Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér liggur frammi um breytingu á lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands, hefur áður komið fram og verið flutt af sömu aðilum og hér flytja það, hv. 2. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Reykn.
    Það má öllum vera ljóst að þegar þessi lög sem hér um ræðir voru sett 1922 voru allt aðrar aðstæður hér en nú eru. Og ég vil taka undir með flutningsmönnum um það að það er nauðsyn á að breyta þessum lögum í þá veru sem hér er að fiskiskip frá Færeyjum og Grænlandi séu undanþegin þeim ákvæðum sem þar eru.
    En ég hefði viljað ganga lengra því að ég tel að þetta sé mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga. Það eru ekki aðeins þessar þjóðir sem stunda hér fiskveiðar í kringum landið, það eru fleiri þjóðir, t.d. eins og Japanar sem hafa stundum verið við fiskveiðar ekki allfjarri og Rússar, og þessar þjóðir hafa orðið að leita annað eftir þjónustu. Þarna eru meiri hagsmunir á ferðinni en menn í fljótu bragði virðast gera sér grein fyrir.
    Það er í fyrsta lagi það að hér er um veruleg olíukaup að ræða, í öðru lagi er um verulega viðgerðarþjónustu að ræða. Mér hafa sagt það aðilar sem eru hér umboðsmenn á fiskveiðitækjum að þessi skip hafi oft og tíðum óskað eftir að hér væru sett niður dýr og vönduð fiskveiðitæki og siglingartæki þannig að hér eru í húfi verulegar upphæðir. Og þá eru ýmiss konar önnur tæki sem þessi skip hafa stundum leitað eftir að fá hér en geta ekki fengið þau með þeim hætti sem nú er.
    Þá er að geta þess að eftir að við setjum hér á laggirnar fiskveiðimarkaði hefur komið upp sú staða að það væri mjög jákvætt að fá fisk frá þessum aðilum til að selja hér, jafneðlilegt og það er að við skulum sigla á Bretland og Þýskaland og önnur lönd til að selja okkar fisk á fiskmörkuðum þar. Ég tel að það væri mjög jákvætt fyrir okkar efnahagslíf að við leyfðum þetta. Þær breyttu aðstæður sem nú eru, 200 mílna lögsaga, eru allt aðrar en þegar þessi lög voru sett. En þriggja mílna landhelgin var í gildi á þeirri tíð.
    Ég held að það væri því til bóta að frv. væri samþykkt þó að það væri aðeins samþykkt að Færeyjar og Grænland væru undanþegin þessu. Ég teldi hins vegar æskilegra að öll lönd væru væru undanþegin þessu, þannig að við værum þess albúnir að taka þátt í alþjóðlegri verslun á þessu sviði eins og önnur lönd gera hér í kringum okkur.
    Ég vil svo að lokum þakka flm. fyrir að flytja þetta frv. sem er mjög tímabært að samþykkja hér.