Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Umræður um þessa heræfingu hafa nú tekið alllangan tíma frá þingstörfum í dag og í kvöld og ég ætla ekki að lengja þær umræður mjög mikið, en nokkur atriði vildi ég þó koma inn á áður en umræðu er lokið.
    Ég tel að þessi umræða hafi verið verulega ótímabær á þessu stigi. Í fyrsta lagi vegna þess að utanrrh. hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvaða afstöðu hann tekur til óskar Bandaríkjastjórnar og yfirmanna varnarliðsins um að halda þessa æfingu núna í sumar. Í öðru lagi vegna þess að á morgun er boðaður fundur, sem lá fyrir fyrir nokkru í utanrmn. þingsins, þar sem þessi mál verða rædd. Ég er ekki viss um að það sé tímabært að taka núna þessi mál til mjög mikillar umræðu meðan enn er ekki búið að taka ákvörðun um hvort þessi heræfing verður leyfð hér eða ekki.
    Það er svo annað mál hvort við ætlum að leyfa þessa heræfingu. Það er mál út af fyrir sig og ég verð að segja það eins og það er frá mínu sjónarmiði að sú frétt sem birtist í fjölmiðlum um þessa æfingu var dálítið einkennilega uppbyggð að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi vegna þess að eins og kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. fyrr í kvöld var hún röng í mörgum höfuðatriðum og í öðru lagi vegna þess að það lá ljóst fyrir fyrir alllöngum tíma að þessi æfing væri fyrirhuguð hér á landi. Eins og kom fram í máli mínu í sjónvarpsviðtali við einn ,,kollega`` minn, svo ég noti nú slæmt erlent orð yfir það, núna rétt fyrir helgi var utanrmn. Alþingis boðið í fræðsluferð, kynnisferð eða hvað við viljum kalla það til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli á sl. vori, ef ég man rétt í apríl. Mér var þá boðið með sem varamanni í utanrmn. Ég held að ég muni það rétt að í þeirri ferð vorum við sem þar mættum, m.a. málshefjandi þessarar umræðu hér í dag, upplýstir um árangur og tilgang síðustu æfingar sem verið hafði hjá varnarliðinu hér á landi, en síðasta æfing var haldin 1987 og önnur fyrr, eða 1985. Í fyrra skiptið komu u.þ.b. 150 þátttakendur hingað til landsins og í seinna skiptið um 350, en nú er verið að tala um liðlega 1000. Ef ég man rétt, ég verð leiðréttur ef það er rangt munað hjá mér, vorum við jafnframt upplýstir um að til stæði að halda slíka æfingu á árinu 1989 og jafnframt á árinu 1991 ef ég man þessi ártöl rétt. Það var að vísu ekkert rætt þá um tímasetningar og ég skal taka það strax fram að það er veruleg --- ja, ég get notað sama orð og forsrh. notaði --- handvömm að ræða um að hefja slíka æfingu 17. júní, en það er nú komið í ljós að mikill misskilningur er um þessa dagsetningu, 17. júní, okkar þjóðhátíðardag, en það er sá dagur sem varaliðið á að hittast vestur í Bandaríkjunum en koma hingað til lands 18. eða 19. júní. Ég held að það hljóti að vera nokkuð ljóst að meðan við erum þátttakendur í þessu varnarsamstarfi, sem við erum, og það út af fyrir sig er ekki verulega mikið til umræðu hér núna heldur sú æfing sem á að fara fram í sumar, þá hljótum við að æskja þess að það lið sem mætir hér og er hér sé reiðubúið að taka þátt í þeim vörnum

sem nauðsynlegar eru landsins vegna.
    Ég er jafnframt dálítið undrandi á þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag þegar reynt er að draga inn þá umræðu sem fór fram í okkar þingflokki, framsóknarmanna, er val á fulltrúa okkar sem formanni í utanrmn. kom til álita. Það kann að megi með rökum sýna fram á það að ég og hv. 1. þm. Norðurl. v. séum á einhvern hátt á öndverðum meiði í ýmsu í varnarmálum og utanríkismálum, en þó er ég alveg sannfærður um það að sú umræða kom ekki mikið til tals þegar val stóð á milli okkar tveggja um hvor okkar skyldi taka setu í utanrmn. og við formennsku þar. Þau orð sem féllu fyrr í dag hjá formanni Sjálfstfl. um að það hefði verið meginmálið þar er alls ekki rétt og ég fullyrði að það getur upphafsmaður utandagskrárumræðu hér, hv. þm. Páll Pétursson, staðfest hvenær sem á hann yrði gengið með það.
    Þessar tvær ástæður vildi ég fyrst og fremst að kæmu fram strax í þessari umræðu þótt seint sé. Umræðan um það hvort val formanns í utanrmn. hefði staðið á milli þessara tveggja hugsanlegra póla í mínum flokki er röng og hefur trúlega engin áhrif haft á ákvörðun um það að þessi umræða fer fram. Í öðru lagi get ég út af fyrir sig staðfest að það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir og kom mér vissulega á óvart að ég skyldi upplýstur um umræðu þessa í sjónvarpsviðtali við einn af kollegum mínum í utanrmn.
    Ég held að upplýsingar um þessa væntanlegu heræfingu hafi legið fyrir svo snemma að það ætti ekki að koma neinum manni í þessum sölum á óvart, bæði vegna þess að núv. og síðasta ríkisstjórn vissu báðar um þá umræðu og höfðu fengið tilkynningu um það. Hvort sú umræða eða tilkynningar höfðu farið fram með mjög svo formlegum hætti eða ekki, því er ég ekki nógu kunnugur til að geta fullyrt um, og í öðru lagi vegna þess að ég fullyrði eins og ég sagði áðan að meðlimum utanrmn. var fullkunnugt um þetta fyrir liðlega ári.
    Menn geta tekið upp langa umræðu um hvort við eigum að vera aðilar að því varnarbandalagi sem við erum aðilar að. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera aðilar að því. Um það eru að vísu deildar meiningar í þessum sölum, en ég hygg að mikill meiri hluti þingmanna sé á því að við ættum áfram að vera meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Það kom í ljós hjá málshefjanda í dag að varnarliðið væri mjög vanbúið að öllum tækjum, það væri með úreltan útbúnað
eins og hann orðaði það sjálfur og vægast sagt ekki fært um að annast þær varnir sem við ætluðumst til að það tæki að sér. Ef svo er hlýtur það að vera brýn nauðsyn að varnarliðið hafi hér æfingar svo það komi í ljós hvort það er fært um að annast það verkefni sem því hefur verið falið með þeim samningi sem við höfum gert við Bandaríkjastjórn um varnir Íslands og sem varnarkeðja í Norður-Atlantshafsbandalaginu.
    Ég ætla hins vegar að ítreka það aftur að ég hygg að þessi umræða sé of snemma tímasett, í fyrsta lagi vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur enn ekki tekið

