Söluskattur
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna það að mér er ekki ljóst hvernig þessi mikilvægu mál, sem hv. þm. ræddi, falla undir það mál sem hér er til umræðu, en það er nú kannski aukaatriði, nema hvað ein af hans spurningum var um matvælin og þá að sjálfsögðu söluskattinn á þeim. Ég skal engu að síður leitast við að svara þessum spurningum.
    Í fyrsta lagi ræddi hv. þm. nokkuð um afkomu fiskvinnslunnar og mun þá eiga við botnfiskvinnslunnar. Það er rétt sem hv. þm. sagði að Samtök fiskvinnslustöðva telja að botnfiskvinnslan sé rekin með halla sem er u.þ.b. 2,7%. Þjóðhagsstofnun hefur skoðað þessar tölur vandlega og er með nokkuð betri afkomu eða nær núllinu, fyrir frystinguna fyrir neðan núllið, ef ég man rétt held ég 2%, en fyrir saltfiskinn nokkuð fyrir ofan núllið. Það sem ber þarna fyrst og fremst á milli er fjármagnskostnaður því að Þjóðhagsstofnun reiknar með 6% ávöxtun en hins vegar reikna fiskvinnslustöðvarnar, eins og kom fram hjá hv. þm., með 8%.
    Ég ætla ekki út af fyrir sig að fjalla um þessar tölur nánar, ég tek undir það og ég er sammála því að það er enginn vafi á því að fiskvinnslan er rétt á mörkum og þyrfti afkoma hennar að vera betri. Hins vegar hefur ríkisstjórnin fylgt þeirri stefnu, eftir að gengið hefur nú verið fellt um yfir 30% á einu ári og eftir að gengið var fellt um 11--12% í tíð þessarar ríkisstjórnar, að rétt sé fyrir okkur að leggja áherslu á að vinna okkur út úr þeim vanda sem við erum í, forðast að fella gengið meira og forðast þeir verðhækkanir sem fylgja þar með sem eru einhver mesti erfiðleikinn sem við eigum nú við að stríða í þeim samningum sem hv. þm. ræddi um. Hvort tveggja verður ekki haft, að fella gengið og halda verðlagi stöðugu. Ég held að það sé engin launung að samningar núna tækjust tiltölulega auðveldlega ef sú verðbólgualda væri ekki sem við eigum við að stríða sem hefur risið á eins mánaðar mælikvarða, fært yfir til ársins, í um 30% og veldur vitanlega sem von er verulegri gagnrýni og tortryggni, vil ég segja, hjá launþegum. Ég get tekið undir það.
    Það er ýmislegt að gerast í fiskvinnslunni sem bendir til þess að afkoma fiskvinnslunnar muni fara batnandi. Í fyrsta lagi er á vegum fiskvinnslunnar sjálfrar mjög víða unnið að mjög athyglisverðum hagræðingaraðgerðum. Ég bendi t.d. á Ólafsfjörð í því sambandi þar sem fyrirtæki hafa sameinast, á Þorlákshöfn þar sem fyrirtæki eru að sameinast, á Vestfirði þar sem verið er að hagræða í útgerð og menn eru að taka sameiginlega á þeim rekstri. Og fleira gæti ég nefnt. Auk þess er tekinn til starfa Hlutafjársjóður og umsóknir bárust til hans, ég veit ekki fyrir víst hver fjöldinn var en þar verða a.m.k. um 15--20 fyrirtæki sem mjög fljótreiknað er talið að færa þurfi til í eigið fé yfir tvo milljarða. Þetta er vissulega lausleg áætlun sem ég verð að taka fram að er ekki byggð á nákvæmri athugun en þó er búið að vinna töluverða forvinnu í þessu.
    Ég vek athygli á því að 2 milljarðar eru nálægt

7--8% af framleiðsluverðmæti botnfiskvinnslunnar á ári hverju, því ef ég man rétt þá er framleiðsluverðmætið um 27 milljarðar. Vitanlega batnar afkoman ekki um það, ég vil ekki að menn skilji mig svo, en væntanlega dregur þetta töluvert úr fjármagnskostnaði þeirra fyrirtækja sem hér er um að ræða. Mikið af þessum lánum sem breytt verður í eigið fé er í vanskilum og til viðbótar þessu er ljóst að skuldbreyting Atvinnutryggingarsjóðs mun draga úr fjármagnskostnaði.
