Söluskattur
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Það er mjög athyglisvert að þetta mál vekur ekki sérlega mikla athygli meðal þingmanna. Það virðist vera svo að allir virðulegir þingmenn á hinu háa Alþingi fyrir utan þingmenn Borgfl. hafa sætt sig við matarskattinn svokallaða, þ.e. menn kyngja því að hér er nú lagður fullur söluskattur á matvæli þó að áfram sé haldið nokkrum niðurgreiðslum á helstu innlendum matvælum. En það er ljóst að það stefnir smám saman í það að öll matvæli verði með fullum söluskatti og þetta virðast þingmenn almennt hafa sætt sig við. Á leiðinni hefur það orðið óbærilegt, sérstaklega lágtekjufólkinu, að kaupa matvæli til heimilanna fyrir svo utan það að sá vaxtarbroddur sem var í ferðaþjónustu, þ.e. að sinna erlendum ferðamönnum, er nánast hruninn af þeim sökum að verð matvæla á Íslandi er orðið svo hrikalega hátt að ferðamenn sem hingað koma flýja nánast hljóðandi héðan aftur þegar þeir sjá verðlag á veitingahúsum og á matvælum almennt. Ég satt að segja undrast að þingmenn skuli sætta sig við þetta og nánast mæta þessu með axlayppingum og segja: Ja, þetta er slæmt en við þessu verður ekkert frekar gert.
    Ég vil taka undir það með hv. 5. þm. Reykv. að nú er lag í sambandi við þær kjaradeilur sem nú eru í gangi í þjóðfélaginu að ríkisvaldið reyni að koma til móts við launþega og hjálpa til við að leysa þessar deilur með því að lækka matarskattinn eins og hér er lagt til. En ef það er stefna stjórnvalda að hér skuli verð matvæla vera með þeim hætti sem verið hefur, þ.e. svo hátt að fólk hafi varla efni á því að borða, a.m.k. ekki lágtekjuhóparnir, þá verður svo að vera á meðan þannig skipast pólitískur meiri hluti á hinu háa Alþingi. Sérstaklega þykir mér þó aumkunarvert að horfa upp á þingmenn Framsfl. sitja undir þessu í annarri ríkisstjórn sem mynduð hefur verið frá því að kosningarnar áttu sér stað vorið 1987. Það var í tíð fyrri ríkisstjórnar að tekin var sú ákvörðun að leggja söluskatt á matvæli sem ég tel að sé eitt mesta pólitíska slys sem hafi átt sér stað í íslenskum stjórnmálum eftir stríð. Mér þykir það sérlega aumkunarvert að þurfa að horfa upp á þingmenn Framsfl. sitja undir því í annarri ríkisstjórn frá kosningum að matarskatturinn skuli blómstra sem aldrei fyrr og allt bendi til þess að smátt og smátt verði dregið úr niðurgreiðslunum og þar með verði matarskatturinn 25% álagður að fullu á öll matvæli. Ég fæ ekki séð betur en að það sé smátt og smátt verið að draga úr niðurgreiðslum á hefðbundnum kjötvörum og fiski sem var þó reynt að halda niðri í verði þegar söluskatturinn var lagður á á sínum tíma.
    Það er alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að verð matvæla á Íslandi er svo hátt að það þolir enga skattlagningu. Landbúnaður á Íslandi hlýtur alltaf að eiga erfitt uppdráttar. Við búum á norðurhjara veraldar og við getum ekki ætlast til þess að við getum rekið landbúnað á jafnhagkvæman hátt og í hinum gróðursælu löndum Mið-Evrópu svo ekki sé talað um t.d. í löndum eins og í Bandaríkjunum eða þar sem loftslag og gróðurfar er mun heppilegra

fyrir alla landbúnaðarframleiðslu. Í slíkum löndum, þar sem verð landbúnaðarafurða verður mjög lágt vegna hagkvæmni, bæði hagkvæmni markaðarins og þeirra hagkvæmu aðstæðna sem ríkja, er e.t.v. hægt að leggja söluskatt á matvæli, en við getum ekki gert það á Íslandi þar sem landbúnaður á jafnerfitt uppdráttar og verð landbúnaðarafurða hlýtur alltaf að vera mjög hátt.
