Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að hér sé tekin til umræðu afkoma fiskvinnslunnar í landinu. Sú skýrsla sem hér hefur verið lögð fram af hálfu hæstv. forsrh. kemur fyrst á dagskrá mánuðum eftir að hún er komin fram. Þessi skýrsla er í sjálfu sér góðra gjalda verð og birtir ýmsar upplýsingar eins og fram hefur komið hjá talsmanni þeirra sem báðu um þessa skýrslu, en þessi skýrsla er auðvitað þegar orðin úrelt þegar hún kemur til umræðu mánuðum eftir að hún er birt og mánuðum eftir að hún er samin. Í máli hæstv. forsrh. áðan kom að mjög litlu leyti fram eða a.m.k. óljóst hvernig staða fiskvinnslunnar er nú, eftir t.a.m. fiskverðshækkun og eftir þær breytingar sem hafa orðið í efnahagsskilyrðunum síðustu vikurnar og síðustu mánuðina.
    Ég ætla ekki að fara út í þessi mál mjög mörgum orðum, enda þótt þetta sé efni sem væri tilefni til þess að væri rætt mjög alvarlega á Alþingi vegna þess að hér er verið að fjalla um undirstöðugrein okkar þjóðarbúskapar sem er fiskvinnslan í landinu og sjávarútvegurinn í heild. Það er ekki hægt að láta hjá líða í umræðu eins og þessari að minnast aðeins á það að sú ríkisstjórn sem nú situr var mynduð til þess að eigin sögn að rétta við stöðu atvinnulífsins, að rétta við efnahagsmálin þannig að undirstöðugreinar þjóðfélagsins gætu starfað. Því var þá lýst yfir af núv. hæstv. forsrh. að það hefði ekki verið hægt að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma þessum málum í sæmilegt horf í samstarfi við Sjálfstfl. Eftir þann tíma sem liðið hefur er hægt að taka undir það með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að nokkuð hefur verið gert. En það hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til að koma undirstöðugreinunum á réttan kjöl. Rekstrargrundvöllurinn er ekki fyrir hendi. Þó að hér hafi verið tildrað upp sjóðakerfi sem hafi það að markmiði að stofna til nýs uppbótakerfis á sjávarafurðir og svo aftur á hinn bóginn að leggja fram hlutafé til fyrirtækja sem eru verst stæð í þessari grein, þ.e. hlutafjársjóður sem er nú lítt farinn að starfa, þá eru það allt saman handarbakavinnubrögð. Í því felast ekki aðgerðir til að koma þessum málum á réttan kjöl, að veita þessum undirstöðugreinum okkar skilyrði til að starfa þannig að snúið verði við frá hallarekstri yfir til sæmilegrar afkomu. Allt þetta liggur fyrir og er það sem er mikilvægast í umræðu um þessi mál og þá í framhaldi af því spurningar, hversu lengi hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að láta svo til ganga. Hversu lengi ætlar hæstv. ríkisstjórn að horfa á undirstöðufyrirtæki alls atvinnulífs landsmanna molna niður og hvenær ætlar hæstv. ríkisstjórn að grípa til aðgerða sem duga til að koma þessum undirstöðugreinum á rekstrarhæfan grundvöll?
    Nú má auðvitað rifja upp að þegar hæstv. ríkisstjórn tók við var það mat Þjóðhagsstofnunar að sjávarútvegurinn í heild væri rekinn með 2,5% halla. Nokkru síðar eða í desember var talið að þessi hallarekstur væri 4% og í janúar, að lokinni gengisfellingu í byrjun janúarmánaðar, var talið að hallarekstur sjávarútvegsins í heild væri 5% og hafði

því tvöfaldast frá því hæstv. ríkisstjórn tók við þrátt fyrir að hún hafi haft tilburði til nokkurra aðgerða sem allt voru handarbakavinnubrögð.
