Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Hér er um mikilvægt málefni að ræða og ég tel að það hafi verið mjög eðlileg afgreiðsla hjá hæstv. forseta að haga umræðu svo sem gert hefur verið. Ég skil ekkert í þessu. Það er eins og hv. þm. Sjálfstfl. skammist sín og þyki eitthvað óþægilegt að hér sé rætt um heræfingar í Keflavík. Þeir verða að þola það úr því sem komið er að hér sé rætt um heræfingar. Þær eiga ekkert að vera neitt tabú hér á Alþingi. Við eigum að hafa fullkomið málfrelsi um þær, getu og tíma til að fjalla um þær.
    Ég held að það séu hárrétt vinnubrögð hjá forsetum báðum að halda mönnum við efnið og það efni sem hér er til umræðu eru fyrirhugaðar heræfingar eða þær heræfingar sem Bandaríkjamenn hafa óskað eftir að fá að halda hér. Aðra þætti utanríkismála er eðlilegra að ræða undir skýrslu um utanríkismál sem verður í þinginu eftir viku eða tíu daga. Þá geta menn farið um víðan völl. Ég tel einmitt mjög mikilvægt að ræða þetta málefni núna þannig að ekki þurfi að eyða löngum tíma í það að ræða það undir umræðum um skýrslu utanrrh. Ég sé enga ástæðu til þess að finna að fundarstjórn á þessum fundi. (Forseti: Forseti vill taka fram að það eru níu hv. þm. á mælendaskrá og klukkan fer að nálgast 11 og þess vegna var nú þessi athugasemd gerð af hálfu forseta. Ég vona að þingmenn hafi ekki brugðist mjög illa við. En það má rétt vera að það hefði verið ástæða til þess að nefna þetta fyrr á fundinum.)