirstandandi ári gagnvart framkvæmdum ársins 1987. Eins og kunnugt er er enn verið að greiða framkvæmdir á því ári vegna þess að fjárveitingar fjárlagaársins 1988 dugðu ekki nándar nærri til að greiða upp framkvæmdir ársins 1987 sem ég veit að hv. 4. þm. Austurl. er vel kunnugt. Við erum því að þessu leyti til mjög sambærilega á vegi stödd þó að vísu hafi halinn nokkuð lengst eins og gjarnan gerist þegar vandinn safnast upp ár frá ári.
    Meira hef ég ekki um þetta að segja, herra forseti. Það er eindreginn ásetningur minn að reyna að tryggja að sú lagaendurskoðun sem hér er vikið að og þessum málum tengist geti farið fram á yfirstandandi þingi og í beinu framhaldi af því mun ég beita mér fyrir því við fjmrh. að reynt verði að ganga frá einhvers konar samkomulagi um uppgjör þessara framkvæmda og um það verði haft samráð við Búnaðarfélag Íslands og aðra hagsmunagæsluaðila bænda í
landinu þó að orðanna hljóðan megi ekki skiljast svo að ætlunin sé að semja við hvern einstakan bónda eins og út af fyrir sig má færa rök fyrir að rétt væri. Það má deila um þetta orðalag, var reyndar nokkuð um það rætt í hv. Nd. og tilraunir uppi hafðar til að breyta því til skýrari vegar. En niðurstaðan varð svo að halda sig við upphaflega brtt. sem flutt var af meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Nd. og hygg ég að það að heimildarinnar sé aflað sé aðalatriðið fremur en orðalagið í smáatriðum.