    Ég vek athygli á því að mikil hækkun hefur orðið á dollaranum núna allra síðustu dagana, a.m.k. hefur vanalega verið svo talið af fiskvinnslustöðvunum að ef dollarinn falli þá sé það mjög slæmt, svo vonandi er það mjög gott ef hann hækkar. Ég skal hins vegar viðurkenna það að ég held að áhrif dollarabreytinganna séu minni en margir telja því að það er orðið svo mikið sem selt er í öðrum gjaldmiðlum. En það er viðurkennt af fiskvinnslunni að þessi dollarahækkun sé til bóta, sérstaklega fyrir þær fiskvinnslustöðvar sem framleiða fyrir Bandaríkjamarkað.
    Það er ljóst sem hv. þm. benti á að þegar greiðslur þrjóta úr Verðjöfnunarsjóði þá vitanlega versnar afkoma frystingarinnar um það sem þessu nemur nema hækkanir komi á móti. Og það er engin launung að ríkisvaldið telur að gera megi ráð fyrir umtalsverðum hækkunum, sérstaklega á Evrópumarkaði á sumarmánuðum. Þær athuganir, sem hafa verið gerðar á því af hálfu okkar, benda mjög til þess að þegar sá kvóti, sem úthlutað hefur verið í Evrópu, þrýtur --- þar hefur verið dregið úr kvóta sem nemur fleiri hundruð þúsundum tonna --- þá muni verða umtalsverð fiskverðshækkun þar. Ég viðurkenni hins vegar svo sannarlega að þetta er óviss þáttur og ríkisstjórnin mun fylgjast mjög vandlega með því hvernig þau mál þróast. En að fara að ákveða núna t.d. að gengið skuli fellt til þess að mæta því þegar þessar greiðslur hætta, það væri vitanlega fásinna og ég held að enginn maður ætlist til þess. Þarna þarf að hafa puttana á púlsinum og fylgjast með því sem er að gerast og leita allra leiða til að bæta upp það þrep sem verður þegar greiðslur hætta. Þess má geta að eftirstöðvar í Fiskveiðasjóði í frystideild eru nokkru meiri en áður var talið og munu endast fram í júlímánuð.
    Þannig er nákvæmlega fylgst með því hvernig fiskvinnslunni líður, ef ég má orða það svo. Við höfum fengið á okkar borð sem trúnaðarmál frá fiskvinnslufyrirtækjum reikninga bæði síðasta árs og uppgjör fyrstu tveggja mánaða þessa árs og þar er hjá mörgum fyrirtækjum um gjörbreytingu að ræða. Ég ráðlegg t.d. hv. þm. að heimsækja Útgerðarfélag Akureyringa sem ég hins vegar viðurkenni að er ekki kannski marktækt að öllu leyti því það er með öflugustu fyrirtækjum landsins, en þar hefur orðið mjög mikil breyting á framlegð nú og svo er um mörg önnur fyrirtæki sem ég hef getað kynnt mér. En ég endurtek engu að síður að þegar á heildina er litið þá er afkoma botnfiskvinnslunnar áreiðanlega alveg í

mörkum og það þarf vandlega að fylgjast með því sem þar gerist.
    Þegar rætt er um afkomuna verður að sjálfsögðu að nefna fiskverðið sem hækkaði ótrúlega mikið og mikið meira en ríkisstjórnin taldi skynsamlegt í þessari stöðu. Í þeirri vinnu sem fram fór í yfirnefnd var, að því er talið var, orðin niðurstaða á milli kaupenda og oddamanns að hækka fiskverð um 5,5% sem, að viðbættum þeim 1,25 sem hækkunin varð 15. febrúar, hefði þá orðið, eins og allir geta reiknað, 6,75% eða kannski rétt rúmlega það þar sem það síðara hefur komið ofan á það fyrra. En hækkunin varð meiri, hún varð 8,5 eða samtals 9,75%, þremur hundraðshlutastigum hærri en menn töldu vera skynsamlegt í þessari stöðu. Þessa ákvörðun tóku fiskverkendur sjálfir og sömdu um það við sjómenn og ég er síður en svo að áfellast þá fyrir það. Þeir hafa náttúrlega gert það að mjög vel athuguðu máli og talið æskilegra að ná þannig samstöðu með sjómönnum þótt um þetta mikið hærri fiskverðshækkun væri að ræða. En eins og allir vita þá vigtar fiskurinn u.þ.b. 50% í afkomu frystihúsanna svo aðeins þessir þrír hundraðshlutar, miðað við laun, eru u.þ.b. 6--7%, þá samsvara þeir um svona 7% hækkun launa, 6% skulum við segja því launin eru í kringum 24--25%.
