Brottfall laga á sviði menntamála
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég stend ekki hérna upp til þess að andmæla þessu frv. Þvert á móti. Ég hygg að það sé ekkert athugavert við það eftir þær skýringar sem hæstv. menntmrh. gaf hér. En ég vildi spyrja hæstv. menntmrh. að því, það kemur ekki fram, hvorki í greinargerð með frv. þessu né í ræðu hans hér áðan, hvernig þetta frv. hefur verið unnið. Ég vil spyrja sérstaklega að því. Á að líta svo á að þetta sé tæmandi upptalning á lögum á sviði menntamála sem hafa ekki þýðingu lengur eða hefur frv. verið unnið án þess að slík allsherjarathugun færi fram á þessum vettvangi? Ég tel rétt að það komi hér fram svar við þessum spurningum.