Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstvirtur forseti. Líklega hefur orðið ,,tímaskekkja``, sem mun hafa hrokkið af vörum hæstv. forsrh., orðið tilefni til þeirra umræðna sem hér hafa farið fram í dag. Ég hygg að svo muni vera. Ég held, og skal koma nánar að því, að það sé hreint engin tímaskekkja að Atlantshafsbandalagið og þar með við stöndum fyllilega í ístaðinu. Það skal ég rekja nánar á eftir. Hitt er áreiðanlega tímaskekkja að ræður á borð við þá síðustu sem hér var flutt skuli nú eftir þessi 38--40 ár, eins og ræðumanni varð svo tíðrætt um, flutt í sölum Alþingis. Sá maður sem flytur þessa ræðu í dag hann er ekki vel með á nótunum. Íslendingar vita betur en svo að alls staðar í heiminum séu svo friðelskandi þjóðir að hvergi séu hættur á ferðinni.
    Ég hef fyrir alllöngu og oftar en einu sinni talað um að Atlantshafsbandalagið væri merkasta bandalag Íslandssögunnar. Það stend ég við. Atlantshafsbandalagið hefur einmitt á síðustu missirum sýnt og sannað að það hefur áorkað því sem það ætlaði sér eða er vel á vegi að ná því fram. Ekki með því að fara einhliða að afvopnast eða rjúfa samstöðu. Hún verður enn að halda fram um skeið. Það er alveg ljóst. Og hvað halda menn t.d. að aðstaða haukanna í Moskvu, menn halda kannski að þeir séu ekki til lengur, mundi breytast ef Atlantshafsbandalagið, bara kannski ein Atlantshafsbandalagsþjóðin, færi að rjúfa samstöðuna, jafnvel sú minnsta og vanmegnugasta, eða breyta eitthvað til um það hvort hermenn megi æfa sig? Það er vonandi þeirra verkefni að æfa sig --- og ekkert meira. Vonandi kemur aldrei til þess að þeir þurfi að stunda hina eiginlegu hermennsku. En á hverjum degi æfa þeir sig að sjálfsögðu. Það er ekkert skrýtið við það.
    Hvað haldið þið að ,,haukarnir`` mundu gera og segja við þeim hreyfingum sem nú eru góðu heilli, jafnvel í Ráðstjórnarríkjunum sjálfum? Við trúum því að þar séu merkilegir hlutir að gerast og í öllum járntjaldslöndunum, hjá öllum hinum undirokuðu þjóðum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson auðvitað vorkennir ekki og hefur ekki gert frá því hann var við sitt nám í Austur-Þýskalandi. Hann hefur talið að það væri kannski ástæða til að herða á kommúnismanum þar. Hann er ekki að tala máli þessa fólks sem eygir núna frið og frelsi. En hvað haldið þið að ,,haukarnir`` mundu gera? Þeir mundu segja: Sjáið þið hvert þetta leiðir. Gorbatsjov var að tala við þetta fólk. Ef við segðum þá: Við ætlum að hætta við allan vígbúnað. Við ætlum að fara að friðvæðast eitthvað, leggja niður okkar varnir einhliða, þá segðu þeir auðvitað: Þið sjáið að einasta leiðin til þess að Atlantshafsbandalagið komi eitthvað til móts við okkur er sú einmitt að við herðum tökin. Við þurfum ekkert að afvopnast. Við getum áfram haft þetta vopnavald hangandi yfir þeim. Þetta er svo augljóst mál.
    Menn eru nú einu sinni þannig gerðir og þjóðir, og sér í lagi auðvitað einræðisþjóðir, að þær eru ekkert vísvitandi að draga úr styrkleika sínum. Auðvitað getum við ekki hér vestur frá afvopnast einhliða. Við

höfum ályktað um það hér með ályktun frá 23. maí 1985 að við gætum ekki sætt okkur einu sinni við það að öll Norðurlöndin væru kjarnorkuvopnalaus. Það svæði yrði að vera stærra. Það yrði að ná frá Grænlandsströndum til Úralfjalla. Það yrði að taka til Atlantshafsbandalagsþjóða, Varsjárbandalagsþjóða og hlutlausra þjóða og það yrði að ná suður um Evrópu. ( Gripið fram í: Hvar sérð þú það?) Í ályktun 23. maí 1985 og skýringum sem m.a. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fól mér, Eyjólfi Konráði Jónssyni sem þá var formaður nefndarinnar, að flytja fyrir sína hönd. Það stendur í þingskjölum. Þetta er í þessari ályktun. Og það verður ekki aftur tekið og Páll greiddi þessu atkvæði Pétursson, hv. þm. ( Landbrh.: Hvar í ályktuninni?)
