Umferðarlög
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég hafði svo sannarlega gert ráð fyrir því að það væri annað mál á dagskrá á undan þessu máli sem var búið að gefa loforð um að yrði fyrsta mál að lokinni atkvæðagreiðslu. Sú ákvörðun var tekin á fundi í gær. Ég hélt að sú umræða yrði kannski svo löng og ítarleg að henni veitti ekki af fundartímanum í dag. Þess vegna langar mig til þess að spyrja: Hvenær er von á hæstv. forsrh. á þessum fundi? ( Forseti: Hæstv. forsrh. er fjarverandi vegna jarðarfarar, en er væntanlegur einhvern tíma eftir kl. 3.) Ég þakka fyrir þessar upplýsingar og vissulega er eðlilegt og ekkert við það að athuga að menn geti verið fjarverandi af slíkum ástæðum og mun ég því nota þennan tíma til að mæla fyrir þessu frv. mínu sem ég flyt ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Guðmundi Ágústssyni, Skúla Alexanderssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur. Þetta frv. er á þskj. 669.
    Þetta frv. fjallar um breytingar á umferðarlögum nr. 50/1987. Þær breytingar sem frv. fjallar um eru varðandi þrjú atriði, þ.e. bílbeltanotkun í aftursætum bifreiða, hlífðarhjálma fyrir börn á reiðhjólum og sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa.
    Eins og öllum er kunnugt tóku ný umferðarlög gildi á síðasta ári og í þeim voru ýmis nýmæli sem ætlað er að bæta umferðaröryggi og draga úr slysum. Eftir þá reynslu sem komin er frá því að lögin tóku gildi fyrir rúmlega einu ári er ljóst að ýmsar veigamiklar breytingar sem gerðar voru á lögunum hafa orðið til að draga úr alvarlegum slysum. Þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir eru til að stuðla að enn frekari úrbótum í þeim efnum.
    Í 1. gr. frv. er lagt til að lögbinda einnig notkun bílbelta í aftursætum bifreiða. Aukin notkun bílbelta í framsætum bifreiða er þegar farin að skila árangri í fækkun ákveðinna tegunda áverka í bílslysum, þ.e. alvarlegra áverka.
    Vaxandi skilningur almennings á notkun bílbelta kemur m.a. fram í könnun Hagvangs fyrir tímaritið Heilbrigðismál, en í þeirri könnun kemur fram að flestir þeirra sem spurðir voru vilja lögleiða bílbelti í aftursætum. Þessar niðurstöður könnunar Hagvangs er að finna á fskj. I með frv., en þannig var staðið að þessari könnun að af 1159 manns, bæði karlar og konur voru spurð, tóku 1087 afstöðu. Þetta var sem sagt könnun á afstöðu fólks til lögbindingar á bílbeltanotkun í aftursætum bifreiða.
    Spurt var: Ertu hlynnt eða andvíg skyldunotkun bílbelta í aftursætum? Og ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að lesa þessi svör, en þau skiptust þannig, með leyfi forseta, að hlynnt bílbeltanotkun í aftursætum voru 88% allra sem spurð voru, á aldrinum 15--79 ára, og andvíg voru 12%. Af þeim voru 82% karla hlynntir bílbeltanotkuninni en andvígir 18% og 94% kvenna hlynntar en andvígar 6%.
    Ef farið er yfir þetta eins og aldursskiptingin kemur fram eru 85% á aldrinum 15--19 ára hlynnt bílbeltanotkun í aftursætum en 15% andvíg. Þetta finnst mér vera í raun og veru merkileg og ánægjuleg niðurstaða því að þetta eru yngstu aldurshóparnir sem

oftast eru sakaðir um að vera minna ábyrgir en kannski þeir eldri þegar um ökutækin er að ræða og þykja stundum vera ofurhugar í akstri. En alla vega er þarna um mjög ábyrga niðurstöðu að ræða.
    Á aldrinum 20--29 ára er það svipað, aðeins minna hlutfall. Það eru 81% sem eru hlynntir en 19% á móti. Á aldrinum 30--39 ára eru það 94% en 6% andvíg. Á aldrinum 40--49 ára eru það 88% en 12% andvíg. Á aldrinum 50--59 ára 90% á móti 10%. Á aldrinum 60--69 ára 88% á móti 12%. Og 70--79 ára 95% en 5% sem eru andvígir.
    Þetta eru mjög ánægjulegar niðurstöður. Ef tekin eru svæðin eru á höfuðborgarsvæðinu 88% hlynntir og 12% andvígir. Þéttbýli úti á landi: 88% hlynntir, á móti 12%. Og í dreifbýlinu 89% á móti 11%. Mér sýnist að þessi könnun, sem verður að ætla að sé marktæk, gefi vissulega í skyn að það sé fyllilega tímabært að lögleiða bílbeltanotkun í aftursætum þegar haft er í huga hvað þetta skiptir miklu máli til að koma í veg fyrir eða fækka þeim slysum sem valda alvarlegum áverkum og jafnvel varanlegri örorku eða dauða eins og við þekkjum dæmin um.
    Það eru ekki margir dagar síðan það var umræðuþáttur í sjónvarpinu einmitt um þessi mál, þar sem mættu í sjónvarpsasal aðilar sem höfðu sjálfir orðið fyrir slysum og varanlegri örorku einmitt vegna þess að bílbelti höfðu ekki verið notuð þegar slysið varð. Ég veit að þessi þáttur hefur vakið mikla athygli og umhugsun hjá fólki sem sýnir að það er ástæða til að gera ráðstafanir í þessum efnum.
    2. gr. frv. er breyting á 72. gr. laganna um að á eftir 1. mgr. komi ný málsgr. sem orðist svo: ,,Barn tíu ára eða yngra sem hjólar eða er reitt á reiðhjóli skal nota hlífðarhjálm.``
    Ég vænti þess að það þurfi ekki að hafa mörg orð til skýringar á þessu atriði. Notkun slíkra hjálma hefur verið lögleidd víða erlendis, t.d. í Svíþjóð í mörg ár, og það þykir sannað að notkun þeirra dregur úr alvarlegum höfuðáverkum vegna reiðhjólaslysa á börnum, en það eru einmitt höfuðáverkarnir, þessir alvarlegu áverkar, sem helst verða þegar um
reiðhjólaslys er að ræða.
    3. gr. er í raun og veru aðeins til að kveða ákveðnar að orði um 5. mgr. 114. gr. laganna, að hún orðist svo að í stað þess að það stendur í lögunum: ,,Ráðherra getur skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa``, þá er lagt til í frv.: ,,Dómsmálaráðherra skal skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Í nefndinni skulu eiga sæti fimm menn með sérfræði- og tækniþekkingu sem varðar slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðaeftirlit, löggæslu og tryggingamál. Nefndin starfar undir eftirliti Umferðarráðs.``
    Ég legg þessa breytingu fram nú vegna þess að það hefur því miður ekki reynst svo að ráðherra hafi nýtt sér þessa heimild. Það ber öllum saman um sem um þessi mál fjalla, sérfræðingum og þeim sem mikið hafa með afleiðingar slysa og umferðaróhappa að gera, að það sé vissulega þörf á að skipa slíka rannsóknarnefnd, en því hefur ekki verið sinnt. Þetta

