Samningsbundnir gerðardómar
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samningsbundna gerðardóma, en frv. er samið af þeim Stefáni Má Stefánssyni prófessor og Valtý Sigurðssyni borgarfógeta á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Við samningu frv. var haft náið samráð við réttarfarsnefnd sem starfar á vegum ráðuneytisins.
    Með gerðarmeðferð er átt við að aðilar ákveði með samningi sín á milli að útkljá fyrir gerðardómi ákveðinn réttarágreining sem risið hefur í tilteknum lögskiptum þeirra eða kann að rísa síðar. Slíkur samningur leiðir þá til þess að aðilar undanþiggja sig um leið dómsvaldi lögskipaðra dómstóla ríkisins um viðkomandi sakarefni. Slík gerðarmeðferð hefur tíðkast lengi í einhverri mynd bæði hér á landi og erlendis, enda talin geta haft ýmsa kosti í mörgum tilvikum fram yfir hina lögskipuðu dómstólaleið. Kostir þess að leggja sakarefnið í gerð eru einkum þeir að um getur verið að ræða mun hraðari málsmeðferð, minni líkur á að deilur aðila komist í hámæli og aðilar geti að miklu leyti ráðið sjálfir hverjir séu gerðarmenn. Þá færist það í vöxt vegna alþjóðlegra viðskipta og fjölþjóðaverkefna að gerðarmeðferð sé viðhöfð um ágreiningsefni þar sem samningsaðilar í alþjóðlegum viðskiptum telja þá leið í mörgum tilvikum greiðfærari og álitlegri en að leita til dómstóla í viðkomandi ríki.
    Hins vegar er það svo að gerðarmeðferð fylgja einnig ókostir eins og gengur og gerist. Þar má helst nefna að gerðarmeðferð er almennt ekki talin veita sömu réttarvernd og hin almenna dómstólaleið. Því er hugsanlegt að aðili kynni frekar að glata rétti sínum ef hann semur um slíka gerðarmeðferð en ef hann hefði látið reyna á mál sitt fyrir hefðbundnum dómstólum. Til þess að draga úr slíkum neikvæðum áhrifum gerðarmeðferðar hefur samningsfrelsið um gerðardóma, m.a. um skipun gerðardóms og málsmeðferð, verið skert nokkuð, bæði til að gæta hagsmuna einstaklinga og hins opinbera. Þannig gætir réttarfarssjónarmiða í vaxandi mæli um meðferð gerðardóma bæði hérlendis og erlendis.
    Nágrannaríki okkar hafa farið þá leið að setja lög um gerðardóma þar sem m.a. eru gerðar ákveðnar lágmarkskröfur um meðferð samningsbundinna gerðarmála og sönnun þess að aðilar hafi viljað afsala sér rétti til að bera mál sín undir dómstóla. Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu, hafa þegar valið þessa leið. Hér á landi hefur gerðarmeðferð til lausnar deilumálum engu að síður verið beitt nokkuð. Það sem helst stendur gerðarmeðferð fyrir þrifum hér á landi er að sett lög skortir að mestu um gerðardóma. Því veldur að sjálfsögðu ýmiss konar óvissa um rekstur slíkra gerðarmála.
    Með frv. er ætlað að bæta úr þeirri þörf sem hefur skapast vegna skorts á lögum um þetta efni. Ég tel að hér sé um þarft mál að ræða sem ætti að geta auðveldað meðferð ýmissa deilumála og létt á dómstólum í einstökum tilvikum. Vænti ég þess að um það geti ríkt góð samstaða.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja mál þetta frekar og

vísa til ítarlegrar greinargerðar um málið með frv. en vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.