Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið skrifum við hv. þm. Salome Þorkelsdóttir undir nál. með fyrirvara. Ég hef að nokkru leyti fyrir fram gert grein fyrir því við 1. umr. að ég hef haft fyrirvara varðandi þetta mál og get vísað til þeirrar ræðu sem ég þá flutti að mestu leyti. Ég hygg að ýmislegt af því sem þar kom fram og það sem ég mun nú segja og kannski allt sé í samræmi við skoðanir hv. þm. Salome Þorkelsdóttur líka, en hún gerir þá grein fyrir því ef svo er ekki.
    Þetta mál er miklu flóknara en ýmsir hafa viljað vera láta. Það er svo að þrátt fyrir göfugar hugsjónir er hvergi í veröldinni til alger aðskilnaður framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds. Þjóðirnar hafa keppt að því auðvitað að hafa þrískiptingu og dreifingu valds sem mesta, en mér vitanlega hefur það hvergi tekist að fullu og mun aldrei gerast.
    Það bar á góma við 1. umr. að lögspekingar eins og Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson, sem jafnframt voru stjórnmálamenn, urðu um skeið a.m.k. hvor um sig að gegna öllu í senn, löggjafarvaldi auðvitað sem alþingismenn, framkvæmdarvaldi sem ráðherrar og forsrh. og sem dómsmrh. ákveðnu dómsvaldi. Þetta kom ekki mjög að sök og við höfum lifað það af í öllu falli.
    Aðrar þjóðir fara allt aðrar leiðir. Það er talið að framkvæmdarvald sé sterkast kannski í lýðræðisríkjum í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem vald forseta er mjög mikið. Það er þó skert af löggjafarþinginu, ekki einungis með löggjöfinni sjálfri heldur með margháttaðri afskiptasemi af framkvæmdarvaldinu einmitt til að tryggja að framkvæmdarvaldið verði ekki of sterkt. Nýlegt dæmi er um það að löggjafarþingið þar kom í veg fyrir hvorki meira né minna en skipun varnarmálaráðherra sem nýkjörinn forseti ætlaði að skipa. Þingið hefur áhrif á dómsvaldið líka og framkvæmdarvaldið hefur það líka auðvitað með skipun dómara, jafnvel hæstaréttardómara. Það þarf líka að bera það og skipun ýmissa æðstu embættismanna ríkisins undir löggjafarþingið. Þar fléttast allt saman að vissu marki a.m.k., löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið. Bandaríkjamenn fara þá leið að þeir kjósa dómara gjarnan, undirréttardómara. Meira að segja lögreglustjórar í smáþorpum eru kosnir og fjöldi embættismanna er kosinn í almennum kosningum sem gjarnan fara saman við annaðhvort þingkosningar eða forsetakosningar.
    Stjórnskipunin er það viðkvæmasta sem við eigum að fjalla um hér á Alþingi. Hún á helst að gilda sem lengstan tíma og vera sem best til hennar vandað og sem minnst reynt að hrófla við henni. Ég tel það mikla gæfu að það hefur ekki tekist að breyta okkar stjórnarskrá með neinum verulegum hætti. Ég held að við búum við mjög góða stjórnarskrá. Það hefur margsinnis verið reynt, margar, margar nefndir, meira að segja áður en Ísland varð lýðveldi, að breyta stjórnarskránni. Að mínum dómi hafa þær tillögur

flestar ef ekki allar verið til bölvunar, til að finna út og gera stjórnarskrána meira og minna óskiljanlega eins og er með fjölda, fjölda þeirra laga sem hafa verið samþykkt á síðasta áratug og áratugum. Hér áður fyrrum gat alþýðumaðurinn fylgst með helstu atriðum löggjafar. Nú geta lögfræðingar það ekki. Það er búið að tildra upp slíkum ósköpum af ómögulegum lögum, inn á milli auðvitað mögulegum og sæmilegum lögum, en nú er farið að þynna alla þessa hluti út, það er helst ekki hægt að semja nein lög nema þau séu 100 greinar eða 200 og aldeilis ekki allt til bóta.
    Ég held að við eigum að fara af mjög mikilli varkárni í breytingu stjórnskipunarinnar, en auðvitað eigum við að ganga eins langt og kostur er þó að það sé ekki hægt að ganga mjög langt hjá okkur, kotríkinu, og ekki eins langt og hjá stærri ríkjum í algerum aðskilnaði, einfaldlega vegna þess að menn eru hér oft og tíðum í fleiri en einu starfi og áhrifamiklir einstaklingar geta haft áhrif á alla þessa þrjá þætti með málflutningi sínum og tillögugerð.
