Lögbókandagerðir
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Mér barst inn á þingflokksfund hjá Sjálfstfl. í gær dagskrá þriggja næstu funda Ed. og skildist á því að hæstv. forseti hefði í hyggju að gefa þingmönnum fyllri upplýsingar um hvaða mál yrðu tekin fyrir og í hvaða röð. Í trausti þess að þessi plögg hefðu verið borin inn á þingflokksfund þingmönnum til upplýsingar vék ég mér frá eftir að ég hafði setið á fundum með háskólamönnum í morgun fram undir fundartíma og var af þeim sökum of seinn á deildarfund, enda treysti ég því að gengið yrði til dagskrár eins og hún liggur fyrir og byrjað á því að tala um 1. málið, en eins og hæstv. forseta er kunnugt á ég bæði sæti í menntmn. og fjh.- og viðskn. en 5. og 7. mál falla undir þá nefnd.
    Nú hefur það verið viðtekin venja hér að þinghaldið hefur farið eftir duttlungum einstakra ráðherra. Síðast var það í nótt að ekki var hægt að halda áfram utandagskrárumræðum um varnarmál vegna þess að hæstv. forsrh. mátti ekki vera að því að vera við þó svo að upp væri komið að þeim bar ekki saman, honum og hæstv. utanrrh., um nauðsynlegar upplýsingar. Mér finnst þessi stjórn á störfum deildarinnar ekki góð og ég get ekki séð að okkur þingmönnum sé mikill akkur í því að fá númer á málum á dagskránni ef ekkert er eftir því farið og ef þingmönnum er ekki tilkynnt um það ef sérstakar óskir ráðherra eru um að fá mál tekin fyrir í ákveðinni röð.
    Nú er það svo í fjh.- og viðskn., sem ég á sæti í, að mál sem ég bar upp hér í deildinni strax á fyrstu dögum þingsins fæst ekki tekið til 2. umr. og er borið við að ég skuli ræða það sérstaklega við hæstv. ráðherra. Það er á hinn bóginn erfitt ef ekki næst til ráðherrans. Ég held að nauðsynlegt sé nú áður en til lokanna kemur að hæstv. ráðherra reyni að beita sér fyrir því að stjórnarandstaðan geti treyst því sem á dagskrá stendur og mál séu ekki tekin með þessum hætti fram yfir þegar hæstv. forseti hefur fulla ástæðu til að ætla að umræður verði í deildinni ef þingmenn vissu að málin væru tekin fyrir. Ég hygg að það hafi svo miklar umræður orðið um vaxtamál á þinginu og í deildinni nú í vetur að hæstv. forseta átti að vera það fullkomlega ljóst að ég hafði búið mig undir að taka þátt í umræðum.