Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Herra forseti. Ég fagna eindregið fram komnu frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sérstaklega þó hvað varðar 2. gr. þar sem lagt er til að tryggingaráði verði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá lækna sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði. Einmitt þetta mál hefur verið til sérstakra vandræða á undanförnum árum hjá tryggingaráði að því leyti til að starfsmenn Tryggingastofnunarinnar sem heyra undir tryggingaráð hafa fellt úrskurði, og þá á ég sérstaklega við læknadeild og tryggingayfirlækni, en síðan þegar um málskot er að ræða varðandi þá úrskurði, þá eru ráðgjafar tryggingaráðs hverju sinni einmitt þeir sömu aðilar sem þá hafa fellt. Þetta er ástand sem ekki er vel við unandi þannig að auðvitað þurfti til breytinga að horfa. Það er gert hér í 2. gr. þessa frv. og fagna ég því alveg sérstaklega.
    Nú hefur það auðvitað verið svo hverju sinni þegar tryggingaráð hefur fjallað um slíka úrskurði og kvatt til einmitt þá sem úrskurðina hafa fellt að þeir hafa orðið að gera grein fyrir sínum úrskurðum, segja sitt álit á því málskoti sem fram hefur komið og þeim breyttu forsendum kæranda hverju sinni. Ég geri fyllilega ráð fyrir því að svo verði áfram, að tryggingaráð hlýði á öll þau rök sem með og á móti málinu eru hverju sinni, en geti þar að auki leitað annars álits. Og það er einmitt það sem frv. gefur kost á, að tryggingaráð geti kallað til einn til þrjá lækna með sérþekkingu þannig að það geti hverju sinni fellt þann sannasta og réttlátasta úrskurð sem þeir aðilar sem undir tryggingaráð þurfa að leita með sín mál eiga rétt á.
    En það eru fleiri hliðar á þessum málum en einungis hinar læknisfræðilegu. Ég hefði gjarnan viljað sjá í þessu máli lagalegan möguleika fyrir tryggingaráð að geta einnig kvatt sér til ráðuneytis sérfræðinga á sviði félagsfræði og lögfræði ef svo ber undir að tryggingaráð treystir sér ekki til að fella hina réttlátustu úrskurði varðandi þær hliðar. Ég hefði gjarnan viljað sjá að frv. tæki einnig til þess að tryggingaráði væri heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn með sérþekkingu t.d. á sviði lögfræði eða félagsfræði. Ég held að það sé nauðsynlegt, þó að ekkert mæli í raun og veru á móti því að tryggingaráð hafi nú þegar slíka heimild, að kveðið sé á um þetta þannig að tryggingaráð geti fellt hverju sinni sannasta og réttlátasta úrskurði fyrir þá umbjóðendur sem undir tryggingaráð þurfa að sækja.