Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað í upphafi máls míns vekja athygli á því að í þeirri starfsáætlun sem prentuð var og útbýtt var til þingmanna snemma þings var gert ráð fyrir því að 16. og 17. mars færu fram umræður um skýrslu hæstv. utanrrh. Ég vek athygli á þessu og varpa fram þeirri spurningu í upphafi til hæstv. ráðherra hvenær búast megi við því að skýrsla utanrrh. sjái dagsins ljós á hinu háa Alþingi og þá að sjálfsögðu má reikna með því að einhver tími líði frá því að skýrslan hefur verið lögð fram þar til hún verður hér til umræðu. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að samkomulag hefur orðið um að umræða um utanríkismál fari fram dagana 13. og 14. apríl. Ástæðan fyrir því að þessu var breytt var fjarvera hæstv. ráðherra.) Þá mundi ég vilja leyfa mér að spyrja virðulegan forseta þar sem gert er ráð fyrir því að umræðan fari fram 13.--14. apríl hvort forseti muni þá hlutast til um að skýrslan liggi fyrir í Alþingi nokkru fyrr svo að það gefist tími til að líta á hana áður en umræður fari fram. ( Forseti: Forseti mun sjá svo til.) Takk.
    Hefði hins vegar skýrslan verið komin hefðum við rætt hér þau mál sem hér hafa verið í utandagskrárumræðu undir þeim kringumstæðum að þar hefði verið í máli utanrrh. gerð grein fyrir starfsemi varnarliðsins sem hefur verið einn þátturinn í skýrslugerðinni og síðan greinargerð utanrrh. á þingi.
    Það er hins vegar mjög athyglisvert þegar formaður þingflokks Framsfl. kemur með slíkar uppákomur í sali Alþingis og ýmsir sem á undan mér hafa talað hafa reynt að spá í hver sé ástæðan og hvers vegna formaður þingflokks Framsfl. kemur upp með fyrirspurnir til hæstv. utanrrh. varðandi æfingar hjá varnarliðinu og beinir til hans óskum um að hann stöðvi þær fyrirætlanir og noti þannig vald sitt sem utanrrh. til að gera breytingar á þeim hlutum sem áformaðir hafa verið.
    Það er ekki nokkur vafi á því að það eru fleiri en eitt og það eru fleiri en tvö atriði, það eru fleiri en þrjú atriði sem eru hér samspilandi í því að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., kemur með þetta mál upp hér nú. Ég er ekki í nokkrum vafa um að vitneskja hans eins og ýmissa annarra í hans flokki um slæma stöðu ríkisstjórnarinnar er þess valdandi að hann tekur þetta til umræðu í dag. Við höfum þekkt slík vinnubrögð og það hrekkur enginn út af fyrir sig við þess vegna. Þegar á móti blæs eru ekki allir stuðningsmenn stjórna mjög staðfastir og það hefur gjarnan komið fyrir að menn hafa heyrt rödd úr þingflokki Framsfl. þegar illa hefur árað fyrir þeirri ríkisstjórn sem Framsfl. hefur stutt.
    Ég er heldur ekki í neinum vafa um að það er rétt, sem hér var vikið að, að þegar hæstv. forsrh. heyrir þessar fréttir og hann orðar það svo að þetta sé tímaskekkja hefur formaður þingflokks Framsfl. séð sér leik á borði og ákveðið að taka málið upp og láta sinn forsrh. standa við tímaskekkjuna. En það var einhver sem átti von á því að menn gætu heyrt það hér úr ræðustól af vörum forsrh. að hann hefði meint

með tímaskekkju að hann teldi skynsamlegra að þessar æfingar færu fram í júlí en ekki júní. Það er út af fyrir sig mánaðarskekkja og tímaskekkja og þannig hægt að skýra það.
