Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð fyrri ræðumanna. Ég fagna í aðalatriðum þessu frv., tel að það sé mikil bót að því að það skuli koma fram og ég held að það sé í nokkuð góðu formi eins og hefur komið fram í þeim umsögnum flestum sem við höfum fengið.
    Það eru tvö atriði sem ég vildi minnast á hérna og um annað hafði ég fyrirvara er ég skrifaði undir nál. Sá fyrirvari er fyrst og fremst vegna þess, eins og kom fram á fundum í nefndinni, að ég lít svo á að Suðurnesin, þá á ég við svæðið sunnan Hafnarfjarðar, séu orðin svo stórt svæði að mannfjölda og umfangi. Þar eru búsettir réttir 15 þús. íbúar. Þetta eru sjö sveitarfélög með nokkrar þýðingarmiklar hafnir og útgerðarstaði. Svo er þar alþjóðlegur flugvöllur. Með þessari breytingu mundi dómsvaldið hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli flytjast yfir til Hafnarfjarðar. Ég tel að það sé ekki ástæða til annars en að í stað þess að það séu átta héraðsdómar yrði Reykjanesumdæmi skipt í tvennt og yrði sjálfstæður héraðsdómur með aðsetur í Keflavík, enda kemur fram í öllum upplýsingum sem liggja fyrir um kostnað og annað þess háttar í grg. með þessu frv., sem við höfum fengið í allshn., að reiknað er með 190 ferðum suður á Suðurnes á ári sem þýðir beint áætlað rétt um 15.600 km akstur og þá er ég ekki að tala um þá dagpeninga og annan tilkostnað sem fellur til og þá starfsaðstöðu sem slíkur maður þarf að hafa. Ég veit ekki annað um þá aðstöðu sem nú er verið að ganga frá hjá bæjarfógetanum í Keflavík en þar sé ágætur dómssalur og verði enn betri aðstaða þegar lokið er þeirri lagfæringu sem núna stendur yfir á byggingunni þannig að ég sé í raun engin rök til þess, hvorki sparnaðarlega né af fyrirkomulagsástæðum, að þarna sé ekki bætt við héraðsdómstól. Ég ákvað samt á þessu stigi að flytja ekki um þetta sérstaka brtt., en þetta er ástæðan fyrir því að ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara.
    Hitt atriðið sem ég vildi minnast á er brtt. varðandi 14. gr., að fella niður ákvæði eins og er í frv. núna varðandi lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli. Ég er ekki viss um að það hafi verið hugsað alveg til þrautar hvernig það á að vera í framkvæmd. Það er að vísu í 11. gr. tekið fram að sýslumannsembætti eigi að vera á Keflavíkurflugvelli. Ég og reyndar fleiri höfum rætt um aðskilnað á varnarliðinu og hinni almennu umferð um Keflavíkurflugvöll sem orðið hefur með tilkomu nýju flugstöðvarinnar. Ég held að það sé ekki eins einfalt og hafi ekki verið alveg hugsað til botns hvernig á að framkvæma þetta eins og það er hugsað samkvæmt frv. þó að þessi breyting taki ekki sjálfkrafa gildi eins og fram kemur í nál. Í fyrsta lagi vegna þess að löggæslan í flugstöðinni sjálfri hlýtur að tengjast löggæslu á flugvallarsvæðinu sjálfu, þ.e. innan girðingar, inni á varnarsvæðinu, og einnig held ég að það muni vera erfitt að reka alþjóðlega flugstöð eins og er á Keflavíkurflugvelli undir stjórn margra húsbænda. Þá á ég við ef dómsmrh. sæi um löggæsluna, fjmrh. um tollgæsluna

og kannski mætti nefna einhverja fleiri. Þetta er nú allt samræmt undir einn húsbónda, þ.e. lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli sem heyrir undir utanrrh. Ég tel að vísu að það sé margt í þeirri starfsemi sem þar fer fram í húsinu sem mætti hagræða í samvinnu við lögreglustjóraembættið í Keflavík, en ég er ekki viss um að það sé hugsað til enda hvernig þær hugmyndir sem menn hafa um breytingar yrðu í framkvæmd. Þess vegna vek ég athygli á því að það segir í nál. að þessi breyting skuli ekki koma sjálfkrafa í gildi, enda er þetta atriði að hluta til ákvæði í varnarsamningnum sem yrði þá að breytast, en hann hefur lagagildi eins og allir vita. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.