Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Það þarf engan að undra eftir fréttaflutning í Ríkisútvarpinu og öðrum fjölmiðlum nýverið að hér sé hafin umræða um væntanlegar heræfingar á landi okkar. Hitt er aftur á móti undrunarefni hvernig málið ber að, hver spyr um málið og um hvað er spurt. Það vekur svo mikla undrun að næsta hugsun verður: Hver er tilgangurinn að baki slíkum spurningum? Það þarf ekki að fletta mörg ár aftur í tímann í þingtíðindum til að sjá skýringu á því hver tilgangurinn sé.
    Hv. þm. Páll Pétursson skýrði mál sitt í dag með því að láta í ljós þá skoðun sína í upphafi að varnarlið á Íslandi sé ekki hér til þess að verja Ísland og Íslendinga heldur til að verja Bandaríkin og Bandaríkjamenn. Þetta er fullyrðing sem samkvæmt skilgreiningu hæstv. forseta í kvöld hefur kannski ekki verið hluti af efni málsins, en engu að síður skýrir hún nokkuð hvað fyrir hv. þm. vakti. Það var sem sagt að láta í ljós andstöðu formanns þingflokks stærsta stjórnarflokksins gegn grundvallarstefnu í utanríkismálum Íslendinga. Hv. þm. gerði það með þeim hætti að gagnrýna hugsanlega ákvörðun um heræfingar nú í sumar og með því að setja fram tólf spurningar um væntanlegar heræfingar. Þegar hlýtt var á spurningarnar vöknuðu aðrar spurningar í hugum þeirra sem á hlýddu. Hvers vegna spurði hv. þm. ekki formann síns eigin flokks, sem var utanrrh. þegar þetta mál kom til, um þessi atriði? Að öllu eðlilegu hefði hæstv. fyrrv. utanrrh., hæstv. núv. forsrh., átt að geta svarað þeim öllum. En því var nú ekki aldeilis að heilsa heldur kom hæstv. forsrh. í ræðustól í dag og svaraði engum af þessum spurningum heldur gagnrýndi hæstv. forsrh. að upplýsingar um sitthvað í þessu sambandi lægju ekki fyrir, hefðu nánast ekki verið lagðar fyrir fyrr en í gær þegar beðið var um formlega heimild til æfinganna. Hæstv. forsrh. sagði: Þetta tel ég ámælisvert. Ef hæstv. forsrh. telur þetta ámælisvert nú, hvað þótti hæstv. ráðherra þegar hann sjálfur var utanrrh. og þessi mál komu til? Spurði hæstv. ráðherra engra spurninga þá? Hví notaði hæstv. núv. forsrh. ekki aðstöðu sína til þess að fá allar þær upplýsingar sem hann átti rétt á þá þegar? Hvaða vatn hefur runnið til sjávar síðan sem breytir þessari afstöðu hæstv. forsrh. svo mjög sem raun ber vitni? Á því er skýringu að finna og sú skýring hefur komið í ljós á nokkurra ára fresti a.m.k. mjög berlega í þingsölum. Ég vil leyfa mér að flytja þá skýringu með orðum hæstv. núv. menntmrh. eins og hann útskýrði þetta fyrirbrigði í íslenskum stjórnmálum, þ.e. þetta tvíeðli Framsfl., eins og hann útskýrði það í umræðum um utanríkismál hinn 11. mars 1987. Hv. þáv. þm. Svavar Gestsson sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Framsfl. hefur leikið það á undanförnum árum og áratugum að ganga lengra í hræsni og tvískinnungshætti en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur og er þá vissulega langt til jafnað. Framsfl. hefur venjulega haft það þannig þegar hann hefur verið í hægri stjórn að hann hefur færst til vinstri þegar nær líður kosningum. Þegar hann hefur

verið í vinstri stjórn hefur hann færst til hægri eftir því sem nær líður kosningum.``
    Þetta segir hæstv. núv. menntmrh. árið 1987 þegar hann var í stjórnarandstöðu. Mér sýnist margt benda til þess að hv. fyrirspyrjandi Páll Pétursson líti svo á að þessi hæstv. ríkisstjórn sé um of hægri sinnuð í utanríkismálum og því kjósi hann það nú að leggja málin fyrir með þeim hætti sem hann hefur gert í dag, enda segir í ræðu hæstv. núv. menntmrh. 11. mars 1987 um þetta efni: ,,Það þarf ekki mikinn spámann til að sjá þetta fyrir. Menn sem hafa reynslu af samstarfinu við framsóknarmenn vita hvernig þeir haga sér.``
    Og enn segir hv. þáv. þm. Svavar Gestsson: ,,Hv. þm. Páll Pétursson var nákvæmlega eins og hugur manns í þessu efni, flaug upp í stólinn og ruddi upp úr sér alls konar áherslum í herstöðvamálinu sem gætu hafa verið komnar að sumu leyti frá herstöðvaandstæðingum í þessu landi, því fólki sem hefur verið á móti framkvæmdunum í herstöðinni á undanförnum árum`` o.s.frv.
