Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að áður en Danir komu á heimastjórn á Íslandi gengu þeir frá samningum um að afhenda íslensk fiskimið til útlendinga að verulegu leyti. Það var gengið frá því að hér skyldi aðeins vera þriggja sjómílna landhelgi. Þetta kallaði á það að samkeppni milli Íslendinga og útlendinga um veiðar við strendur landsins varð gífurlega hörð.
    Árið 1922 setja Íslendingar sér lög um rétt til fiskveiða í landhelgi. Og inn í þau lög setja þeir ýmis ákvæði sem beinlínis voru hugsuð til þess að gera útlendingum erfitt fyrir að stunda veiðar fyrir utan þessa þriggja mílna landhelgi.
    Þessi lög eru að verulegu leyti orðin úrelt eftir að Íslendingar eiga nú 200 mílna landhelgi og samkeppni um veiðar fyrir utan íslensku landhelgina er því sáralítil af hendi Íslendinga við aðrar þjóðir eða þá engin. Með því aftur á móti að reyna að koma í veg fyrir það að skip, t.d. frá Grænlandi eða Færeyjum, leiti hér hafnar eða selji hér fisk erum við fyrst og fremst að skaða eigin hagsmuni. Við erum að koma í veg fyrir að þeir sem gjarnan vildu eiga við okkur viðskipti eða kaupa af okkur þjónustu eigi kost á því nema með sérstöku leyfi frá ráðherra í hvert skipti. Ég tel að Íslendingar eigi að leggja kapp á það að eiga góð samskipti við allar þjóðir en þó fyrst og fremst við granna sína vegna þess að það lítur dálítið illa út að mínu viti ef við boðum það í orði að við viljum vera friðflytjendur og við viljum samstarf við útlendinga en höldum því svo fram að erlendir fiskimenn megi aðeins leita skjóls við strendur til þess að bjarga sér undan stormi og óveðri, annars er útlendingum bannað að hafast við við land eða í höfn til þess að reka þaðan fiskveiðar utan landhelgi. Hvað er á móti því að Grænlendingar fái að reka fiskveiðar frá Norðurlandi og Vestfjörðum, á því hafsvæði sem þeir geta ekki með nokkru móti rekið fiskveiðar á frá sínum höfnum, þ.e. fyrir austan Grænland? Það er ekkert sem mælir með því að þeim sé bannað að stunda veiðar hér í þeirra eigin landhelgi.
    Ég sá það í Dagblaðinu í dag að Íslendingar hafa leitað eftir því að mega kaupa loðnu af Grænlendingum og þeir ætla sér að leita eftir því. Og þeir vilja kaupa kvótann eins og hann kemur fyrir. Ég teldi það mjög æskilegt í framtíðinni ef grænlensk fiskiskip ættu kost á því að leita hér hafna, selja hér fisk, í fullu frelsi. Og sama segi ég um vini okkar Færeyinga, en trúlega hefur engin þjóð reynst okkur betur og má þar minnast þorskastríðsins.
    Mér finnst satt best að segja að þetta mál sé svo einfalt og svo lítið að það þurfi ekki að hafa langar tölur til að kynna það. Það ágreiningsmál sem við áttum við Færeyinga í fyrra þegar þetta var flutt er nú úr sögunni. Við erum búnir að semja um skipti á loðnukvóta milli nágrannaþjóða okkar og ég held að það hljóti að líta dálítið hlálega út ef menn kvarta hér undan verkefnaleysi, t.d. fyrir skipasmíðastöðvar og íslenska iðnaðarmenn, en vilja jafnframt viðhalda yfir 60 ára gömlum lögum sem voru sett við allt aðrar

aðstæður og til að ná allt öðrum markmiðum.
    Ég hika aftur á móti við að leggja hér fram ákvæði um það að allar þjóðir skuli hafa þennan sama rétt. Ég viðurkenni það að mér finnst að þetta eigi að vera fyrsta skrefið, en ég get vel hugsað mér að útvíkka þá breytingu sem hér er lögð til þannig að við leyfum enn þá meira frelsi.