Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma fram nokkrum skýringum og leiðréttingum á því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Það kom mér að vísu ekki á óvart að það virðist hafa farið fyrir brjóstið á hv. þm. að ég gagnrýndi varnarliðið fyrr í dag, en á því eru ýmsar skýringar.
    Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta að síðasta heræfing hafi farið fram í minni tíð. Hún fór fram í júnímánuði, en ég tók við störfum í júlímánuði. Ég er ekki að segja að það hefði breytt neinu því að sjálfsögðu hefði ég ekki afturkallað það sem áður var ákveðið.
    Hún spurði einnig að því hvers vegna fyrirspyrjandi hefði ekki snúið sér til mín og beðið um svör við þeim spurningum sem hann leggur nú fram. Á því er afar einföld skýring. Þessar upplýsingar komu fram fyrst í frétt Ríkisútvarpsins fyrir örfáum dögum og síðan formlega til utanrrh. í gær eins og hann sjálfur upplýsti. ( RH: Var eftir þeim kallað?) Var eftir þeim kallað? Það var engin ástæða til að ætla að þessi heræfing yrði á neinu öðru stigi en fyrri heræfingar. Þess var aldrei nokkurn tíma getið. Þegar ég sótti upplýsingafund hjá varnarliðinu í ágúst 1987 var ég upplýstur um fyrri heræfingar og að áætlað væri að þær færu fram annað hvert ár, en þess var aldrei getið að þær yrðu af öðru umfangi en verið hefði og það var engin ástæða til að ætla það, enda lít ég á það sem skyldu varnarliðsins að upplýsa okkur um það sem þeir vita í öllum þessum málum. Sú er ástæðan að hv. fyrirspyrjandi gat alls ekki spurt mig að ég hafði engar hugmyndir um umfang þessara svokölluðu heræfinga og eftir því var ekki kallað af því að það kom ekki vísbending um það frá varnarliðinu fyrr en í ágúst hjá varnarmálanefnd að tilkynnt væri ekki fyrr að heræfingarnar færu fram.
    Hv. þm. Eiður Guðnason spurði að því hvort fyrirspyrjandi spyrði fyrir hönd Framsfl. Það er ekki. Hann gerir það á eigin vegum. Hann tjáði mér hins vegar að hann mundi spyrja þessara spurninga og ég gerði ekki athugasemd við það.
    Hv. þm. spurði einnig að því hvort hér væri boðuð breytt stefna framsóknarmanna í utanríkismálum. Svo er alls ekki. Við erum hlynntir þátttöku okkar Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu, en leggjum á það mjög ríka áherslu að sú starfsemi verði bundin við eftirlitsstörf á Atlantshafinu, hér verði ekki um árásarstöð að neinu leyti að ræða. Við höfum talið að umfang þessarar starfsemi eigi að vera eins lítið og unnt er til að sinna þessu hlutverki. Við höfum fallist á t.d. að ratsjárstöðvar til eftirlitsstarfa yrðu reistar á Norður- og Austurlandi og það er engin breyting á því, en lagt á það ríka áherslu, ég endurtek, að þær eiga eingöngu að vera til eftirlits. Á þessu hefur mér skilist að væri fullur skilningur t.d. í Alþfl.
    Ég vek athygli á því að í núverandi stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir því að ekki verði ráðist í nýjar varnarframkvæmdir hér á landi og reyndar einnig um það talað að endurskoða sambúð varnarliðs og mannlífs hér. M.ö.o.: í þessu felst að

umfang þessarar varnarliðsstarfsemi eigi ekki að aukast. Ég get ekki annað en lýst undrun minni á því að varnarliðið skuli á eigin spýtur hafa ákveðið að fjölga svo mönnum og mér skilst tækjum sem hingað verða flutt án þess að ræða það langtum fyrr við stjórnvöld hér á landi. Ég endurtek að ég tel að það séu meiri háttar afglöp af hálfu varnarliðsins. Það er skýrt tekið fram í varnarsáttmála að allt sem varnarliðið gerir hér, öll tæki sem það flytur hingað til lands, fjöldi í varnarliðinu er allt háð samþykki okkar Íslendinga. Hvar sem við stöndum í þessum málum hljótum við að vera sammála um að eftir þessu verður að ganga. Varnarliðið má aldrei ganga út frá því sem vísu að það geti ákveðið hvað það flytur til landsins eða hve víðtæk heræfing verður.
    Ég vona að enginn áfellist mig fyrir að leyfa mér að vona að með þeirri þíðu sem er nú á milli austurs og vesturs dragi úr þörf fyrir varnarlið. Því miður veldur það vonbrigðum að kaldastríðshugsunarháttur virðist enn vera afar ríkur hjá ákveðnum hópum, bæði austan og vestan járntjalds, og spillir vitanlega fyrir þeirri heiðarlegu viðleitni sem frammi er höfð beggja vegna til að draga úr því gegndarlausa kapphlaupi sem hefur verið. Ég fyrir mitt leyti vona að sá tími komi að varnarliðs verði ekki þörf hér á landi, svo sannarlega, og vona að svo verði sem víðast um heim. Er hér nokkur inni sem ekki tekur undir þá ósk mína?