Frsm. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. um frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. þetta. Henni til aðstoðar var Markús Sigurbjörnsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem tekið hafði þátt í vinnu við undirbúning að samningu frv.
    Nefndin sendi frv. til umsagnar strax þegar því hafði verið vísað til nefndarinnar fyrir síðustu áramót og umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Lögmannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, sakadómi Reykjavíkur, Sýslumannafélagi Íslands, réttarfarsnefnd, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Jóhannesi Árnasyni, sýslumanni Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.
    Enn fremur óskaði nefndin eftir nýrri áætlun frá dómsmrn. um kostnað við framkvæmd þessara nýju laga. Í þeirri áætlun kemur fram að kostnaðaraukning við þessa nýju dómstóla utan Reykjavíkur verði u.þ.b. 51,5 millj. kr. þegar frá hefur verið dreginn sá sparnaður sem verður hjá sýslumannsembættunum við það að dómarastörfin færast frá þeim. En sá sparnaður virðist vera áætlaður í lágmarki þar sem sums staðar er hann innan við *y1/4*y af áætluðum heildarkostnaði við hinn nýja dómstól í viðkomandi umdæmi. Aftur á móti er þess vænst að með sameiningu dómstóla í Reykjavík geti orðið nokkur sparnaður og er hann áætlaður 4--6% af heildarkostnaði eða u.þ.b. 6 millj. kr.
    Ekki er gerð tilraun til að meta stofnkostnað vegna þessara breytinga en hins vegar gerð grein fyrir þeirri aðstöðu sem er fyrir hendi í hverju umdæmi. Er hún misjafnlega góð og ljóst að víða verður stofnkostnaður allnokkur, sérstaklega þar sem óviðunandi aðstaða er nú þegar fyrir hendi til þessarar starfsemi. Ljóst er að báðir þessir kostnaðarliðir verða þó nokkuð háðir því hvernig að framkvæmd þessara breytinga verður staðið.
    Það kom fram í umræðum í nefndinni að æskilegt er, a.m.k. í upphafi, að breytingin verði gerð á þann hátt að sem minnst röskun verði á þjónustunni frá því sem hún hefur nú verið. Sjálfsagt virðist að hafa samstarf um almenna skrifstofuþjónustu við sýslumannsembættin þar sem þau eru á sama stað.
    Í 3. gr. frv. er dómsmrh. veitt heimild til að skipta hverju lögsagnarumdæmi í tvær eða fleiri þinghár, sem hafi hver tiltekinn fastan þingstað. Þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn hlýtur það að vera eðlilegt að héraðsdómarar hafi ekki allir búsetu á sama stað. Benda má á Suðurlandsumdæmi þar sem það hlýtur að vera hagkvæmara og veita betri þjónustu að einn héraðsdómari sé búsettur í Vestmannaeyjum, enda þótt hann vinni að einhverju leyti að málum í öðrum sýslufélögum samhliða málum sem tengd eru Vestmannaeyjum. Það sama hlýtur einnig að gilda um Reykjanesumdæmi og Norðurlandsumdæmi eystra þó að samgöngur séu greiðari innan þeirra svæða. En sjálfsagt er að færa þjónustuna eins og hægt er til

fólksins þrátt fyrir þá breytingu sem hér er gert ráð fyrir að taka upp. Hins vegar hefur þróunin orðið sú síðustu árin, sérstaklega hjá hinum minni embættum, að fengnir eru setudómarar til að taka að sér stærri verkefni og þá hefur það jafnvel leitt til þess að málsmeðferðin, a.m.k. að einhverju leyti, fer fram utan heimahéraðs.
    Í þessu frv. er settur rammi um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds. Hins vegar er síðan í ýmsum öðrum lögum kveðið á um hvaða verkefni hvorum aðila verða falin. Á það ekki síst við um lög um aðför, en allshn. hefur ekki enn þá lokið athugun sinni á frv. um það mál. En við alla skipan þessara mála er nauðsynlegt að reyna eins og kostur er að gera þau einföld í framkvæmd, bæði fyrir einstaklinga og embættin, án þess að það verði þó á kostnað réttaröryggis. Tvímælalaust er með þessari skipan, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp, aukið réttaröryggi frá því sem nú er með hinum sjálfstæðu dómstólum.
    En það er ljóst að við svo umfangsmiklar breytingar á dómstólaskipaninni, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hljóta að koma fram mörg álitamál um framkvæmd og tilhögun einstakra atriða. Nefndin telur nauðsynlegt að nægur tími gefist til undirbúnings og athugunar á því og leggur því til að gildistöku laganna verði frestað um tvö ár eða til 1. júlí 1992. En komi í ljós á meðan verið er að vinna að undirbúningnum að í einstökum atriðum væri æskilegra að hafa einhvern annan hátt á en frv. gerir ráð fyrir, þá gefst með þessum fresti tími til að taka það til skoðunar og breytinga hér á Alþingi áður en til framkvæmda kemur.
    Önnur brtt. sem nefndin gerir er sú að úr 14. gr. frv. verði fellt niður ákvæði þar sem segir að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli heyri undir þann ráðherra sem fer með mál er tengjast varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951. Óþarft er að hafa slíkt ákvæði inni í þessum lögum þar sem áfram verða í gildi lög nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl., þar sem heimilt er með stjórnarráðsreglugerð að fela ráðherra þeim sem fer með framkvæmd varnarsamningsins einnig framkvæmd einstakra málaflokka enda þótt þeir heyri undir aðra ráðherra. Niðurfelling þessa ákvæðis breytir því ekki sjálfkrafa þeirri skipan sem nú er á málum þar.
    Þá er í þriðja lagi brtt. nefndarinnar að brott falli úr 13. gr. ákvæði sem fyrir eru í lögum nr. 32/1965, um hreppstjóra, og því ekki ástæða til að endurtaka þau.
    Þá gerir nefndin að lokum tillögu til breytinga á 4. og 18. gr. til að gera skýrari ákvæði þeirra greina án þess að um efnisbreytingar sé að ræða.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og fluttar eru á sérstöku þskj. Undir nál. skrifa allir nefndarmenn, en þau Salome Þorkelsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson og Jóhann Einvarðsson gera það með fyrirvara um einstök atriði frv.