Minning Sigurvins Einarssonar
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Sigurvin Einarsson, fyrrverandi alþingismaður, andaðist að kvöldi skírdags, 23. mars, á nítugasta aldursári.
    Sigurvin Einarsson var fæddur 30. október 1899 í Stakkadal í Rauðasandshreppi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Einar bóndi þar Sigfreðsson bónda á sama bæ Ólafssonar og Elín Ólafsdóttir bónda í Naustabrekku í Rauðasandshreppi Magnússonar. Hann fór í Samvinnuskólann nýstofnaðan haustið 1918 og lauk þaðan prófi vorið 1919, stundaði síðan kennaranám og lauk prófi frá Kennaraskólanum vorið 1923. Á árinu 1936 sótti hann kennaranámskeið í Danmörku og kynnti sér skóla í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Hann var skólastjóri barnaskólans í Ólafsvík 1923--1932 og síðan kennari við Miðbæjarbarnaskólann í Reykjavík 1932--1943. Hann var einn af stofnendum Dósaverksmiðjunnar í Reykjavík og var bókari og gjaldkeri hennar 1937--1946 og framkvæmdastjóri hennar 1946--1963. Á árunum 1947--1952 rak hann bú í Saurbæ á Rauðasandi og átti þar heimili lengi eftir það. Hann var alþingismaður Barðstrendinga 1956--1959 og síðan Vestfjarðakjördæmis 1959--1971, sat á 15 þingum alls.
    Sigurvin Einarsson var í stjórn Sparisjóðs Ólafsvíkur 1925--1932, sat í hreppsnefnd þar nokkur ár og var oddviti hreppsnefndar Ólafsvíkurhrepps 1931--1932. Hann átti sæti í stjórn Stéttarfélags barnakennara í Reykjavík 1934--1937, var formaður stjórnarinnar 1935--1936. Hann var í eftirlitsráði með opinberum rekstri 1935--1940, kosinn 1937 í rannsóknanefnd verkefna fyrir unga menn, var formaður stjórnar Vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins 1939--1943. Árið 1943 var hann skipaður í milliþinganefnd í launamálum. Hann var í stjórn Fiskimálasjóðs 1954--1971, formaður stjórnarinnar 1957--1960. Formaður milliþinganefndar um ríkisútgjöld var hann 1958--1960, átti sæti í kjararannsóknarnefnd 1963--1973, var kosinn 1964 í áfengismálanefnd og í námsstyrkjanefnd 1972.
    Á æskuárum kynntist Sigurvin ungmennafélagshreyfingunni, sem reyndist ungum mönnum góður félagsmálaskóli, og hann var alla ævi trúr hugsjónum hennar. Á skólastjóraárum sínum í Ólafsvík beitti hann sér fyrir stofnun ungmennafélags og var kjörinn formaður þess. Í Reykjavík tók hann mikinn þátt í félagslífi. Hann gekk ungur í Framsóknarflokkinn, starfaði mikið í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, var um tíma í stjórn þess, síðast formaður, og hann átti lengi sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins. Hann var samvinnumaður og tók þátt í stofnun Kaupfélags Reykjavíkur nýfluttur suður og var síðar nokkur ár í stjórn Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis.
    Sigurvin Einarsson starfaði að námi loknu við barnakennslu, jafnframt og síðar fékkst hann við iðnrekstur, var bóndi nokkur ár og loks alþingismaður hálfan annan áratug. Öllum störfum sínum sinnti hann af kostgæfni. Á Alþingi átti hann lengst sæti í

menntamálanefnd og samgöngunefnd. Hann kom á Alþingi lífsreyndur og kunnugur mörgum sviðum þjóðlífsins og reyndist atkvæðamikill þingmaður. Hann vann ásamt öðrum þingmönnum með atorku og lagni að því að hrinda í framkvæmd þörfum umbótum í fræðslumálum og samgöngumálum, ekki síst á Vestfjörðum þar sem hann þekkti best til utan Reykjavíkur. Hann var fylginn sér í hverju máli sem hann tók að sér, skeleggur í ræðum, reikningsglöggur og rökvís. Hann var hagmæltur og kastaði fram snjöllum stökum í kunningjahópi. Nú er liðið hátt í tvo áratugi síðan hann hætti störfum hér á Alþingi rúmlega sjötugur, aldursforseti þingsins síðustu árin.
    Ég vil biðja þingheim að minnast Sigurvins Einarssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]