    En í þriðja lagi er ljóst mál að viss atriði sem koma hér í sambandi við þetta mál eru þeir dagar sem nýliðnir eru, 30. mars, og það hefur sjálfsagt haft einhver áhrif á taugakerfið þegar var verið að minnast þess með einum eða öðrum hætti. Öll þessi atriði eru samspilandi um það hvernig hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., tekur þetta mál til umræðu utan dagskrár.
    Í sambandi við það sem hv. þm. sagði hér vildi ég gjarnan víkja að því nokkrum orðum og þó sér í lagi þeim fullyrðingum sem hann lét frá sér fara, en ég er ekki í nokkrum vafa um að þar talaði og talar hv. þm. þvert um hug sinn. Það er í fyrsta lagi þegar hann lýsir því yfir að í varnarliðinu hér sé harla lítið hald og að það sé hingað komið til þess að verja Ísland. Ég er alveg sannfærður um það að þegar hv. þm. rifjar upp sögu málsins, þá er honum ljóst, og hefur alltaf verið ljóst, eins og okkur hinum, sem viljum vera í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir, að Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag sem stofnað var til vegna þess að ofbeldisöflin í austri voru að yfirtaka hverja þjóðina á fætur annarri og hér var um að ræða vörn hjá vestrænum lýðræðisþjóðum. Íslendingar hafa haft takmarkaða möguleika til þess að taka þátt í þessum hlutum. Þeir höfðu þó aðstöðu til þess að hingað kæmi hluti af því varnarliði, hluti af varnarliði einnar þjóðar sem var þátttakandi í bandalaginu og hér væri aðstaða til þess að fylgjast með, fá upplýsingar og skapa það öryggi m.a. sem við höfum viljað tryggja okkur og tryggja hinum vestræna heimi allar götur síðan Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949.
    Það er 1967 sem mörkuð er ný varnarstefna hjá ríkjum Atlantshafsbandalagsins og eftir því sem hefur liðið hafa Íslendingar viljað verða sjálfstæðari um ákvarðanatökur í þessum efnum. Hins vegar hafa menn látið sér detta það í hug að möguleiki væri á því að gera breytingar og eins og hv. 8. þm. Reykv. vék að hér áðan þá eru sumir svo einfaldir að þeim dettur í hug að það sé til þess að tryggja friðinn, það sé til þess að fá hernaðarveldið í austri til þess að
draga saman að við hér á Norðurlöndum lýstum einhliða yfir ákveðnum hlutum í sambandi við kjarnorkuvopnalaust svæði. Þetta eru hlutir sem eru svo barnalegir, svo sem bent hefur verið á, að það tekur nánast ekki tali að ræða um það.
    Hins vegar liggur ljóst fyrir að sú stefna, sem Atlantshafsbandalagið hefur haft, hefur knúð Varsjárbandalagsþjóðirnar og Sovétríkin til þess að setjast að samningaborðinu. En á meðan unnið hefur verið að því höfum við mátt fylgjast með því að hér á norðurslóðum hafa þeir verið að auka herveldi sitt. Það hefur þess vegna verið enn þá þýðingarmeira fyrir okkur að við gerðum okkar stöðu með þeim hætti að við gætum verið sem virkastir þátttakendur, verið sjálfir þess megnugir að taka ákvarðanir, eins og þá

sem liggur fyrir hæstv. utanrrh. að taka, og meta og vega málin, gera okkur grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur að þær æfingar, sem hér er gert ráð fyrir, geti farið fram.
    Það hefur verið getið um það hér hvernig þáv. hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, hóf þessa viðleitni okkar en það er fyrst þegar Geir Hallgrímsson tekur við utanríkisráðherraembættinu árið 1983, í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, að ákvörðun er tekin um að auka enn á okkar þátttöku í þessum efnum og á árinu 1985 er m.a. sérstök skrifstofa, varnarmálaskrifstofan, stofnsett í utanrrn.