    Ég tel rétt að þessir hlutir allir komi fram því vitanlega verður að taka þá með í reikninginn þegar nú er talað bæði um afkomu fiskvinnslunnar og þá samninga sem nú er að unnið.
    Ég vil fullvissa hv. þm. um það að ríkisstjórnin mun ekki semja um fast gengi. Fyrri ríkisstjórn byggði á föstu gengi framan af í sinni tíð og það hygg ég að hafi ekki tekist vel í 20% verðbólgu. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að það væri mikið glapræði hjá hvaða ríkisstjórn sem situr að afsala sér rétti til að ákveða þennan grundvallarþátt í efnahagsmálum, það gengur ekkert upp. Þetta hef ég sagt. Þetta sagði ég bæði vinnuveitendum í morgun og þetta sagði ég fulltrúum ASÍ svo það er ekkert um það að ræða, hver sem óskhyggjan kann að vera hjá einhverjum aðilum. Hitt er svo kunnugt að þessi ríkisstjórn og m.a. ég er ekki ginnkeyptur fyrir miklum gengisfellingum. Ég hef verið ávítaður fyrir það hér að fella gengið ekki nærri því nógu mikið. Þarna þarf því eins og oft að hafa puttana á púlsinum og reyna að rata þennan vandrataða gullna meðalveg. En það verður ekkert um það samið, því fer víðs fjarri.
    Hv. þm. spurði um vextina og hvað væri fram undan þar. Það eru núna tíðir fundir með bankastjórn Seðlabankans um þau mál og ríkisstjórnin hefur lagt fyrir bankastjórnina ákveðnar hugmyndir um lækkun vaxta. Viðræður eru hafnar við lífeyrissjóðina, og hafa reyndar verið nokkurn tíma, og það bendir allt til þess að takast muni að ná fram lækkun vaxta. Ríkisstjórnin stefnir að því að raunvextir lækki um 5% í lok maí og ræðir um það nú hvernig það megi gerast. Talið er skynsamlegast að gera það í fyrsta lagi með því að vextir af ríkisskuldabréfum lækki. Það kann að vera

að það verði gert í tveimur þrepum, það vil ég hins vegar taka fram, og sömuleiðis að Seðlabankinn noti þær nýfengnu heimildir, sem nú eru orðnar að lögum og Alþingi hefur afgreitt, til þess að knýja fram, ef ekki næst með samningum, samsvarandi lækkun á raunvöxtum hjá bankakerfinu.
    Í þessu sambandi er jafnframt ákaflega mikilvægt að taka á útgáfu bankabréfa, sem hefur verið gegndarlaus og, ég vil leyfa mér að segja, stofnar jafnvel bönkum í vissa hættu, er vafasöm. Landsbankinn hefur gefið út bankabréf svo nemur milljörðum og mikið af því á föstum vöxtum, á 9,5%. Slík útgáfa bankabréfa er víða í löndum bönnuð. Hér hefur ekki verið valið að fara þá leið, hins vegar hefur verið ákveðið að hluti af þeim tekjum sem koma fyrir bankabréfin verði bundinn en aftur á móti verði binding af öðrum innlánum bankanna lækkuð á móti þannig að bindingin á því, sem núna er lagt til grundvallar í bindingu, lækkar en hins vegar ef haldið er áfram útgáfu bankabréfa í sama mæli þá eykst bindingin.
    Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel að það þurfi að athuga það hvort bindingin sé nauðsynleg eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu því að mjög hefur dregið úr útlánum bankanna. Eftirspurn virðist hafa minnkað.
    Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis lagt fyrir Seðlabankann að lengja tímabil innlána, sem heimilt er að hafa verðtryggð, úr hálfu ári í eitt ár. Og sömuleiðis að lengja það tímabil sem er ekki leyft að hafa verðtryggt, þ.e. það verður leyft að hafa verðtryggð innlán sem eru yfir eitt ár og sömuleiðis útlán sem eru yfir þrjú ár. Um þetta er rætt núna og ég sé að sjálfsögðu enga ástæðu til þess að skýra ekki frá því hér í þessari hv. deild. Það er því
verið að skoða alla þætti þessara vaxta- og bankamála.
    Það má taka það fram að í viðræðum sem við höfum átt við ASÍ hefur forusta ASÍ sett sem kröfu númer eitt að vextir lækki. Þar fara óskir þeirra og okkar svo sannarlega saman og ég veit áreiðanlega allra sem hér eru inni. Svo væntanlega verður þrýstingur á vaxtalækkun töluvert vaxandi.
    Ég vil leyfa mér að segja það að í morgun var í fyrsta sinn nú um nokkurt skeið sem ég hef talið ástæðu til að vera að einhverju leyti bjartsýnn um vaxtalækkun því að ég held m.a. að þess sé nú mjög farið að gæta í bankakerfinu að eftirspurn er minnkandi, að þensla er lækkandi og farið er að draga úr eftirspurn eftir fjármagni. Það hefur komið fram á markaðnum utan bankanna að þar hafa vextir lækkað um 1--2%. Ég er því að vona að með sameiginlegu átaki, eins og ég hef nú lýst, takist að ná fram raunvaxtalækkun.
    Ég lýk nú aldrei neinni ræðu um vextina án þess að segja það jafnframt að ég tel að það eigi að afnema lánskjaravísitöluna. Ég skil ekki enn hvernig unnt er að tryggja fjármagnið umfram það sem atvinnuvegirnir gera og ég vona að við getum verið sammála um það sem hér erum inni. Ég held að það hljóti að koma að því fyrr en seinna að við verðum

að afnema hana og taka upp svipað kerfi og er í löndunum í kringum okkur að þessu leyti sem öll hafa afnumið lánskjaravísitölu. ( EgJ: Er það ekki í stjórnarsáttmálanum?) Það er í stjórnarsáttmálanum. Það segir í stjórnarsáttmálanum að það skuli gert og jafnvægi komið á í efnahagsmálum og við stefnum að því, hv. þm., og með góðri aðstoð hv. þm. mun það takast. Það veit ég.
    Síðan spurði hv. fyrirspyrjandi um matvælin og lækkun þeirra. Ríkisstjórnin telur mjög æskilegt að halda niðurgreiðslustigi því sem nú er á landbúnaðarafurðum. Hins vegar er um frekari lækkun matvæla það að segja að til þess þarf vitanlega mjög mikið fjármagn og ríkissjóður er ekki í stakk búinn til þess að greiða milljarða í því sambandi. Hins vegar er mjög til umræðu innan ríkisstjórnarinnar hvernig framkvæma eigi virðisaukaskattinn sem ætlunin er að komi um áramótin. Í því sambandi kemur vel til greina að hafa tvö stig sem yrði þá lægra fyrir einhvern ákveðinn flokk matvæla. Þetta er mjög rætt þessa stundina og búið að reikna út ýmsa valkosti í því sambandi.
    Ég vil aðeins geta þess hér að ef t.d. á að lækka söluskatt á ákveðnum matvælum, þ.e. á mjólkurvörum, kjötvörum, fiski og kornvörum, úr þeim 25% sem nú er í 12% kostar það um 3,7 milljarða. Af því eru kornvörur með 900 milljónir. Ég nefni þá tölu því það vakti undrun mína hvað kornvörur vigtuðu þarna þungt. Nú eru þær náttúrlega notaðar í ýmislegt sem kannski telst ekki með mestu nauðsynjum. Vitanlega hlýtur fjárveitingavaldið þá að standa frammi fyrir þeim vanda hvernig á að bæta þetta tekjutap og að sjálfsögðu er ríkisstjórnin ekki síst að fjalla um það.