    Þetta sagði Svavar Gestsson sem þá var í stjórnarandstöðu, núv. hæstv. menntmrh., þátttakandi í þessari ríkisstjórn.
    Hann lýsir því svo í ræðu sinni hvílíka skömm hann hafi á starfsaðferðum sem þessum, á aðferðunum sem slíkum, burtséð frá því hversu sammála hann var hv. þm. Páli Péturssyni að þessu leyti.
    Ég minnist á þessa ræðu, frú forseti, vegna þess að mér sýnist sama skýringin vera á ferðinni nú, að það kunni að vera skemmra í kosningar en menn töldu fyrir nokkrum vikum, enda hefur hvert klúðursmálið af öðru komið upp í ríkisstjórninni sem valdið hefur misklíð meðal ráðherranna. Þetta gæti verið skýringin á því að þetta mál ber að með þessum hætti. Það er alveg ljóst að þessi afstaða hv. þm. Páls Péturssonar er engan veginn ný og hann er sjálfum sér samkvæmur að þessu leyti til, en eins og bent var á í dag, að þessi vinstri armur Framsfl. er jafnan mjög virkur þegar vandræði eru á ýmsum öðrum sviðum en utanríkismálum og það þarf að höfða til hinna vinstri sinnuðu afla í landinu og þá er farið að með þessum hætti.
    Hitt vekur meiri furðu, afstaða hæstv. forsrh. eins og ég nefndi áðan. Samtímis því sem hæstv. forsrh. hefur það fram af miklum sannfæringarkrafti
frammi fyrir landslýð að auðvitað ráði hæstv. utanrrh. öllu um þetta mál, hvernig og hvenær heræfingarnar fari fram, niðurlægir hæstv. forsrh. hæstv. utanrrh. með svo augljósum hætti þegar hann segir að auðvitað sé þetta allt saman tímaskekkja og auðvitað ætti þetta ekki að þurfa að fara fram og ég tala nú ekki um þegar hæstv. forsrh. bætir svo gráu ofan á svart í umræðunni í dag með því að lýsa því hve ámælisvert það sé að hæstv. núv. utanrrh. skuli ekki hafa lagt fyrir upplýsingar sem forveri hans hafði vanrækt að afla. Mér sýnist þetta vera eitt af mörgum mjög alvarlegum merkjum um grómtekinn þverbrest í ríkisstjórninni og að fólk eigi kröfu á því almennt og ég tala nú ekki um Alþingi að fá það skýrt og

skorinort hvort breytt hafi verið um grundvallarstefnu í utanríkismálum.
    Af ræðu hæstv. utanrrh. í dag varð ekki ráðið að ákvörðun hafi verið tekin um jafnsjálfsagðan hlut og æfingar í þágu varna landsins. Allar röksemdir hæstv. utanrrh. hnigu þó í þá átt að hér væri um sjálfsagðan og eðlilegan hlut að ræða. Ráðherrann tók þó fram að engin ákvörðun yrði tekin fyrr en að höfðu samráði við ríkisstjórnina. M.ö.o.: við megum eiga von á því að þau einkennilegu sjónarmið sem fram hafa komið frá öðrum hæstv. ráðherrum verði e.t.v. ofan á í þessu efni. Það er ekki vel ljóst enn þá.
