Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Það var ákvörðun forseta þingsins að þessi umræða færi fram skv. 2. mgr. 32. gr. þingskapa með ótakmörkuðum ræðutíma og það var ákvörðun hæstv. forseta þingsins að hér yrði kvöldfundur um þetta mál þó hér stæðu ekki til neinar afgreiðslur vegna þess væntanlega hve málið var mikilvægt að mati hæstv. forseta. Sá kvöldfundur hefur nú farið fram eftir þeim reglum sem gilda í þessari tilteknu þingskapagrein þar til nú að hæstv. forseti tilkynnir að hann ætli nú að takmarka umræðuna. Ég vil andmæla þessum vinnubrögðum. Úr því að farið er eftir þessari grein þingskapa á annað borð, þá sé ég ekki að það sé ástæða til annars en að umræðan fari fram eftir því sem hv. þm. þykir þurfa svo sem hefur verið fram til þessa.