Seðlabanki Íslands
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. nefndarinnar skrifaði ég undir álit meiri hl. með fyrirvara varðandi þetta mál. Ég get fallist á að sumar greinar frv. séu til bóta en almennt hef ég því miður ekki trú á að frv., ef það verður að lögum, komi að miklu gagni.
    Ég skil í raun ekki hvers vegna liggur svona mikið á að afgreiða frv. því að það eru ekki nein ákvæði í því sem eru mjög afgerandi, alla vega ekki um það sem skiptir hér neinu verulegu máli. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórn Framsfl., Alþfl. og Alþb. með aðild Samtaka um jafnrétti og félagshyggju er mynduð til að leysa bráðan efnahagsvanda sem steðjar að þjóðinni. Höfuðverkefni hennar er að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi. Stefna ríkisstjórnarinnar byggir í senn á framtaki einstaklinga, samvinnu og samstarfi á félagslegum grunni. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar aðsteðjandi vanda miða að því að treysta atvinnuöryggi í landinu, færa niður verðbólgu og vexti, verja lífskjör hinna tekjulægstu, bæta afkomu atvinnuveganna og draga úr viðskiptahalla.``
    Ég get ekki séð að neitt atriði af því sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi gengið eftir. Verðbólgan hefur ekki minnkað, vextir hafa ekki lækkað og lífskjör hafa svo sannarlega ekkert batnað. Og varðandi það að bæta afkomu atvinnuveganna held ég að allir séu sammála um að varla geti talist að árangurinn sé mikill á því sviði á þessum tíma frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Þannig að það er varla hægt að segja að vel hafi til tekist.
    Síðan stöndum við hér með frv. sem ég hef því miður ekki trú á að breyti stóru í þeim efnahagsvanda sem ekki hefur minnkað þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Það er sem sagt enn þá mikið atvinnuleysi og fyrirtækjum er að blæða út. Að vísu hafa sum fengið fyrirgreiðslu úr Atvinnutryggingarsjóði sem var settur á stofn strax eftir myndun ríkisstjórnarinnar. Sum fyrirtækjanna sem hafa fengið fyrirgreiðslu eru nú komin í sömu spor og áður en sitja bara uppi með meiri skuldir. Og þrátt fyrir sameiginleg ferðalög formanna svokallaðrar alþýðu virðast þeir aðeins hafa séð bjarmann af eigin blysum og sólum en hafa ekki horft í kringum sig og metið það hvernig ástandið er um hinar dreifðu byggðir landsins. Þannig að það hefur ekki tekist að treysta atvinnuöryggi. Það hefur ekki tekist að ná niður verðbólgunni. Það eru verðhækkanir og svo er fólki sagt núna að ekkert svigrúm sé til kauphækkana. Það er þess vegna spurning hvort á að vera að hraða sérstaklega afgreiðslu frv. sem kemur að svo litlu gagni miðað við þann mikla vanda sem við blasir.
    Ég hef hins vegar valið að standa að þessu þannig að ég skrifa undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Ég tel það ekki skipta svo miklu máli til eða frá hvort þetta frv. verður samþykkt. En það á eftir að koma í ljós. Það hefur verið lögð áhersla á að frv. verði samþykkt

fyrir 1. apríl. Og það er þá bara spennandi að fylgjast með hvað gerist þá.
    Ef við snúum okkur að frv. sjálfu fjallar 1. liður 1. gr. frv. um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða, sams konar og lögð er á innlánsstofnanir. Það er vissulega mála sannast að starfsemi innlánsstofnana annars vegar og verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða hins vegar er ekki að öllu leyti sambærileg. Því eru margir þeirrar skoðunar að þessi grein vinni í raun gegn markmiði þessarar lagasetningar, að hin ýmsu fyrirtæki á fjármagnsmarkaði sitji við sama borð. Sannleikurinn er auðvitað sá að Seðlabankinn er bakhjarl innlánsstofnana. Þær eiga aðgang að Seðlabankanum um fyrirgreiðslu, geta fengið þar aðstoð og hafa þar yfirdráttarheimildir. Þannig er í rauninni ríkisábyrgð á þeirra starfsemi. Verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóðir njóta ekki þessa og raunar væri eðlilegt að setja um það ákvæði að ef þessi fyrirtæki væru látin sæta bindiskyldu þá njóti þau einnig sambærilegra réttinda.