    Að því er varðar spurningarnar sem hv. málshefjandi Páll Pétursson lagði fyrir í dag og hæstv. utanrrh. svaraði að nokkru, þá voru þær fyrst um það hvenær vitneskja hefði borist um væntanlegar heræfingar. Það liggur alveg ljóst fyrir að langur tími hefur verið til að undirbúa þetta mál af hálfu íslenskra stjórnvalda því að svo langt er síðan vitneskjan lá fyrir, enda kom fram skilningur á því af hálfu hæstv. ráðherra að það þurfi langan aðdraganda vegna þess að meiri hluti þess liðs sem ætlað er að taki þátt í þessum heræfingum séu almennir borgarar bundnir við önnur störf og þurfi þess vegna að skipuleggja frí, útvega staðgengla o.s.frv. Þess vegna undrar það mig þegar hæstv. forsrh. hneykslast mjög á því sem hann kallar stærðarmuninn á þessum heræfingum, þeim sem eiga að fara fram í sumar og fóru fram árið 1987 í hans eigin tíð, þá hafi 400 manns tekið þátt í þessum heræfingum en nú eigi það að verða 1000 manns. En hæstv. ráðherra nefndi það ekki í það sinnið að af þessum 1000 manns eru aðeins um 240 í fastaliði hersins, en af þeim 400 manns sem æfðu sig hér í hans tíð munu trúlega allir hafa verið úr fastaliði hersins, þ.e. að hernaðarþjálfun til var kannski sá hópur raunverulega meiri þátttakandi í hernaðarstörfum.
    Hvers vegna skyldu menn svo vera að gagnrýna, eins og hv. fyrirspyrjandi, það að varalið í þágu sameiginlegra varna Íslands og Bandaríkjanna og annarra Atlantshafsbandalagsríkja æfi sig til þess að geta sinnt verkefnum ef illa fer, ef út af hinu friðsamlega ástandi bregður? Það kemur ekki heim og saman við það sem bæði ég og ýmsir aðrir þingmenn minnast að hafa heyrt hér í sölum Alþingis einmitt af vörum þeirra sem eru andvígir þátttöku okkar í varnarsamstarfinu og veru varnarliðs hér á landi því að margir þeir hafa haldið því fram sem einni af röksemdum gegn veru varnarliðsins á Íslandi að það væri hvort sem er ekkert gagn í því svo fámennu sem lítt búnu ef til styrjaldarátaka kæmi. Því hefur þá verið svarað til af þeim sem borið hafa ábyrgð á utanríkismálum og stutt hafa þetta varnarsamstarf að verkefni varnarliðsins hér sé fremur eftirlitsverkefni og aðvörunarverkefni og varalið yrði að vera til taks og koma til skjalanna ef út af bæri. Þess vegna einmitt er það öldungis rétt, sem hæstv. forsrh. sagði í skýrslu sinni þegar hann var utanrrh., að æfingar varnarliðsins og samstarfsæfingar Atlantshafsbandalagsins í þágu varnanna yrði að samræma íslenskum aðstæðum og

staðháttum. Mér er þó óskiljanlegt hvernig á að aðhæfa þessi verkefni íslenskum staðháttum öðruvísi en á Íslandi. Ég get ekki séð fremur en hæstv. forsrh., fyrrv. utanrrh., sagði í umræðum um þessi mál á sínum tíma að það sé nema mjög takmarkað gagn af því að tveir ungir menn, þótt hæfir og efnilegir séu, fari til Kanada og horfi á einhvern hluta af slíkum æfingum, enda var það nákvæmlega kafli sá sem um þetta fjallaði í skýrslunni um utanríkismál, sem varð hæstv. núv. forseta umræðuefni í umræðunum um utanríkismál á Alþingi 1988. Hæstv. núv. forseti bað úr þessum ræðustóli guð að hjálpa sér þegar hún las þennan kafla og skýrði þingheimi frá