ákvörðun um hvort hann hyggst verða við þessari beiðni sem fyrir liggur og í öðru lagi vegna þess að ég hygg að á morgun munum við nánast endurtaka þessa sömu umræðu og sömu upplýsingar og hér koma fram í kvöld.
    Ég held þess vegna að það sé tímaskekkja að ræða þessi mál mjög ítarlega núna og í raun ætti þessi umræða að fara fram að loknum fundi í utanrmn. og að loknu því að utanrrh. hefur gefið eitthvert tilefni til að ætla að hann hafi tekið ákvörðun.
    Ég hygg hins vegar að það sé alveg ljóst af fréttaflutningi sem hefur farið fram um þessar væntanlegu heræfingar, sem eru að vísu ekki mjög umfangsmiklar í samanburði við þær heræfingar sem fara fram hjá kollegum okkar og félögum í Skandinavíu og víðar í smærri löndum, sem öll eru þó viðurkennd sem friðarsinnar og vilja stuðla að öllu sem hægt er í afvopnun og öðru slíku sem hlýtur að vera markmið okkar allra. Þessi heræfing hlýtur að vera í allra minnsta formi sem tök eru á að kalla heræfingu. Við erum að tala um hugsanlega 1000 manns sem koma hingað til lands, hugsanlega 1300 þegar mest er. Ef þær upplýsingar sem ég hef eru réttar mun hámark þeirra herflutninga sem um er að ræða standa aðeins í örfáa daga, 3--4, og síðan fer þátttakendum í þessum æfingum mjög fækkandi.
    Ég get upplýst þingheim um það, og ég tel að það sé rétt sem ég segi, að þær æfingar sem fóru fram 1985 og 1987 og ég tala nú ekki um æfingar sem fóru fram fyrr urðu ekki umræðuefni hjá íbúum á Suðurnesjum, en eins og allir vita bý ég hvað næst ykkar þingmanna varnarsvæðinu þar sem þessar æfingar eiga að fara fram. Árið 1987 er ég alveg sannfærður um að það voru ekki aðrir sem veittu þeim athygli að einu eða neinu leyti en þeir sem unnu á Keflavíkurflugvelli og urðu þess vegna varir við miklar tilfærslur á mannskap eða tækjum. Tækin sem talað er um að flytja hingað eru þrjár litlar þyrlur, eitthvað af ökutækjum, 45 ef ég man rétt, og getur því ekki verið í sjálfu sér stórt mál. Ég ætla að taka það skýrt fram að ég er ekki að taka þátt hér í umræðu um hvort við eigum að vera aðilar að þessu varnarbandalagi eða ekki. Mín skoðun er held ég nokkuð ljós í því sambandi, en þessi æfing hlýtur að teljast ósköp venjuleg hjá þeim sem taka þátt í slíku.
    Ég ætla að ítreka það að lokum að ég tel að sú frétt sem birtist í fjölmiðlum hafi verið í öllum aðalatriðum röng. Hafi það verið rétt að meiningin hafi verið sú að koma hingað til lands 17. júní er það að sjálfsögðu mikill klaufaskapur, ég held að ég geti ekki notað annað orð yfir það, að láta sér detta til hugar að koma hingað til lands 17. júní með það varnarlið sem ætti að koma hingað til viðbótar. Æfingin sem slík, ef við á annað borð tökum þátt í þessu samstarfi, hlýtur að vera nauðsynleg hvort sem hún er af þeirri stærðargráðu sem við nú erum að tala um en þessi tímasetning er röng.
    Ég tel líka, eins og ég sagði fyrr í kvöld, að ef við tækjum upp umræður utan dagskrár almennt um þau mál sem ráðherrar eru með á borðinu hjá sér,

fyrirspurnir, vangaveltur eða aðrar hugmyndir sem þeir eru með á sínum borðum, þá væri okkar tíma ekki vel varið hér í þinginu.
    Ég vil svo líka taka fram að á morgun, um miðjan dag, mun utanrrh. hitta utanrmn. og gera þar nánari grein fyrir þessari væntanlegu æfingu en þegar hefur verið gert í umræðunum hér. Mér finnst það hafa verið tímaskekkja hvenær þessi umræða er ákveðin og ég tel það líka vera tímaskekkju að velta vöngum um þessa heræfingu eins og hún er á borð borin fyrir okkur þingmenn og það ekki síst af formanni eins þingflokkanna sem standa að núv. ríkisstjórn. Og ég tek það fram að það hlýtur að vekja mann til umhugsunar þegar maður fær fréttir um slíkt sem stjórnarsinni í fjölmiðlum.