    En það er út af fyrir sig ekkert við því að segja þótt hv. þm. Páll Pétursson, sem innleiddi þessa umræðu, haldi þeirri skoðun sem hann lengi hefur haldið, en hann hefur ekki haldið henni mjög á loft núna lengi. En mér er kunnugt um og ég held að það sé alveg rétt að hann hefur lítt breytt um skoðun þó hann hafi samþykkt þessa ályktun 1985 eins og allir aðrir þingmenn. (PP: Ég var flutningsmaður.) Já, já.
    En þingmaðurinn sagði að það gilti hið sama um herstöðina og heræfingar, ég skrifaði þetta held ég orðrétt niður, að þetta væri ekki til að verja Ísland, það væri lítið hald í varnarliðinu. Við skulum ekki vera þeir glópar að halda að varnirnar á Íslandi séu eingöngu til að verja Ísland eða varnirnar í Danmörku séu eingöngu til að verja Danmörku. Það er fullljóst öllum Atlantshafsbandalagsþjóðunum að þær eru í sama bátnum og það eru sameiginlegu varnirnar sem verja þjóðirnar allar. Það eru ekki varnir á einu svæði á þessum hluta heimskringlunnar sem verið er að styrkja nákvæmlega þar til þess að verja einhvern ákveðinn blett þessa svæðis. Það er grundvöllur Atlantshafsbandalagssamkomulagsins að árás á eina þjóðina sé árás á þær allar. Og eigum við ekki að taka einhvern þátt í því að standa við skuldbindingar okkar við þetta bandalag?
    Ég er alveg sammála því, sem hér hefur komið fram, að hæstv. utanrrh. allar götur frá utanríkisráðherratíð Ólafs heitins Jóhannessonar hafa farið rétta
leið með því að stuðla að styrkari vörnum með því að fylgjast betur með því sem er að gerast á varnarsvæðinu. Þar undanskil ég engan. Og aldeilis ekki hæstv. forsrh. Hann stóð sig frábærlega vel í því að halda áfram því starfi sem Ólafur Jóhannesson og Geir Hallgrímsson höfðu hafið og var ekkert undan því að klaga. Ég studdi hann mjög dyggilega og drengilega, það vita allir, í öllu því sem við kom varnarmálum landsins, alveg eins og ég styð núv. hæstv. utanrrh. og get samþykkt nánast hvert orð af því sem fram kom í hans ræðu. Þess vegna þyrfti ég kannski ekki að tala mjög lengi. Hann skýrði málið allt saman frá grunni. Það er ekkert þarna að gerast annað en það sem við höfum sjálfir viljað að gerðist og höfum stefnt að. Og hæstv. forsrh., þó hann talaði um þetta sem tímaskekkju, vissi þó og játar það að

frá ágúst 1988 hafði legið fyrir, bókað í varnarmálaskrifstofu, að þessar heræfingar mundu halda áfram.
    Menn segja að þessar æfingar séu viðameiri núna af því að það séu nokkru fleiri menn sem taka þátt í þeim, en jafnframt er upplýst að í æfingunum 1987 voru þó notuð skotfæri, en nú eru þau engin, það eru púðurskot eftir því sem upplýst hefur verið. (Gripið fram í.) Mér skildist á hæstv. utanrrh. að það hefði ekki verið. Þá hef ég misskilið ef hann sagði ekki að þá hefðu verið það sem kalla má alvöruskot. ( EgJ: Þið verðið að vita hvað er í byssunum.)