    Í frv. er talað um að Seðlabankinn skuli láta sömu reglur gilda fyrir verðbréfasjóði varðandi bindiskyldu. Það eru margir sem hafa bent á, m.a. aðilar frá Seðlabankanum, að þarna hefði verið eðlilegra að tala um að Seðlabankanum sé einungis heimilt að gera þetta. Þannig er það í mörgum nágrannalöndum okkar, að þetta er einungis heimildarákvæði. Að vísu kemur þarna setning í lokin í þessari málsgrein, ,,eftir því sem við getur átt``. Og það má þá e.t.v. túlka það þannig að þarna sé um undantekningarákvæði að ræða eða það megi þá túlka alla þessa málsgrein á þann veg að þarna sé einungis um heimild að ræða. En þetta er einn af þeim fyrirvörum sem ég hef sett við þetta, að ég tel þetta vera of sterkt, sérstaklega miðað við það að þarna er eingöngu verið að setja kvöð og skyldu á verðbréfasjóðina án þess að þeir njóti þeirra réttinda sem innlánsstofnanirnar njóta. Þarna skiptir að sjálfsögðu máli hvernig á er haldið.
    Ég vil taka það fram að ég hef enga sérstaka samúð með verðbréfafyrirtækjum
og verðbréfasjóðum og ég veit að það eru margir sem meta öryggi bankanna fram yfir hugsanlega hagnaðarvon hjá verðbréfasjóðum. Þessi starfsemi býður hins vegar upp á ákveðna kosti og hún er hér orðin til og er að ýmsu leyti gagnleg og ég sé enga ástæðu til þess að gera þeim miklu erfiðara fyrir en þjónustufyrirtækjum á þessu sviði.
    Við erum nýbúin að samþykkja lög hér á Alþingi um verðbréfasjóði sem var fyllilega tímabært. Ef sú lagasetning hefði verið fyrr á ferðinni hefði e.t.v. mátt koma í veg fyrir ýmisleg áföll sem orðið hafa á þessum markaði.
    B-lið 1. gr. frv. eins og það kemur frá Ed. tel ég vera til mikilla bóta, að það verði kveðið nánar á og það séu gerð skýrari ákvæði um hvað er átt við um lausafé bankanna. Ég held því að það sem eftir er af brtt. 1. liðar geti ekki annað en verið til bóta.
    Það er líka gerð till. um breytingu á 2. gr. Ég tel það fyllilega eðlilegt að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra haft áhrif á vexti og bundið þá

innan einhverra ákveðinna marka, þannig að ég er samþykk því atriði í þeirri grein þó að ég vilji varpa þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvað átt sé við með ,,hóflegir``. Þetta er mjög teygjanlegt orð og kannski ekki svo auðvelt að fara eftir þessari grein frv., kannski erfitt að nota hana þar sem hún er frekar opin og bent hefur verið á að þrátt fyrir okurlög í fjölda ára hafi verið mjög erfitt að nota ákvæði okurlaganna um að binda vexti. Þarna skiptir því líka mjög miklu máli um framkvæmd. En ég tel þetta eðlilegt ákvæði.
    Í brtt. við 9. gr. er einnig talað um að Seðlabankinn, að fengnu samþykki ráðherra, geti bundið ávöxtunarkröfur og endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Það væri út af fyrir sig ágætt ef þetta væri hægt en mjög margir hafa fullyrt það í mín eyru að þetta sé óframkvæmanlegt. Allt það sem ég hef heyrt um þetta mál styður það og ég vitna til ræðu síðasta ræðumanns þar sem hann talaði um múslímana þar sem affallaviðskipti eru þau viðskipti sem er mjög erfitt að koma í veg fyrir. Þó svo að ekki séu neinir vextir af verðbréfum þá eru þau samt í raun með háum vöxtum. Þannig að ég sé ekki í fljótu bragði að frv. muni geta verið það hald sem ríkisstjórnin virðist vonast til varðandi vaxtaákvarðanir og það geti haft mjög mikil áhrif, en ef hægt er að nota ákvæði þess, ef það verður að lögum, til þess að minnka vexti og ég tala nú ekki um vaxtamun í bönkunum sem er gífurlegur er það af hinu góða. Það er þess vegna sem ég hef ákveðið að styðja frv. með þó þessum fyrirvörum sem ég hef nú gert grein fyrir.