Tilhögun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það dugar ekki í þessu að vitna til væntanlegra umræðna um skýrslu utanrrh. 13. eða 14. þessa mánaðar. Hér fór fram í dag, eða í gær og í byrjun þessa dags, umræða um væntanlegar heræfingar á Keflavíkurflugvelli, ekki af hálfu stjórnarandstöðunnar, af hálfu formanns þingflokks forustuflokks ríkisstjórnarinnar. Og nú undir lok umræðunnar hefur það komið fram að forsendur fyrir mjög alvarlegum ásökunum hæstv. forsrh. eru ekki á rökum reistar. Það er því eðlileg og sjálfsögð krafa að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. forsrh. getur við þessa umræðu, sem formaður hans eigin þingflokks hafði frumkvæði að að hér færi fram á þessum fundi, svarað fyrir sig og það þá þegar á næsta fundi í Sþ. Ég minni enn og aftur á að það er formaður þingflokks hæstv. forsrh. sem hóf þessar umræður og það er alveg fráleitt og útilokað að ætla að skjóta þeim á frest þangað til umræður fara fram um skýrslu utanrrh. Svo alvarlegar staðreyndir hafa komið hér fram í þessu máli í þessari umræðu að henni verður ekki lokið nema hæstv. forsrh. taki þátt í henni og ég minni á að það eru þingskyldur hans að sitja hér fundi, ekki síst um þetta mál og þó að hann komi því ekki við núna er eðlilegt að forseti reyni að lúka umræðunni þegar hæstv. forsrh. getur gegnt þingskyldum sínum.