    Úr því að ég er farinn að ræða við hæstv. forsrh. gat ég ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann hafi vitað af þessu og auðvitað hefði það verið vanræksla í hans starfi hefði hann ekki fylgst með því og þess vegna ekkert við þessu að segja og ég er nokkurn veginn viss um að þetta hefur dottið upp úr honum, þetta orð, tímaskekkja. Ég tel einmitt að það sé tímaskekkja eins og ég áðan sagði að ætla núna að fara að halda ræður um að NATO hafi ekki áorkað neinu og það sé langbest helst að fara úr því og fundir haldnir þar sem talað er um að friðlýsa landið eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir talaði um. Og að við friðlýstum Ísland? Hvað þýðir það að friðlýsa Ísland? Þýðir það ekki úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu? Þýðir það ekki að við tökum upp hlutleysisstefnu? Þýðir það ekki að einangra okkur úti í miðju Atlantshafi, gersamlega varnarlausir? Þýðir það ekki áhrifaleysi í þessum heimshluta, áhrifaleysi okkar alls staðar? Og hvað haldið þið að nágrannaþjóðir okkar mundu segja, t.d. Norðmenn sem eiga allt sitt undir því að varnirnar á norðurslóðum, nákvæmlega eins og við, séu styrkar og það sé ekki hvikað þar? Og ætla menn svo að fara að halda því fram að Rússar séu að afvopnast á Kola-skaga? Það vita allir sem vilja vita að hervæðingin þar er gífurleg og stóraukin á síðustu missirum. Hvers vegna? Þeir eru að færa sínar varnir á norðurslóðirnar og við þessu verðum við auðvitað að bregðast og halda okkar stöðu.
    Það er komin á umræða á milli stórveldanna og bandalaganna tveggja um afvopnun, líka afvopnun hinna hefðbundnu vopna eins og þar stendur, og hvað gerist? Bæði bandalögin, Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið, segja nú það sama og Íslendingar sögðu 23. maí 1985: Frá Atlantshafsströndum til Úralfjalla, nota sama orðalagið, skal þessi afvopnun eiga sér stað, gagnkvæm. Allir vita að Rússar og austantjaldsþjóðirnar hafa miklu, miklu öflugri herafla en vestrænu þjóðirnar. Ættum við þá fyrst að hætta okkar æfingum og fækka þeim mönnum sem eru í herjum vesturveldanna á meðan Rússar vígbúast með þeim ógnarkrafti sem þeir hafa gert á Kola-skaga í næsta nágrenni við okkur og þjarma að Norðmönnum og okkur þar með? Væri það gáfulegt? Ætti ekki að halda áfram þessum gagnkvæmu viðræðum um gagnkvæma fækkun í herjunum og gagnkvæma minnkun vopna? Ég sé ekki hvernig nokkur skyni borinn maður getur haldið öðru fram nema hann vilji

þá að sósíalisminn sigri í heiminum. ( Utanrrh.: Hvaða sósíalismi?) Ja, er hann dauður? ( Utanrrh.: Hann er eins dauður og dauður getur orðið.) Jæja, það var gott, sagði foringi sósíaldemókrataflokks. Ég fagna þessu mjög og ég heyri að allir í húsinu fagna þessu mjög. Sósíalisminn dauður og þá ætti líklega ríkisstjórnin að segja af sér líka því að þetta er einhver sósíalistíska ríkisstjórn vestan járntjalds ef ekki sú allra sósíalistíska að verða, kerfisstjórn með höft á öllum sviðum, kyndir undir verðbólgu, atvinnuleysi og lág laun, versnandi lífskjör --- og veit að hún er að gera þetta.