hefur margoft komið fram í áskorunum frá landlækni og tillögur hafa verið samþykktar á landsþingi um slysavarnir æ ofan í æ, en því hefur því miður ekki verið sinnt. En þessir aðilar líta svo á að þetta sé mikið atriði til þess að geta gert sér grein fyrir hvað hægt sé að gera og hvað þurfi að gera varðandi ráðstafanir í forvarnarstarfi.
    Ég vil leyfa mér að vísa til frekari fskj. sem fylgja frv. Í fskj. II er tekið úr fréttabréfi landlæknisembættisins um árangur bílbeltanotkunarinnar og þar kemur skýrt fram um umferðarslys á Reykjavíkursvæðinu á tímabilinu frá 1. mars til 1. okt. 1987 og 1988 að slysum eða alvarlegum áverkum hefur stórlega fækkað hjá þeim aðilum sem notuðu bílbeltin þrátt fyrir það að tognunum og öðrum slíkum áverkum hafi frekar fjölgað vegna notkunar bílbeltanna. Þessar niðurstöður eru birtar þarna til frekari staðfestingar og skýringar á því að það er vissulega ástæða til að breyta lögunum í þá veru að lögleiða bílbeltin í aftursætinu.
    Síðan er hér fskj. III og það er um reiðhjólaslysin. Það er skýrsla sem unnin var af Eiríku Á. Friðriksdóttur og Ólafi Ólafssyni um reiðhjólaslys í Reykjavík í maí 1981. Þar kemur fram að yfir 30% af reiðhjólaslysum í umferð verða meðal sex ára barna og yngri og algengasta afleiðing reiðhjólaslysa er einmitt höfuðmeiðsli. Þess vegna er lögð til þessi breyting, þ.e. skyldunotkun hlífðarhjálma.
    Mér þykir rétt, hæstv. forseti, að nefna það í leiðinni að hv. 3. þm. Vesturl. hefur lagt fram frv., sem væntanlega verður þá til umræðu í næstu viku, um breytingar á umferðarlögunum. Við höfðum talað saman þegar ég var með þetta frv. í undirbúningi og hann hafði hugsað sér að leggja einnig fram frv., en þar sem ég hafði gengið frá mínu frv. varð það samkomulag á milli okkar að hann mundi leggja sitt frv. fram sem nokkurs konar viðbót þó að í raun og veru megi segja að þessi tvö frumvörp eigi samleið og verði væntanlega afgreidd sem slík í hv. allshn. Ég er mjög ánægð að sjá að í hans frv. er tekið á þættinum varðandi börn, bílbelti og barnabílstóla. Það er sá þáttur sem vantar inn í þetta frv. Það má segja að það sé nokkurs konar framhald sem komi fram hjá honum. Það gefst tími til að ræða þessi mál frekar þegar þar að kemur, en mér þótti rétt að geta þess að það er samvinna okkar á milli að þessi tvö frumvörp koma fram um næstum sama efni.
    Ég þarf kannski ekki að hafa um þetta mörg fleiri orð, hæstv. forseti. Við höfum svo oft rætt þessi mál góðu heilli í þessari hv. deild og það er mikill áhugi að ég tel hjá hv. þingdeildarmönnum að gera allt sem unnt er til að reyna að fækka umferðarslysum og umferðaróhöppum. Það er nú einu sinni svo og það er sérstaklega ánægjulegt, og ég vil geta þess hér, að það eru ýmis félagasamtök og hópar sem hafa einnig tekið þessi mál upp á sína arma, m.a. hópur leikara sem hafði frumkvæði um að stofna samtök sem stóðu að því er ég best veit að sjónvarpsþættinum sem ég vitnaði í áðan. Mér hefur stundum dottið í hug, vegna þess að það kom fram þar hjá stjórnanda þáttarins að

það ríkti stríðsástand hér í umferðinni oft á tíðum, að ömmur á Íslandi hafa stofnað friðarsamtök og manni dettur stundum í hug hvers vegna ömmur á Íslandi, sem eru með þessi friðarsamtök, taki ekki á þessu stríðsástandi og geri það að sínu baráttumáli að koma á friði í umferðinni.
    Ég vil, hæstv. forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.