Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér hefur verið til umræðu í dag hefur tekið langan tíma og nú er senn kominn nýr dagur, enda hafa sumir talað allmjög og lengi þó ekki hafi það út af fyrir sig skýrt þetta mál.
    Það mál sem er verið að ræða, þ.e. heræfingar varnarliðsins í Keflavík, er ekkert nýtt mál hér eins og menn hafa heyrt. Hér hafa verið haldnar heræfingar áður. En það er e.t.v. ekki meginmálið heldur sú staðreynd að þetta mál hefur borið að með allsérstæðum hætti. Í fyrsta lagi varð atgangur mikill í Ríkisútvarpinu og í ríkisfjölmiðlunum með óvenjulegum hætti og verður að telja að það nálgist að það hafi verið misnotað af ákveðnum aðilum.
    Ég vil minna á að það var boðað með miklu írafári í þessum fjölmiðlum að þessi heræfing hefði átt að hefjast 17. júní. Það var í rauninni ekkert nema fréttafölsun. Verður að taka til gagngerðrar endurskoðunar það fréttamat og hvernig þeir fréttamenn vinna sem við eigum að treysta fyrir því að fara rétt með þau mál sem þar eru flutt.
    Ég vil benda á að föstudaginn langa, árla morguns eða rétt korter yfir 7, var einn af þessum aðilum plötusnúður á Rás 2 hjá Ríkisútvarpinu og hvatti þar hernámsandstæðinga til baráttu með einu laginu þar. Það verður að telja afskaplega óviðurkvæmilegt að plötusnúðar hjá Ríkisútvarpinu séu að misnota aðstöðu sína. Sami plötusnúður gaf í skyn reyndar þann sama morgun rétt um hálfátta að alþm. væru fremur lítilmótlegir menn. Það hefði verið fróðlegt út af fyrir sig að hafa þau ummæli hér til að fræða hv. alþm. á því hvers lags menn sitja á þingi. Sú misnotkun sem slíkir menn beita er mjög einkennileg og verður að telja það til vansa að Ríkisútvarpið skuli misnota. Þeir menn sem þar eru eiga auðvitað ekki að vera að túlka skoðanir sínar og geta hægast tekið þátt í stjórnmálum á öðrum vettvangi. Til þess eru stjórnmálaflokkarnir. Þessum mönnum getur staðið það til boða að fara í framboð fyrir sína flokka sem eru greinilega Alþb. eða Kvennalistinn sem hér hefur sýnt sitt rétta andlit í kvöld og fer ekki á milli nokkurra mála að Kvennalistinn skipar sér í sveit sem útibú frá Alþb. eða kvennadeild Alþb. þannig að það pólitíska litróf sem hefur komið fram í umræðum í dag verður ekki sundur slitið.
    Ég vil minna á í þessu sambandi þegar við tölum um heræfingar að auðvitað er nauðsyn að það fari fram æfingar, hvort sem það eru heræfingar eða leikæfingar. Mönnum ætti að vera ljóst að ef menn æfa ekki hluti geta þeir verið erfiðir í framkvæmd og þýðir ekki að æfa þegar til alvörunnar kemur. Þessi heræfing er ekki frábrugðin öðrum æfingum sem fara fram á mörgum sviðum. Hún er auðvitað til þess að menn átti sig á aðstæðum og komist að því hvað stendur til og hvernig er hægt að bregðast við hlutum.
