Tilhögun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti margítrekaði að þetta væri tillaga hennar ef enginn mótmælti. Ég mun því bera þetta undir atkvæði hv. þm. hér í Sþ. Svo að menn viti nákvæmlega að forseti fer hér gjörsamlega að þingsköpum skal lesið hér þar sem sleppti í máli mínu áðan. Hér segir:
    ,,Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði í þingdeild þeirri sem hlut á að máli, eða sameinuðu þingi, og ræður afl atkvæða úrslitum.``
    Forseti leggur því til að hér verði afl atkvæða látið ráða úrslitum. Og þeir sem samþykkja vilja að þessum fundi ljúki kl. tvö geri svo vel að gefa merki. ( PP: Eigum við að hanga hér til kl. tvö?) ( ÞP: Er fundurinn ályktunarfær?) Forseti er að reyna að koma til móts við óskir þingmanna en hins vegar sýnist mér það vera rétt ábending að fundurinn er auðvitað ekki ályktunarfær. Geta menn nú ekki fallist á að sýna forseta þann skilning að þessari umræðu fari nú að ljúka. Það er einn maður á mælendaskrá og ég mun að sjálfsögðu koma til móts við hv. 8. þm. Reykv. þar sem hann hefur einungis talað einu sinni og gefa honum orðið, en leita samstarfs um að þessari umræðu verði nú lokið þegar 7*y1/2*y tími er liðinn síðan umræðan hófst. Ég minni menn á að hér er um umræðu utan dagskrár að ræða og það er afar ósanngjarnt að ætlast til þess að forseti leggi það á starfsfólk þingsins og þá hv. þm. sem hér sitja, sem margir hverjir eiga að vera komnir til nefndafunda kl. 9 í fyrramálið og jafnvel fyrr, að við sitjum hér miklu lengur.