    Það var talað um áðan af hv. 5. þm. Reykv. að ríkissjóður yrði fyrir allnokkru tekjutapi vegna þessa ef söluskattur á matvæli yrði lækkaður úr 25% í 12%. Víst yrði það sárt fyrir ríkissjóð að verða fyrir því tekjutapi. Það hefur hins vegar enginn lýst áhyggjum sínum af því að það er augsýnilegt nú að ríkissjóður verður fyrir mun meira tekjutapi vegna minnkandi innflutnings á bílum og vegna þess að þjóðin drekkur minna áfengi en þeir sem sömdu fjárlögin gerðu ráð fyrir. Það stefnir nú í það að tekjur ríkissjóðs verði um 1 milljarði lægri vegna þess hvað Íslendingar drekka minna en ráðamenn þjóðarinnar álitu þegar þeir sömdu fjárlögin. Samanlagt gerir þetta um 3 milljarða sem tekjur ríkissjóðs munu minnka vegna þessa. Það hefur enginn lýst neinum sérstökum áhyggjum sínum út af því. Hins vegar ætlaði allt vitlaust að verða þegar það var lagt til af okkar hálfu þegar við tókum þátt í viðræðum við núverandi stjórnarflokka í janúarmánuði sl. að við teldum ekki stætt á öðru en að lækka verð á matvælum með því að lækka söluskattinn og þó að það kostaði ríkissjóð tæplega 3 milljarða kr. yrði að sætta sig við það. Það var talið gjörsamlega útilokað þá, en síðan hefur eins og ég segi það gerst að ríkissjóður hefur orðið fyrir sannanlegu tekjutapi sem nemur 3 milljörðum kr. og það er ekki nokkur maður sem hefur áhyggjur af því. Það þykir mér mjög athyglisvert þegar ég hugsa til baka yfir liðna tíð.
    Þetta er einkennilegt þar sem núv. ríkisstjórn virðist setja afkomu ríkissjóðs í öndvegi. Það er númer eitt, tvö og þrjú í stefnu ríkisstjórnarinnar, afkoma ríkissjóðs. Allt annað má sitja á hakanum. Afkoma heimilanna kemur þar langt fyrir aftan. Það er öllum sama um það hver hún er. Og afkoma fyrirtækjanna. Ríkisstjórninni hlýtur nánast að vera nákvæmlega sama
hver hún er því að afkoma fyrirtækjanna er slík að mér er tjáð af virtum endurskoðendum hér í bæ að fjögur af hverjum fimm fyrirtækjum landsins séu nú rekin með bullandi tapi. Þetta fimmta fyrirtæki sem er rekið með einhverjum hagnaði eru yfirleitt banka- og peningastofnanir. Allt annað er á hausnum, þ.e. allur atvinnurekstur landsmanna, ef frá eru taldir bankar og fjármögnunarfyrirtæki, virðist vera rekinn með tapi. ( HBl: Bankarnir eru reknir með tapi núna.) Ja, það var athyglisvert. Þá er kannski allt rekið með tapi. Það er kannski sú stefna sem menn vilja framfylgja hér að lokum að allt atvinnulíf verði rekið með tapi. ( SalÞ: Þá verður forsjárhyggjan 100%.) Ja, það gæti verið, hv. þm., að það endi þannig.
    Það sagði einn ágætur maður við mig fyrir síðustu helgi þegar við vorum að ræða um efnahagsmál, en

þau eru nú rædd á öllum kaffistofum landsins, í öllum gufubaðsklefum landsins. Alls staðar þar sem fólk kemur saman hefur fólk áhyggjur af efnahagsástandi þjóðarinnar, því óstandi sem er í atvinnulífinu og því óstandi sem er í þjóðmálum yfirleitt. Einn góður maður sagði: Hvað eigum við að gera? Það er kannski aðeins eitt til ráða. Það er að skipta um þjóð í þessu landi. Ég sagði að að þyrfti ekki að skipta um þjóð. Það þyrfti að skipta um stjórnendur. Þá kannski væri von til þess að það færi að ganga betur hjá okkur.
    Þetta er lítið frv. og lætur ekki mikið yfir sér, en ég held þó að hér sé um mjög stórt og mikið mál að ræða, enda minnist ég þess að þegar við ræddum það hér á síðustu mánuðum ársins 1987 voru fluttar langar og miklar ræður um þá ósvinnu að leggja söluskatt á matvæli með þeim hætti sem þá var verið að gera. Nú bregður svo við að allar raddir eru hljóðnaðar, það virðist öllum vera sama um matarskattinn.