Lögbókandagerðir
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til l. um lögbókandagerðir frá allshn.
    Lagaákvæði um lögbókandagerðir eru mjög af skornum skammti í núgildandi lögum og við framkvæmd þeirra hefur því miklu fremur verið stuðst við venju og hefðir en lagaákvæði. Hins vegar er um mjög mikilvægt atriði að ræða sem æskilegt og nauðsynlegt er að hafi lagaákvæði við að styðjast og þess vegna hefur verið lagt fram frv. um þetta efni. Með frv. er fyrst og fremst verið að lögfesta þá framkvæmd sem verið hefur á þessum málum hér.
    Þá er einnig tekið af skarið um að í framtíðinni skuli lögbókandagerðir vera í höndum sýslumanna sem frv. til l. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði gerir ráð fyrir að fari með stjórnsýslustörf í þágu ríkisins. En á meðan þau lög hafa ekki öðlast gildi verði það samsvarandi framkvæmdarvaldsaðilar í núgildandi kerfi sem annist þetta starf.
    Allshn. er sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það er á þskj. 457.