    Þannig t.d. kom það fram fyrr í umræðunni að hæstv. forsrh. sagði þegar hann frétti af skoðanakönnun nú að hann væri ekkert undrandi á þessari niðurstöðu, ekkert hissa. Hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson var ekkert hissa. ( Forsrh.: Það er rétt.) Já, hann var nefnilega einu sinni hissa, menn muna það, þá var hann plataður. En nú var hann ekkert hissa. Og hann segir: Við erum nú að kljást við tvo magnaða drauga. Hver vakti þessa drauga upp? Við erum að kljást við þessa mögnuðu drauga. Hann er bara ekkert hissa á því að fylgið skuli hrynja af stjórninni. Þetta er fylgisminnsta stjórn sem nokkurn tíma hefur verið á Íslandi og alltaf hrynur fylgið meira og meira. Það vita allir. Og hann segir: Ef ég hefði verið spurður í skoðanakönnuninni, þá hefði ég ekki svarað. ( Forsrh.: Þú verður að athuga að formaðurinn fór rangt með
áðan.) Nei, það er orðrétt: Ef ég hefði verið spurður sem óbreyttur hefði ég svarað ... Ef hann væri spurður sem óbreyttur framsóknarmaður hefði hann alls ekki stutt stjórnina. En sem aðalmaður Framsfl. ætlaði hann að styðja hana. Er það ekki svo? Ætlar ekki forsrh. að styðja stjórnina? (Gripið fram í.) Á ég að lesa alla ... ? Ef einhver vildi rétta mér blaðið þarna, þá get ég það. Blaðið liggur þarna. Það er sjálfsagt að gera það svo að ekkert fari milli mála hvað sagt hefur verið. Þetta er örstutt, hæstv. forseti, og með leyfi les ég í Dagblaðinu sl. föstudag á 2. bls.:
    ,,Steingrímur Hermannsson``, er fyrirsögnin: ,,Súpum seyðið af óvinsælu ástandi.
    Ég er út af fyrir sig ekkert undrandi á þessari niðurstöðu. Við erum núna að kljást við tvo magnaða drauga í þessu þjóðfélagi, annars vegar verðlagið eftir þær gengisfellingar sem varð að framkvæma og hins vegar annan enn þá verri, peningavaldið, fjármagnskostnaðinn og háa vexti sem haldast hönd í hönd. Ég hef hvað eftir annað sagt að tiltrú á þessari ríkisstjórn verði ekki vakin nema það takist að kveða þá niður``, sagði Steingrímur Hermannsson forsrh. þegar honum voru borin tíðindin af skoðanakönnuninni.
    Steingrímur sagði að ljóst væri að ríkisstjórnin væri að súpa seyðið af óvinsælu ástandi í þjóðfélaginu.`` --- Hver skapaði það? --- ,,Annars verð ég að segja að ef ég hefði verið spurður sem óbreyttur í þessari könnun, þá hefði ég ekki svarað á þessari stundu. Ég held að aðalskýringin á gengi í þessari könnun liggi í því hve margir eru óákveðnir eða svara ekki.``

    Þetta er mjög hreinskilið og ég dái forsrh. fyrir að játa að svona er standið í Framsfl. og í ríkisstjórninni og þar með í þjóðfélaginu þegar við hinir sem utan við stöndum erum meira og minna einangraðir og getum engin áhrif haft. Þetta breytist auðvitað ekki fyrr en þessi stjórn fer frá. En mín vegna má hún gjarnan vera nokkra mánuði í viðbót og láta sjá það í eitt skipti fyrir öll að þessi öfl geta ekki stjórnað þessu landi. Það er algerlega vonlaust og sjálfir auglýsa þeir það mest. Þeir eru stanslaust að rífast um öll möguleg mál. Það var upphaf minna orða og kom raunar fram í ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstfl., líka að það fer ekkert á milli mála að formaður þingflokks Framsfl. notar þetta gáleysislega orðalag foringja síns, hæstv. forsrh., um tímaskekkjuna til þess að vega svolítið að þeim sem eru kannski kallaðir hægra sinnaðir í sínum eigin flokki og annars staðar og hæstv. utanrrh. sem glottir hér í dyrunum. ( Utanrrh.: Ég er vinstri krati.) Nú, var ekki áðan búið að afnema sósíalismann? Hver höndin er upp á móti annarri í þessari ríkisstjórn.
