Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal lofa fjmrh. því að ég skal ekki blanda mér í umræður um landbúnaðarmál hér. Þetta hafa verið fróðlegar umræður.
    Ég hef, ykkur að segja, nokkrar áhyggjur af fjármálum sveitarfélaga. Ég hef haft aðstöðu til þess í mínum fyrri störfum að kynnast þeim nokkuð ítarlega. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að við séum að fara rétta leið með því að opna fyrir það að veita sveitarfélögum lán gegnum lánsfjárlög. Ég skal að vísu samþykkja það hér á eftir og í reynd fagna því að það skuli gert og ég fagna því líka að neðrideildarmenn skyldu hafa áttað sig á því að vera ekki að nefna eitt einstakt sveitarfélag, eins og upphaflega hugmyndin var, að taka eitt sveitarfélag út úr, heldur eina óskipta upphæð. Verð ég að segja það alveg strax að ég öfunda ekki fjárveitinganefndarmenn að þurfa að reyna að úthluta þessum 100 millj. í erlend lán til þeirra sveitarfélaga sem eru í greiðsluvandræðum. ( EgJ: Fjvn. gerir það ekki.) Ja, það er heimilt að höfðu samráði við fjvn. Alþingis. Það má að vísu ræða hvort það hefði ekki heldur átt að vera fjárhags- og viðskiptanefndir beggja deilda, en það er gömul hefð fyrir þessu og verður sjálfsagt rætt á síðari stigum hvort það ætti að breyta því almennt.
    Ég veit um og gæti nefnt mörg sveitarfélög sem eru í verulegum vanda og ég þykist vita að margar umsóknir muni koma til fjvn. og ríkisvaldsins um að fá að taka lán til að breyta skammtímaskuldum sínum í lengri lán. Ég er líka sannfærður um að flest þau sveitarfélög geta sýnt fram á að þau hafa greiðslustöðu að greiða þessi lán á þetta 8--10--12 árum. Ég man eftir því að þegar ég var í félmrn. var m.a. eitt lítið sveitarfélag tekið til gagngerðrar skoðunar, fjárhagur þess reyndist afar erfiður. Það hefði verið hægt að leysa þann vanda þess sveitarfélags sennilega mjög einfaldlega á þennan hátt með því að skrúfa fyrir framkvæmdir næstu ára og veita þeim slíkt langtímalán. Ég er ekki viss um að við séum samt að fara rétta braut í þessu, en fyrst þetta er komið þarna inn skal ég beita mér fyrir því að þetta fari í gegnum deildina. En ég mun að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess að þetta mál verði kynnt á næsta fundi fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga þannig að sveitarfélögum almennt í landinu sé ljóst hvaða möguleikar eru þá fram undan og ég þykist vita að þá verði að hækka þessa upphæð allmikið á næsta ári. 100 millj. munu ekki fara langt í að duga. Því miður er það svo að sum sveitarfélög hafa ekki gætt vel að fjárhag sínum, ráðist í miklar framkvæmdir án þess að sjá fyrir endann á því. Önnur hafa lent í fólksfækkun, aðskiljanlegum vanda sem er kannski skýranlegur, en ég er viss um að þarna eiga eftir að skapast mikil vandamál hjá stjórnvöldum og fjárveitingarnefndarmönnum um það að reyna að meta og bera saman stöðu hinna ýmsu sveitarfélaga. Ég þykist vita að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og þeirra fulltrúaráðsfundur muni fagna því að þessi heimild komi inn, en ég er ekki viss um að við þurfum að ræða um 100 millj. á frv. til næstu

lánsfjárlaga ef á að reyna að fullnægja þó ekki væri nema helmingi af þeim óskum sem munu koma fram.