Tilhögun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil enn ítreka ósk mína, ekki síst eftir síðustu ræðu hæstv. utanrrh., reyndar fyrstu ræðu hæstv. ráðherra um þingsköp, þar sem fram kom að hæstv. forsrh. hafi haft undir höndum öll þau gögn sem hæstv. utanrrh. las svo í síðari ræðu sinni. Eigi að síður liggur það fyrir að hæstv. forsrh. bar hér fram gagnrýni á varnarliðið fyrir að hafa ekki gefið íslenskum stjórnvöldum réttar upplýsingar, en hann hafði undir höndum upplýsingar um að þetta hafði varnarliðið þó þegar gert á árinu 1986. Ef þessar nýju upplýsingar hæstv. utanrrh. verða ekki til þess að umræðunni verði frestað þannig að hæstv. forsrh. verði við lok umræðunnar veit ég ekki hvert umræður stefna hér og ítreka af þessu tilefni að rökin fyrir þessari ósk eru margfalt meiri nú en áður og ummæli hæstv. forsrh. enn alvarlegri í ljósi þess sem nú hefur komið fram.