Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég verð að segja það að ég er í hópi þeirra þingmanna sem undrast það mjög að fyrst skuli hæstv. forseti leyfa umræðu um þetta mál eftir ákvæðinu í 32. gr. þingskapa, sem gerir ráð fyrir ótakmörkuðum ræðutíma um það efni sem rætt er eða spurt er um. Það er sem sé metið svo mikilvægt og víðtækt að það þurfi ítarlega umræðu. M.ö.o.: Samkvæmt þessu virðist ekki vera gert ráð fyrir því að umræðan sé einungis einfaldar spurningar, eins og hér voru bornar fram í upphafi máls í dag --- 12 spurningar, sem ætlast var til að hæstv. ráðherra svaraði, sem hann gerði eftir því sem efni stóðu til --- heldur sé gert ráð fyrir miklu víðtækari umræðum.
    Auðvitað tengist þetta mál ýmsum grundvallaratriðum utanríkismála. Ég vil því láta í ljós undrun á því að forseti skuli ítreka, fyrst hæstv. aðalforseti sameinaðs þings, sem og hæstv. varaforseti, skuli gagnrýna hv. þm. fyrir það að ræða um ýmsa þætti utanríkismála sem svo sannarlega tengjast því sem hér var spurt um í upphafi. Ef þetta er rangt hjá mér hefði ekki átt að leyfa umræðuna samkvæmt þessari grein þingskapa sem beitt var, heldur eftir fyrri lið þeirrar sömu greinar.