því að hún hefði takmarkaða trú á því að Íslendingar gætu haft eitthvert eftirlit með þessum verkefnum. Þessi ummæli er að finna í 18. hefti þingtíðinda 1987--1988 ef menn vilja fletta þeim upp. Þau eru hins vegar ekki í samræmi við það sem margir þeir sem voru á sömu skoðun um þessi mál höfðu áður sagt, að einmitt þetta væri það sem þyrfti vegna þess að varnarliðið væri ekki án frekari viðbúnaðar eða æfingar í stakk búið eins og sagt er til að sinna vörnum landsins með viðhlítandi hætti. Og ef sú skoðun er rétt hlýtur að vera rétt að þjálfa varalið til þessa verkefnis og nákvæmlega í samræmi við það sem fyrrv. utanrrh., núv. hæstv. forsrh., hélt fram. Ég sé þess vegna ekki annað en slík æfing hljóti að vera í þágu Íslands og Íslendinga. Ef við á annað borð viljum að Ísland og Íslendingar séu varðir ef til ófriðar kæmi sé ég ekki að nokkurt vit sé í öðru en að standa að þjálfun og æfingum með einhverjum skynsamlegum hætti, aðhæfa verkefnin íslenskum aðstæðum og
íslenskum staðháttum eins og hæstv. forsrh. sagði á sínum tíma með þeim hætti að raunhæft gagn verði af ef á þarf að halda.
    Með þetta í huga sé ég ástæðu til að þakka hæstv. utanrrh. sérstaklega fyrir þá hugmynd hans að samræma æfingu Almannavarna hér á landi og þeirra sem þátt þurfa að taka í slíkum verkefnum og svo þessum æfingum. Ég sé ekki annað en að slíkt verðum við að gera ef við ætlum að geta unnið markvisst ef út af ber.
    Allt er þetta þess eðlis að það verður að vera unnið með það í huga að við vonum að aldrei komi til þess að nota þurfi þennan viðbúnað með þeim hætti sem æfingarnar miðast við. Hins vegar væri það mikið ábyrgðarleysi að láta slíkt ekki fara fram alveg eins og það er ábyrgðarleysi að hafa brunavarnakerfi og kynna sér ekki hvernig á að nota það eða hafa æfingar í viðbrögðum við bruna. Engum dytti í hug að segja að með slíku væri verið að æsa til einhverrar brennu eða slysa eins og sumum hv. þm. dettur í hug að halda fram í sambandi við hugsanlegar heræfingar að með þeim sé verið að efla hernaðaranda og stuðla að ófriðarhugsun á okkar landi eða í kringum það. Slíkt er svo fráleitur málflutningur að hann tekur engu tali og mér þykir það mikil raun að heyra jafnmætar konur og þær hv. þm. Kvennalistans sem hér hafa talað í dag halda því fram fullum fetum í fyrsta lagi að hér á landi sé varnarlið ekki til að verja Ísland og

Íslendinga, m.ö.o. að við höfum verið í þessu varnarbandalagi í 40 ár í þágu einhverra allt annarra en sjálfra okkar, og þar með líta þær fram hjá þeim veruleika að það er um sameiginlega hagsmuni fleiri þjóða að ræða. Annars væru slík varnarbandalög ekki til. Hins vegar halda svo þær hv. kvennalistakonur því fram að með heræfingum séum við nánast að efna til ófriðar eða a.m.k., eins og þær orða það, ég held að ég muni það rétt, að efla hernaðarandann. Eitthvað slíkt held ég að þær hafi kallað það, hvað sem það nú þýðir. Á venjulegu máli hélt ég að þetta væri ósköp einfaldlega að vera við hinu versta búin. Og eins og hér var sagt í dag, um leið og við búum okkur undir það versta vonum við ævinlega hið besta og vinnum að því.