    Allt frá þeim tíma hafa verið að gerast hlutir sem allir hafa stefnt að því að gera Ísland að sterkari hlekk í okkar varnarbandalagi, allt hlutir sem hafa stefnt að því að gera okkur sjálf sterkari til ákvarðanatöku í þessum efnum. Og það hefur ekkert farið fram hjá neinum það sem menn hafa verið að gera í þessum efnum. Það hefur ekkert farið fram hjá neinum í sambandi við endurnýjun radarkerfisins á Íslandi. Allt hefur þetta skilmerkilega verið sett fram í skýrslum þeim sem utanrrh. hefur lagt hér fram á Alþingi og þar verið gerð grein fyrir þessum hlutum og þessum þáttum. Þar hefur m.a. verið vikið að aukinni þátttöku okkar í sambandi við hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins og í sambandi við kjarnorkumál á vegum þeirra, og sérstök áhersla hefur verið lögð á það sem nú hefur verið að gerast, og gerðist hér fyrir tveimur árum síðan, að að því verði sérstaklega staðið af hálfu okkar Íslendinga.
    Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa úr skýrslu utanrrh. ársins 1986, þar sem vikið er að þessum málum, en þar segir:
    ,,Samræma þarf varnar- og liðsaukaáætlanir fyrir Ísland á hættu- og ófriðartímum öðrum áætlunum er tengjast öryggis- og varnarmálum.`` Þarna er skýrt tekið fram hvernig unnið er að því koma þessu samstarfi á. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Koma þarf á samstarfi við Almannavarnir ríkisins sem stuðla að samræmi við skipulagningu og gerð áætlana um þá þætti er varða öryggis- og varnarmál og tryggja verður að almannavarnaráð fái þær upplýsingar sem þörf krefur.``
    Allt er þetta til þess að ná samstarfi á milli þessara aðila til þess að skapa aukið öryggi fyrir okkur Íslendinga og fyrir vestrænar lýðræðisþjóðir. Einn þátturinn í því eru þær hernaðaræfingar sem gert er ráð fyrir að hér fari fram og voru fyrir tveimur árum síðan. Og eins og fram kemur í skýrslu þáv. hæstv. utanrrh., núv. hæstv. forsrh., er þar skýrt tekið fram hver sé skoðun hans á þessum málum og um það var enginn ágreiningur í þeirri ríkisstjórn, hafði ekki verið ágreiningur í ríkisstjórninni þar áður hvernig unnið skyldi að þessum málum.
    Það vekur hins vegar athygli okkar nú, sem erum í stjórnarandstöðu, þegar hv. 3. þm. Vesturl., formaður þingflokks Alþfl., kemur hér upp og spyr hvort hér sé um að ræða stefnubreytingu hjá Framsfl.? Það verður auðvitað mjög athyglisvert að hlýða á það þegar hæstv. forsrh. gerir grein fyrir því. Ég á von á því að

formaður þingflokks Framsfl. gefi sínar skýringar á því. Fyrirspurnin sem hér kom fram frá einum af stjórnarflokkunum --- það er ekkert óeðlilegt að stjórnarandstaðan spyrji um svona hluti, hún sér hver ágreiningurinn er í ríkisstjórninni, hún gerir sér grein fyrir því hvernig þeir hlutir eru. En þegar einn af formönnum þingflokka ríkisstjórnarinnar spyr að slíku þá munum við að sjálfsögðu hlusta með athygli.
    Hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir þessum málum eftir að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði lagt fyrir hann allstóran spurningalista og gerði jafnframt grein fyrir því að erindið væri til hans komið. Það er mitt mat að hér sé um að ræða áframhald á því starfi sem unnið hefur verið, áframhald á þeirri stefnu sem við höfum haft og þess vegna er það að mínum dómi sjálfsagt að það leyfi verði veitt og að við getum haldið áfram að efla það samstarf sem við erum í við vestrænar þjóðir, öryggis- og varnarstefnu lýðræðisþjóðanna í Vestur-Evrópu.