    Svo að vikið sé að stjórnarskrá. Ef hún á að vera á hún auðvitað að vera sem stöðugust. Nú þekkist það eins og menn vita að t.d. í Bretaveldi hefur aldrei verið stjórnarskrá eða skráð stjórnarskrá. Þar er venjuréttur og hann er mjög ríkur þannig að jafnvel kynslóð eftir kynslóð getur fylgst með því, og þar með auðvitað lögfræðingarnar og ekki síst þeir, hver sé rétturinn, meginlýðræðislegi rétturinn, meginvernd einstaklingsins samkvæmt venjurétti. Allt eru þetta mál sem eru svo vandmeðfarin að það er ekki hægt að kasta fram einhverju frv. og segja: Hér er hið eina rétta. Ég er síður en svo sannfærður um að í frv. sem við nú fjöllum um sé fundinn hinn eini rétti meðalvegur því ekki er það nú nema meðalvegur, um fullkominn aðskilnað er ekki að ræða og verður aldrei eins og ég sagði áðan.
    Eigi að síður hef ég og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir skrifað undir og mælt með því að frv. verði samþykkt hér í deildinni, en við höfum fyrirvara. Frv. hefur batnað mjög í meðförum deildarinnar eftir mikla vinnu, ekki síst formannsins og margra annarra nefndarmanna. Ég hef kannski ekki verið þar duglegastur en reynt þó að setja mig inn í mál.
    Besta ákvæðið er að frv. skuli ekki þó það yrði samþykkt frá þinginu, við
samþykkjum vafalaust að senda það til Nd., en ef hún samþykkir það sem lög á það þó ekki að koma til framkvæmda fyrr en eftir þrjú ár. Það er auðvitað mikill öryggisventill vegna þess að verði þetta frv. lögfest fara menn enn þá frekar að skoða afleiðingarnar. Kostnaðarhliðin er kannski aukaatriði eins og fram kom hér hjá einhverjum ræðumanna. Hún verður aldrei óbærileg, held ég, en auðvitað verður mikill kostnaður samfara þessu. Hins vegar fara menn að skoða miklu frekar hver áhrif þetta muni hafa á réttarfarið og þjóðlífið í heild sinni. Ég er ekkert viss um að aðskilnaðurinn verði neitt miklu meiri í verki en fyrir er, þó væntanlega að einhverju leyti.

    Eins og hv. þm. Skúli Alexandersson vék að áðan er alveg ljóst að Alþingi hefur fram undir þetta verið að setja ýmiss konar lög sem ekki stefndu í átt til meiri aðskilnaðar dómsvalds, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þvert á móti. Það er alveg rétt að það er hægt að nefna um þetta dæmi. Alþingi hefur auðvitað áhrif á framkvæmdarvaldið, ekki bara með því að það er þingræði hér og við getum fellt ríkisstjórnir. Með mörgum öðrum hætti hefur Alþingi þetta líka, t.d. með kosningu fjölmargra gífurlega þýðingarmikilla og valdamikilla nefnda. Oft og tíðum eru í nefndum menn sem eru þingmenn sem ég tel óeðlilegt í mjög mörgum tilfellum. Ég held að þingmenn eigi alls ekki að vera kjörgengir í sumar þessar nefndir og það mundi auka á aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það hefur ekki náð fram að ganga. A.m.k. ég og margir fleiri höfum bent á það í áratugi að þetta sé algerlega óeðlilegt. Það eigi einmitt að aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald með því að þingmenn eigi ekki sæti í slíkum ráðum og nefndum.
    Ég vil bara vekja á því athygli að þetta mál er ekkert svo einfalt eins og verið er að halda fram og það er með mismunandi hætti í mismunandi löndum á þessu tekið og við skulum ekkert vera að ímynda okkur að við séum með samþykkt þessa frv. að leysa einhverja lífsgátu, það er síður en svo. Ýmis vandamál skapast samhliða þessu. En málið þarf umfjöllunar og sú umfjöllun mun væntanlega fara fram í Nd. Ef deildin samþykkir frv. með eða án breytinga eru þó þrjú ár til stefnu og mér segir svo hugur um að mörgu verði breytt í þessu frv. og fyrirhugaðri framkvæmd áður en þar að kemur að við förum að búa við þessi lög.
    En ég endurtek: Við skulum fara varlega í öllum breytingum í stjórnskipun landsins, ekki síst á öðrum eins upplausnartímum og við lifum nú. --- Kannski ég fari ekkert út í þá sálma. Menn vita hvað ég á við. --- Þá er hættulegt að vera mikið að hrófla við dómaskipuninni og öðru slíku. Það þarf meiri festu í þetta þjóðfélag en umbyltingar á öllum sviðum og við skulum ganga hægt um ,,gleðinnar dyr``.