    Ég vil enn fremur sérstaklega minna á að Evrópuráðið hefur eins og Atlantshafsbandalagið starfað í 40 ár senn, Evrópuráðið sem samanstendur þó af miklu fleiri Evrópuríkjum og þar á meðal af hinum svokölluðu hlutlausu ríkjum í Evrópu og þau

eru öll nú meðtalin, því að í maí nk. verður Finnland aðili að Evrópuráðinu. Þessi ríki hafa sameinast um að gera ályktun um varnarmál og það er sammála niðurstaða þessara ólíku ríkja, sem eru þó ekki innan Atlantshafsbandalagsins, að friður verði aðeins tryggður með sameiginlegu afli Evrópuríkja. Það hefur verið undirstrikað að þetta sameiginlega afl frjálsra ríkja Evrópu sé það eina sem tryggi frið. Og þar hefur verið undirstrikað að sameiginlegur hernaðarmáttur frjálsra ríkja Evrópu allra tryggi friðinn og ekkert annað. Þetta hefur auðvitað komið margoft fram, að þessi sameiginlegi styrkleiki sem Evrópuríki hafa sýnt hefur orðið til þess að sú þíða sem er að birtast í Sovétríkjunum hefur orðið til. Sá styrkleiki sem Reagan sýndi þegar hann stóð sem klettur í hafinu eins og hefur verið sagt um fleiri og hélt ótrauður áfram að byggja upp hernaðarmátt Evrópu til að hafa mótvægi við Austur-Evrópu varð til þess að það var hægt að semja um málið og menn áttuðu sig á því í austri að það var alvara á ferðinni. Sú samstaða sem Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu og í Evrópuráðinu hafa myndað um þessi mál er ótvíræð og er grundvöllur þess að frjáls ríki Evrópu standa nú sterkari en nokkru sinni fyrr. Með tilkomu Evrópubandalagsins má reikna með að það verði sameiginlegur herafli innan þessara ríkja í framtíðinni sem muni tryggja enn þá frekar að Evrópa mun verða sem ein heild og mun tryggja frelsi og jafnframt það að austantjalds verði möguleiki á úrbótum í lýðræðisátt.
    Þegar hæstv. forsrh. talar um tímaskekkju reikna ég með að hann hafi átt við að það væri tímaskekkja að við værum ekki aðilar að heræfingunni. Það væri alveg öfugt. Hann hafi ætlað sér að segja að það væri tímaskekkja að við værum ekki með í heræfingunni til að tryggja sameiningu Evrópu. Hann hefur auðvitað mismælt sig. Ég geri alveg ráð fyrir því. Og ég heyrði það áðan og auðvitað er hann meðmæltur því að við séum í Atlantshafsbandalaginu. Þegar við lítum á að þessi samstaða hefur tryggt okkur frið í 40 ár er alveg ljóst að það eina sem getur hamlað gegn einræði er samstaða lýðræðisríkjanna eins og hefur verið í 40 ár. Ég held að við munum ekki óska eftir öðrum stjórnarháttum en eru vestan megin í Evrópu. Þær umræður sem hófust í dag hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. eru tímaskekkja og í rauninni aðeins til að varpa ljósi á að það hefur aldrei
verið meiri styrkleiki í Vestur-Evrópu. Sá styrkleiki birtist með þeim hætti að Evrópuríkin standa núna sem ein heild hernaðarlega þrátt fyrir að þau séu ekki í Atlantshafsbandalaginu og hafa gert sér grein fyrir því að sú samstaða er eina leiðin til þess að lýðræðisþjóðirnar sigri.
    Ég ætla ekki að ræða um þær ræður sem hafa komið fram eins og hjá hv. 2. þm. Austurl. þar sem hann var með enskukennslu sem er alveg nýjung í þingsölum, en það má vel vera að hann ætli að snúa sér að enskukennslu í framtíðinni. Það er ekki gott að vita.
    En ég vil segja að lokum að það er mikilvægt að

við stöndum með okkar vinum og stöndum sem ein heild. Það hefur aldrei verið meiri þörf á því en í dag. Aðeins sem sameinað afl Evrópu og Bandaríkjanna, frjáls ríki Bandaríkjanna, munum við geta unnið að því að hér verði friður en ekki ófriður. Þetta eru staðreyndir sem eru alveg ljóslifandi fyrir okkur sem höfum fylgst með þessum málum og þetta er eini hátturinn sem við getum haft á þessum málum.
    Ég vil að lokum þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans mál, sem var bæði fróðlegt og góð ræða sem hann flutti hér, og vona að hann standi á sínum rétti til að vinna með sameiginlegum friðaröflum. Friðaröflum sem hafa verið hér sl. 40 ár í Evrópu innan Atlantshafsbandalagsins og núna eru að sameinast í röðum Evrópuráðsins og menn bera miklar vonir til þess að sá styrkur muni valda því að þeir múrar sem hafa umlukt austurblokkina muni brotna.