    En hvernig er staðan nú? Í þessari skýrslu má lesa það að meðalfyrirtæki í fiskvinnslu sé rekið með um 3,1% halla. Með eðlilegum hætti kemur það ekki fram í þessari skýrslu hvernig það er fyrir sjávarútveginn í heild. Hún nær aðeins yfir fiskvinnslufyrirtækin. En ég hlýt að spyrja hér: Hvernig er staðan nú fyrir fiskvinnsluna í landinu, m.a. eftir fiskverðshækkunina, og hvernig er staða sjávarútvegsins í heild? Og hvenær ætlar hæstv. ríkisstjórn að taka ákvarðanir og grípa til aðgerða sem koma þessum undirstöðugreinum landsmanna á rekstrarhæfan grundvöll? Þessum fyrirspurnum beini ég að sjálfsögðu fyrst og fremst til hæstv. forsrh.
    Ég kom í þennan ræðustól til þess kannski fyrst og fremst, fyrir utan þær eðlilegu og sjálfsögðu fyrirspurnir sem ég hef flutt, að vekja athygli á einum þætti þessa máls sem á engan hátt var vikið að í framsögu hæstv. forsrh. en hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vék aðeins að undir lok sinnar ræðu. Það var fyrirheit hæstv. ríkisstjórnar um lækkun á orkukostnaði fiskvinnslufyrirtækja. Í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar er þetta einn af þeim liðum sem hæstv. ríkisstjórn telur upp þegar hún er mynduð til þess að því verði fram komið, sem hún lofar í sinni stefnuyfirlýsingu, að treysta grundvöll atvinnulífsins, að bæta afkomu atvinnuveganna o.s.frv. eins og þar segir. Í þessari málsgr. í málefnasamningi segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir fjórðungs lækkun á raforkuverði til þess fiskiðnaðar þar sem sólarhrings- og ársnotkun er tiltölulega jöfn.``
    Af þessu var talsvert gumað á fyrstu vikum hæstv. ríkisstjórnar og talið að hér væri um að ræða atriði sem hefði verulega þýðingu fyrir afkomu fiskvinnslunnar. Ekki skal dregið úr því að þetta hefur nokkra þýðingu. Þó liggur það fyrir samkvæmt athugunum Rafmagnsveitna ríkisins, þar sem ég er býsna kunnugur, að af heildarrekstrarkostnaði fiskvinnslufyrirtækja er raforkukostnaður yfirleitt í kringum 1,5%. Af þessu 1,5% eru 25% söluskattur
sem er endurgreiddur þannig að raunverulegur raforkukostnaður fyrirtækja í fiskvinnslu er rétt rúmlega 1% af heildarrekstrarkostnaði. Auðvitað munar þar nokkuð um, en þó hafa sagt við mig fiskvinnslumenn að þegar ekki er gripið til aðgerða sem nauðsynlegar eru skipti nærri því engu hvort þau fyrirtækin þurfa að borga raforkuna eða ekki. Í hallarekstrinum, sem er gífurlegur víðast hvar, er þessi liður svo lítill í öllum heildarrekstrinum að það skiptir nærri því engu, segja sumir fiskvinnslumenn, hvort við borgum þetta eða borgum það ekki.
    Nú er ekki aldeilis að öll fyrirtækin fái þó þennan afslátt, sem yrði um 0,25% eða kannski 0,3%, af sínum heildarreksturskostnaði sem endurgreiddur er samkvæmt þessum lið, því settar hafa verið upp reglur af hálfu hæstv. iðnrh., sem hér er ekki staddur, sem að mínum dómi og þeirra sem hafa þekkingu á

þessum málum eru bæði ranglátar og flóknar.
    Svo gefin sé aðeins innsýn í hvernig þessar reglur liggja fyrir segir þar að skilyrði fyrir því að fá afslátt séu:
    1. Fyrirtæki í frystingu, saltfiskvinnslu, skreiðarframleiðslu, rækjufrystingu og fiskimjölsframleiðslu. Þetta eru auðvitað almenn skilyrði.
