Tilhögun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Mér þykir ekki skemmtilegt að þurfa að vera að gera þessar athugasemdir. Hins vegar get ég ekki látið því ómótmælt þegar fram fer umræða um grundvallaratriði í íslenskum utanríkismálum og það er sýnt þegar klukkan er orðin um eitt að stjórnarsinnar eru komnir í mjög hraklega aðstöðu, að þá stendur hæstv. forseti upp og segir: Ég ákveð að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hún gaf orðið, sé síðasti maður á mælendaskrá og þar með ljúki umræðunum. Að vísu gaf hæstv. forseti svo hæstv. ráðherra orðið þar á eftir, en þessi ákvörðun hæstv. forseta getur ekki staðist samkvæmt þingsköpum og vitnaði hæstv. forseti þó til þingskapa um þetta efni og til 2. mgr. 38. gr. þar sem segir:
    ,,Forseti gengur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma.``
    Forseti getur ekki ákveðið þetta án þess að bera það undir þingheim samkvæmt þessari grein. Það stendur skýrum stöfum í þessari þingskapagrein sem hæstv. forseti las sjálf upp úr. Á þetta vildi ég benda því að ég veit að bæði ég og fleiri þingmenn höfðum í huga eftir hinar nýju upplýsingar að biðja um orðið í umræðunni. Þess vegna vil ég nú benda á þetta að ég tel að þessi ákvörðun hæstv. forseta standist ekki. Hún getur lagt þetta til samkvæmt 38. gr. en ekki ákveðið það einhliða.