Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau skilmerkilegu svör sem hann gaf hér að flestu leyti í síðari ræðu sinni. Þau voru á hinn bóginn þess eðlis að það er afar erfitt að ljúka þessari umræðu á annan veg en að hæstv. forsrh. sé viðstaddur, svo mjög sem þau snertu ummæli hans hér í þessari umræðu og reyndar utan þings um þetta efni. Mundi ég gjarnan óska eftir því að hæstv. forsrh. yrði kallaður hér inn í þingsalinn til þess að vera við umræðuna. ( Forseti: Má ég upplýsa hv. þm. um að forsrh. er ekki í húsinu.) Það er býsna kyndugt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera samkvæmt því sem forseti upplýsir viðstaddur þessa umræðu í ljósi þeirra ummæla sem hann hefur látið frá sér fara hér við þessa umræðu og í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram í síðari ræðu hæstv. utanrrh. Ég ítreka að það er í hæsta máta óviðeigandi að þessari umræðu ljúki án þess að hæstv. forsrh. sé viðstaddur hana eftir það sem nú hefur gerst.
    Þó að svarræða hæstv. utanrrh. hafi um flest verið athygli verð og þakkar verð þá saknaði ég þess að hann sleppti að svara einu atriði sem fram hafði komið fyrr í umræðunum í dag, en í beinum tengslum við þetta umræðuefni og skrif dagblaðsins Þjóðviljans um það, þá vitnaði ég til ummæla í dagblaðinu Þjóðviljanum í sl. viku þar sem því var haldið fram að nú þegar væri Alþb. búið að brjóta á bak aftur áform hæstv. utanrrh. um að leyfa hér könnun á framkvæmd varaflugvallar. Hæstv. utanrrh. gaf til kynna með framíkalli að heimildin væri ekki traust og ég skoraði á hæstv. ráðherra að svara þá og gera hinu háa Alþingi grein fyrir því að það sem Þjóðviljinn sagði um þetta efni væri ekki rétt. Og ég saknaði þess að hæstv. ráðherra skyldi ekki treysta sér til þess að taka af skarið og gera þá hinu háa Alþingi grein fyrir því að Þjóðviljinn hefði þarna farið með rangt mál. Nema að það hafi einungis farist fyrir hjá hæstv. ráðherra að gera grein fyrir þessu máli. ( Utanrrh.: Ég taldi framíkallið nægilegt.) En ég ítreka þá ósk mína til hæstv. ráðherra, ef svo er að Þjóðviljinn fer þarna ekki með rétt mál, að það verði staðfest hér í ræðustól á Alþingi.
    Hæstv. forsrh. hefur vegna þess máls sem hér er til umræðu undanfarna daga og nú í þessari umræðu borið fram mjög harða gagnrýni á varnarliðið og harðar árásir á yfirstjórn þess vegna þess að það hafi ekki tilkynnt fyrr en nú fyrir fáeinum dögum um umfang þessara væntanlegu heræfinga og fjölda þeirra sem taka ættu þátt í þeim. Þessar ásakanir endurtók hann hér með þeim rökstuðningi að varnarliðið hefði átt að greina íslenskum yfirvöldum frá væntanlegum fjölda þátttakenda. Og hann tók það fram vegna fyrirspurnar, að ég hygg frá hv. 3. þm. Reykv., að formaður þingflokks Framsfl. hefði ekki getað snúið sér til hans sem forsrh., utanrrh. og aftur forsrh. til þess að fá upplýsingar vegna þess að varnarliðið hefði vanrækt að koma þeim á framfæri við íslensk stjórnvöld. Nú kemur hins vegar í ljós eftir síðari ræðu hæstv. utanrrh. að allar þessar forsendur í

ásökunum hæstv. forsrh. eiga ekki við rök að styðjast. ( Utanrrh.: Þetta kom strax fram í fyrri ræðu minni, fyrstu upplýsingar.) Það kemur m.ö.o. fram berum orðum að strax árið 1986 hafði varnarliðið gert varnarmálaskrifstofunni grein fyrir fjölda þátttakenda. Og það kemur fram í fyrsta skipti nú í síðari ræðu hæstv. utanrrh. að þegar núv. forsrh. fór sem utanrrh. í ágústmánuði 1987 í heimsókn á Keflavíkurflugvöll, þá var honum persónulega gerð grein fyrir því að þátttakendur í þessari væntanlegu heræfingu árið 1989 yrðu um 1000 talsins. Hér eru aldeilis nýjar upplýsingar. Og í ljósi þess að þær eru hér komnar fram er býsna einkennilegt ef þessari umræðu á að ljúka án þess að hæstv. forsrh. geri nánari grein fyrir sínum ummælum, sínum ásökunum í garð varnarliðsins og sinni afsökun fyrir því að formaður þingflokks Framsfl. skuli ekki hafa getað leitað til hans sem utanrrh. og forsrh. um réttar upplýsingar. M.ö.o.: Hæstv. utanrrh. hefur kollvarpað forsendunum í málflutningi hæstv. forsrh. og hann er ekki lengur viðstaddur hér þessa umræðu. Þetta tel ég vera býsna alvarlega stöðu í þessum umræðum og ítreka því mitt sjónarmið að þessu leyti.
    Hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn þess efnis frá hv. 3. þm. Vesturl. hvort og í hvaða umboði hv. formaður þingflokks Framsfl. hefði talað. Hvort hann hefði talað í nafni alls þingflokksins eða einungis á eigin vegum. Svar hæstv. forsrh. var býsna framsóknarlegt: Að sjálfsögðu talaði formaður þingflokksins algerlega á eigin vegum og án þess að binda á nokkurn hátt Framsfl. eða þingflokk hans. Á hinn bóginn gerði hann þetta með fullu samþykki forsrh. og formanns flokksins.
    M.ö.o.: Sú atlaga sem formaður þingflokks framsóknarmanna hefur gert hér að utanrrh. --- sem hv. 3. þm. Vesturl. benti réttilega á og er nánast einstæð í stjórnarsamstarfi og þingsögunni --- er gerð með fullu samþykki formanns flokksins og forsrh. í ríkisstjórninni! Ja, þetta skýrir nú enn betur og varpar enn betur ljósi á það sem fram kom hér við upphaf þessarar umræðu, hver hefði verið tilgangurinn og hver væri ætlunin og hvers vegna þessi tími væri valinn til umræðu af þessu tagi. Því þó að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi ekki fengið þá vitneskju sem íslensk stjórnvöld, utanrrh. hafði fengið bæði 1986 og
1987, þá vissi hann um þetta allt eftir að Morgunblaðið birti um þetta fréttir í nóvember, og þar á meðal um væntanlegan fjölda þátttakenda í þessari æfingu því þar var ekkert úr því dregið að að því væri stefnt, ef ég man rétt, að hér færi fram fjölmennasta heræfing af þessu tagi sem um getur. ( Utanrrh.: Það er rangt.) Hæstv. utanrrh. hefur svo bent á í þessari umræðu að áður hafi farið fram fjölmennari heræfingar en ég hygg að Morgunblaðið hafi greint frá þessu með þessum hætti og formaður þingflokks Framsfl. hefur haft vitneskju um þetta frá þeim tíma ( PP: Ég les ekki Morgunblaðið.) og gat hæglega tekið málið upp hér á hinu háa Alþingi þá. En það hentaði betur að gera þessa atlögu nú vegna þeirra innanmeina sem eru í stjórnarsamstarfinu og

það hefur hv. þm. ekki getað borið af sér í þessari umræðu.
    Síðari ræða hv. málshefjanda einkenndist svo miklu fremur en upphafsræðan af kæruleysi og skeytingarleysi um svo mikilvæg mál sem utanríkismál og varnar- og öryggismál Íslendinga eru. Og það var mjög réttmæt athugasemd, sem hér kom fram af hálfu hv. 3. þm. Vesturl., að það er í meira lagi óviðurkvæmilegt þegar menn fjalla um þessi mikilvægu mál, sem snerta þessa sérstöku hagsmuni, í einhverjum hálfkæringi með útúrsnúningi og á þann veg að þeir reyni að vera fyndnir á kostnað annarra. En einmitt þetta einkenndi sérlega síðari ræðu hv. málshefjanda og þó sérstaklega þegar hann var að tala um flokksbróður sinn, hv. formann utanrmn.
    Þannig er það ljóst í lok þessarar umræðu að það var ekki í raun og veru meginefnið, þ.e. heræfingarnar sjálfar, sem urðu tilefni þessa heldur það innanmein sem nú hrjáir ríkisstjórnina og sú tilfinning Alþb. og vinstri armsins í framsókn að nú væri hægt að sverfa svolítið að krötum. Engum dettur í hug, engum kemur til hugar að hv. 2. þm. Austurl. hætti við stuðning sinn við ríkisstjórnina þó að hæstv. utanrrh. heimili þessar heræfingar. Svo lengi hafa alþýðubandalagsmenn setið í ríkisstjórn undir því að umsvif og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli væru stórauknar, að við værum áfram aðilar að Atlantshafsbandalaginu og hefðum hér varnarsamning við Bandaríkin, að ekki nokkrum manni kemur til hugar að slíkar hótanir verði framkvæmdar. Og því síður dettur nokkrum manni í hug að hæstv. samgrh. muni standa upp úr stólnum sínum til þess að standa við stóru orðin. Hann mun senda Starra í Garði enn eitt bréfið og segja: Því miður þá fór það nú svo að utanrrh. framkvæmdi þetta. Alþb. hefur svo mikilla hagsmuna að gæta í þessari ríkisstjórn að koma öðrum mikilvægum málum fram að við gátum ekki farið að standa upp vegna þessa máls. Hæstv. fjmrh. verður að fá tækifæri til þess að halda áfram að bjóða kennurum 1000 kr. launahækkun. Það er svo mikilvægt mál fyrir Alþb. að við getum ekki staðið upp úr þessu. Einhvern veginn á þennan veg verður næsta bréf sem hæstv. samgrh. sendir Starra í Garði út af þessu máli.
    En að lokum þetta, frú forseti: Mér sýnist og heyrist að hér hafi komið fram í umræðunni svo mikilvægar upplýsingar sem kollvarpi svo gjörsamlega forsendunum fyrir máli hæstv. forsrh. að óhjákvæmilegt sé að hann fái að gera grein fyrir máli sínu hér enn frekar áður en umræðunni lýkur.