    2. Raforkan sé keypt á afltaxta. Flest fyrirtækin kaupa raforku samkvæmt þeim gjaldskrárlið.
    3. Lágmarksársnotkun á orku sé 100.000 kwst. á ári.
    4. Lágmarksnýtingartími raforku sé 2500 stundir á ári.
    5. Fyrir nýtingu frá 2500 upp í 3500 er stigvaxandi afsláttur frá 0 og upp í 27%.
    6. Fyrir nýtingu yfir 3500 stundir er afslátturinn 27%.
    7. Afslátturinn reiknast mánaðarlega og tekur mið af nýtingartíma síðustu tólf mánaða á undan.
    Ég sagði áðan að þessar reglur væru bæði flóknar og ranglátar. Þær eru flóknar vegna þess margbreytilega stigaútreiknings sem er á endurgreiðslunni og sá margbreytilegi stigaútreikningur tekur mið af árinu á undan og notkun þá í hverjum mánuði. Þessi flækja er ærin og kostar mikla vinnu hjá raforkusölufyrirtækjum og eykur þar á rekstrarkostnað. En ég segi að þessar reglur eru ranglátar vegna þess að fulla niðurgreiðslu eða 27% af orkukostnaði fá aðeins stærstu fyrirtækin. Minni fyrirtækin fá ýmist engan afslátt eða minni afslátt, allt frá 0--27%.
    Ég hlýt að nota það tækifæri sem hér er þegar rætt er um þessi mál til að vekja á því athygli hvað hér er ranglátlega að farið hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég þykist vita að það sé ekki að kenna hæstv. forsrh., sem hér er viðstaddur, heldur hæstv. iðnrh. sem tók ákvörðun um þessar reglur. Eigi að síður er nauðsynlegt að draga það fram í þessari umræðu.
    Það skorti ekki að settar væru fram tillögur um hvernig haganlegra væri að koma þessari niðurgreiðslu fram. Fulltrúi Rafmagnsveitna ríkisins í þeirri nefnd sem um þetta fjallaði lagði til að veittur yrði afsláttur á orkuverðið sem væri fastur afsláttur án tillits til stærðar fyrirtækja, án tillits til ársnotkunar, en að aflgjaldið yrði óbreytt og óniðurgreitt. Það hefði verið aðferð við þá niðurgreiðslu sem hér er um að tefla sem væri einföld í framkvæmd, kostaði ekki margfalda útreikninga aftur í tímann og væri þannig að hvert fyrirtæki um sig sæi enn fremur sjálft hvernig niðurstaðan úr þeim reikningum yrði. Sú flókna aðferð sem valin var er eins og áður sagði ranglát og þýðir m.a. að fyrirtæki sem er með t.d. 2200 eða milli 2000 og 2500 nýtingarstundir á raforku á ári og fær engan afslátt gæti séð sér hag í því að eyða raforku langt umfram þarfir til þess að komast upp í þann afslátt sem nýtur velvildar stjórnvalda um niðurgreiðslu. Svo vitlaust, flókið og ranglátt er það kerfi sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett upp í þessu efni. Það er líka afar vafasamt, að grípa til þeirrar leiðar að fara í

niðurgreiðslu úr ríkissjóði á þessum lið.
    Það er vitaskuld vafasamt að grípa til þess að fjölga þeim aðilum sem njóta einhverrar sérstakrar velvildar stjórnvalda í því að fá ódýrari raforku en gerist samkvæmt almennri gjaldskrá því að þannig getur hver aðilinn elt annan. Við vitum að húshitunarrafmagn er og hefur verið greitt niður. Niðurgreiðsla hefur verið tekin upp til fiskeldisfyrirtækja. Með þessum hætti er tekin upp eins og ég sagði ranglát og flókin niðurgreiðsla til fiskvinnslufyrirtækja. Og hvaða fyrirtæki verða næst? Þau geta auðvitað komið hvert á fætur öðru í slóðina og krafist þess af stjórnvöldum að fá niðurgreiðslu á raforku, enda eru fyrirtækin hvarvetna sem búa við hallarekstur og eru að því komin að gefast upp og það ætti hæstv. ríkisstjórn að vera best kunnugt um.
    Ég sé það nú að áætlað var að hefja umræðu um mál utan dagskrár kl. 3 og ég skal ekki misnota minn ræðutíma í því að fara fram yfir þau tímamörk þannig að ég læt þetta nægja að sinni. Ég ítreka fyrirspurnir mínar, sem ég ætla ekki að endurtaka, til hæstv. forsrh., en ég beini því einnig til hæstv. forsrh. að hann hlutist til um að þær flóknu og ranglátu reglur sem teknar hafa verið upp við niðurgreiðslu á raforku til fiskvinnslufyrirtækja verði endurskoðaðar.