Búfjárræktarlög
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á búfjárræktarlögum, nr. 31 frá 24. apríl 1973, með síðari breytingum. Þetta frv. er stutt og fjallar um það að við lögin bætist ein grein, er verði 64. gr., svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarstjórnum er heimilt, til að auka öryggi umferðar á þjóðvegum og að forða ágangi búfjár, að ákveða að eigendum búfjár, þ.e. sauðfjár, geita, nautgripa og hrossa, sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta þess.
    Heimild þessi getur jafnt tekið til alls lögsagnarumdæmis viðkomandi sveitarstjórnar eða afmarkaðs hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.``
    2. gr. frv. hljóðar svo: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld 35. gr. laga nr. 108 29. des. 1988.``
    Eins og heyra má er þetta lagaákvæði flutt til þess að gefa sveitarstjórnum í landinu ótvíræða lagaheimild til þess að takmarka lausagöngu í ákveðnum tilvikum og í sérstökum tilgangi, eins og getið er í lagagreininni og nánar er vikið að bæði í greinargerð og athugasemdum við einstakar greinar frv.
    Í gildandi lögum er ekki að finna almenna heimild til handa sveitarstjórnum til að banna lausagöngu búfjár. Samkvæmt lögunum frá 1973, eins og þeim var breytt með lögum nr. 108/1988, er eingöngu heimild fyrir sveitarstjórnir til að takmarka lausagöngu hrossa, sbr. 38. gr. laganna. Því þykir nú nauðsynlegt að auka við þessar heimildir eins og hér er lagt til. Að vísu er það svo að samkvæmt lögum um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum hafa sveitarfélög sem þar eiga í hlut heimildir til að banna með reglugerð tiltekið búfjárhald eða takmarka það eftir atvikum. Þetta hafa margar sveitarstjórnir í þéttbýli, kaupstöðum eða kauptúnum notfært sér án þess þó að framkvæmd þeirra hluta sé alls staðar sem skyldi og vantar þar víða nokkuð upp á að mínu mati. Ég held að það sé orðið ljóst að mikil þörf sé á því að unnt sé að takmarka lausagöngu. Breyttar aðstæður krefjast þess að unnt sé að grípa til aðgerða svo sem út frá stærstu þéttbýlissvæðum landsins og meðfram fjölförnum vegum og það er m.a. tilgangurinn með þessu lagafrumvarpi.
    Rétt er að taka fram að breyting þessi, sem reyndar hafði verið undirbúin og samþykkt af þingflokkum stjórnarliðsins þegar fyrir áramót, er í raun alveg í sömu átt og samhljóða ályktun sem nýafstaðið búnaðarþing samþykkti um rýmri heimildir fyrir sveitarstjórnir til að takmarka lausagöngu búfjár.
    Ég þarf ekki, herra forseti, að fara um þetta öllu fleiri orðum. Ég held að þessi breyting sé nauðsynleg, tímabær og einnig í samræmi við þá vinnu sem í gangi er, m.a. á vegum landbrn., við að skilgreina betur ýmislegt sem lýtur að vörsluskyldu búfjár í landinu. Ég vil nefna það að starfandi er starfshópur, sem settur var á fót á sl. hausti fyrir tilstuðlan landbrn., sem hefur það verk að huga að lausagöngu

búfjár og umferðaröryggi. Ástæða þess að þetta starf var sett af stað eru tíð og allt of tíð slys á vegum landsins, einkum og sér í lagi vegna lausagöngu stórgripa. Þeim slysum hefur því miður farið ört fjölgandi á ákveðnum svæðum og er svo komið að samdóma álit löggæslumanna og sýslumanna er að óhjákvæmilegt sé að endurskoða ýmislegt í þeim efnum og grípa til aðgerða.
    Þá vil ég og nefna að það stendur yfir heildarendurskoðun allra búfjárræktarlaganna. Hér er eingöngu lagt til að bætt sé við einni grein í þann mikla lagabálk, en vonandi tekst að leggja fyrir Alþingi nú á þessu vori endurskoðun á þeim hluta búfjárræktarlaganna sem snýr að ræktunarstarfinu sjálfu, þ.e. sjálfri búfjárræktinni. Ætlunin er að skipta búfjárræktarlögunum í tvennt, í tvo lagabálka þar sem annars vegar verður eingöngu fjallað um sjálft ræktunarstarfið og búfjárræktina í landinu. Hins vegar um búfjárhaldið, vörsluskyldu búfjár, ásetning og önnur slík málefni sem betur eiga heima í almennum lögum um búfjárhald. Þetta er niðurstaða starfsnefnda sem starfað hafa, bæði á vegum Búnaðarfélagsins og reyndar víðar, og endurskoðun laganna á þessum grundvelli hefur staðið yfir og stendur enn yfir. Þegar er lokið endurskoðun á kaflanum um búfjárræktina og það er von mín að sá hluti laganna geti komið fyrir þingið í frumvarpsformi innan tíðar. Þá stendur eftir sá hluti laganna sem þetta frv. í raun tilheyrir, þ.e. almennu ákvæðin um búfjárhaldið, og mundi frv. halda gildi sínu sem hluti af þeim hluta laganna.
    Ég þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum, herra forseti, en legg að sjálfsögðu til að frv. fari að lokinni þessari umræðu til umfjöllunar í hv. landbn. deildarinnar.