Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Ég vil til þess að fyrirbyggja allan misskilning leyfa mér að lesa hér síðari mgr. 32. gr. laga um þingsköp og þar segir:
    ,,Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. [en þar er talað um skýrslur og fyrirspurnir og annað slíkt] og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar skv. 31. gr. eða annarra formlegra þingmála. Fer þá um umræðu málsins skv. 36. gr. eftir því sem við á.``
    Í 36. gr. er sagt hvað málshefjandi má tala oft o.s.frv. Síðan segir: ,,Ráðherrar mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa, sbr. þó næstu málsgr. hér á eftir og niðurlagsákvæði 38. gr.`` en þar segir:
    ,,Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.
    Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls.``
    Nú vil ég upplýsa hv. þm. um að þessi umræða hefur nú staðið nákvæmlega sjö klukkutíma. Það er því ákvörðun forseta, verði því ekki mótmælt þeim mun harkalegar, að síðasti ræðumaður taki nú til máls, hv. 1. þm. Norðurl. v.