    Hv. þm. spurði svo um það sem hann kallaði ekknaskattinn. Ég vil nú ekki nota það orð því að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá fjmrn. er langstærstur fjöldi ekkna sem ekki fellur undir þennan viðbótarskatt, m.a. vegna þess að ónotaður persónuafsláttur nýtist í þessu sambandi. Engu að síður skal ég viðurkenna að sú hækkun eignarskatts orkar tvímælis og er til endurskoðunar nú, sérstaklega í tengslum við samræmdan eignarskatt af öllum eignum, m.a. fjármagnseignum. Þetta tel ég afar mikilvægt. Það má ekki mismuna eignarformum eins og núna er gert. Þetta hafa Norðurlöndin gert og t.d. tóku Finnar góða rispu í þessu, ef ég má orða það svo, núna fyrr á árinu og unnu mjög athyglisvert verk í samræmingu á eignarskatti sem á þá að mínu mati að leiða til þess að þessi viðbótarskattur verður þá lækkaður ef ekki afnuminn eða a.m.k. samræmingar gætt á öllum eignarskattsstofnum.
    Ég veit ekki hvort ég átti að skilja það sem hv. þm. sagði um samningana almennt sem spurningu til mín, mér heyrðist þar ýmsu fleygt sem eru nú nánast sögusagnir að því er ég best veit. Ég vil taka það fram að í viðræðum við opinbera starfsmenn hefur fjmrh. lagt áherslu á að hækkun launa verði að vera innan við eða alveg við þær forsendur sem fjárlög gera ráð fyrir sem er 7% hækkun launa frá upphafi til loka ársins. Og það er grundvöllurinn. Nú er alveg

ljóst að ef úr verður krónutöluhækkun þá mun það reynast fiskvinnslunni miklu erfiðara, hins vegar að mörgu leyti réttlátara til launajöfnunar. Þess vegna er krónutöluhækkun erfið í þessari stöðu, ég vil leyfa mér að segja því miður, því ég fyrir mitt leyti er persónulega henni fylgjandi vegna þess hvað fiskvinnslan býr við þröngan kost. Og ef þær krónutölur, sem ríkisstarfsmenn hafa kosið að ræða um, eru yfirfærðar á lægstu laun, þá er það hárrétt að mínu mati að þá er það of mikil hækkun fyrir fiskvinnsluna. Hún þolir það ekki. Þessi mál eru alls ekki leyst. Því fer víðs fjarri.
    Hv. þingmaður nefndi, ef ég man rétt, verðstöðvun þó að það væri nú ekki í þessum fjórum spurningum. Verðstöðvun til langframa gengur náttúrlega ekki upp því að það safnast of mikið á bak við. Við teljum að verðstöðvun eins og framkvæmd var í fimm mánuði hafi tekist nokkuð vel þar sem hleypt var út erlendum hækkunum. Nú hafa að vísu orðið miklu meiri hækkanir en við gerðum ráð fyrir. Hefur komið fram hjá verðlagsstjóra að ýmsar þær hækkanir sem Hagstofan hefur orðið vör við hafa ekki komið fyrir Verðlagsstofnun og veldur
það nokkurri undrun miðað við hert verðlagseftirlit. Þetta er nú í athugun hvernig má á því standa. Það hefur áreiðanlega vakið athygli sumra að hækkun á leigu á steypudælu var talin valda 0,2% hækkun á byggingarvísitölu. Ég nefni þetta sem dæmi um hlut sem Verðlagsstofnun kannast t.d. ekki við. Þetta er að ósk ríkisstjórnarinnar nú í ítarlegri athugun.
    Hvort grípa ætti til verðstöðvunar á ný með svipuðu formi og var, það þarf vandlegrar athugunar við. Ég segi fyrir mitt leyti að þegar menn eru að vinna sig út úr mjög miklum vanda, þá tel ég það alls ekki útilokað. En það verður þá að stuðla að því að allsherjarsamningar náist, þ.e. að menn sætti sig við það yfir línuna. Ég get sagt það hér að eftir því sem ég veit þá er það alls ekki svo á þessari stundu.
    Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þm. Ef þær eru fleiri þá skal ég reyna að bæta hér við en læt þessu hér með lokið.