    En af því að við vorum nú að tala um og þessi umræða átti að vera um varnarliðið þótt hún hafi nú farið út og suður og líka hjá mér, skal ég víkja aftur að því, sem ég var að segja, að Atlantshafsbandalagið er um margt merkasta bandalag Íslandssögunnar. Hvað halda menn nú að hefði gerst ef ríkin í vestrinu hefðu ekki byrjað að þjappa sér saman strax eftir Berlínardeiluna, um það leyti, 1948--1949, þjappa sér saman í einn flokk? Það var talað um brinkmanship John Foster Dulles, brinkmanship er kannski sú stefna að tefla á tæpasta vaðið, eitthvað í þá áttina, ekki síst á hernaðarsviði. Það var örugglega rétt að Bandaríkjamenn tefldu þar á tæpasta vaðið. Það var ógnvænlegt ástand þá. Síðan sameinuðust vestrænar þjóðir um að skipa sér í eina fylkingu til varnar vestrinu þegar hver þjóðin af annarri hafði verið undirokuð af rússneska birninum og því ógnarvaldi sem þá var sem enginn mælir þó bót á Íslandi lengur. Ja, enginn? Það er enn þá til einn og einn sem gerir það, meira að segja til einn og einn sem enn þá hælir Hitler og nasismanum. Ef þessi ríki hefðu ekki gert það, hver hefði þá orðið niðurstaðan? Ef Berlín hefði ekki verið varin með þeim hætti að byggja loftbrúna, ef þessi ríki hefðu ekki sameinast um varnir í Evrópu? Er einhver hér inni sem í alvöru heldur því fram að rússneska herveldið hefði ekki haldið áfram vestur eftir Evrópu? Að sjálfsögðu hefði það gert það.
    Og tökum annað dæmi. Hvað hefði gerst ef Kennedy, forseti Bandaríkjanna, hefði ekki stöðvað Rússa og það meira að segja Krústjoff sem menn bundu nú miklar vonir við? --- Nú er sagt að kjarnorkuvopnin hafi verið komin til Kúbu. Það eru síðustu fréttir. Það var ekki vitað áður. Þau voru komin þangað. Menn héldu að þau væru í skipunum sem snúið var við þar sem eldflaugarnar voru. Eldflaugapallarnir voru komnir og nú eru upplýsingar um það að kjarnorkuvopnin hafi verið komin, að Rússar hefðu getað beint kjarnorkuvopnum að öllum helstu borgum Bandaríkjanna. Þeir áttu miklu minna

af langdrægum eldflaugum en þeir létu í veðri vaka og menn héldu. Hvað haldið þið að hefði gerst ef Kennedy hefði ekki á réttu augnabliki brugðist við? Halda menn að einhver Gorbatsjov hefði komið þá á eftir eða einhver Krústjoff hefði lifað? Auðvitað hefðu harðlínukommúnistarnir í Kreml haft öll völd og hefðu enn og það var enginn til þess að verja hið vestræna frelsi. Og koma svo hér og tala eins og kvennalistakonur gera, mér skildist að hv. þm. Kristín Einarsdóttir talaði fyrir listann allan, að tala um að friðlýsa Ísland. Á þessari stundu ættum við að segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu, reka varnarliðið úr landi, einangra
okkur, svíkja bandamenn okkar. Væri það leiðin til þess að þróunin í Rússlandi og fyrir austan tjald héldi áfram? Áreiðanlega ekki. Það yrði til þess að hin frjálslyndu öfl færu. Þau yrðu undir. Þá mundu haukarnir segja: Þið sjáið stefnufestu okkar. Staðfesta í því að halda vopnabúnaðinum orkar því að nú ætla þeir einhliða að fara að afvopnast. Við þurfum ekkert að afvopnast. Þeirra fylkingar eru byrjaðar að riðlast. Þeir eru að afvopnast. Bíðum bara svolítið við þangað til þeir eru búnir að henda sínum vopnum meðan við aukum okkar vopnabúnað. Þá höfum við töglin og hagldirnar.
    Ég vona og við öll hér inni að þetta gerist ekki. Við vonum það að sú þróun sem hófst fyrir nokkrum missirum einmitt hér í Reykjavík, varð augljós, haldi áfram. Það á að vera sameiginleg stefna Alþingis Íslendinga eins og hún hefur verið frá því að við sameinuðumst um eina ályktun í maímánuði 1985. Við eigum að halda okkur við þá stefnu og við eigum ekki að svíkja bandamenn okkar heldur bæði að þrýsta á þá og líka þá sem verið hafa andstæðingar okkar um að afvopnast gagnkvæmt með samningum, ekki bara að eyðileggja kjarnorkuvopn heldur að afvopnast í alvöru og til fullnustu.