Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Það hefur gerst æðioft á undanförnum árum að tillögur hafa komið fram á Alþingi um að setja á fót sérstaka örorkumatsnefnd sem skjóta mætti til úrskurðum tryggingayfirlæknis. Þessi frumvörp hafa ekki hlotið afgreiðslu, enda verið umdeild þar sem oftast hefur verið ruglað saman upphæð bóta og læknisfræðilegu mati á starfsorkumissi, þ.e. örorkunni.
    Þetta frv., sem hér er nú flutt og hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur mælt fyrir, tekur með allt öðrum hætti á þessu máli en áður hefur verið gert hér í þinginu. Ég er þá að tala um 2. gr. frv. og reyndar 1., þar sem lagt er til að felld verði úr gildi 2. mgr. 6. gr. almannatryggingalaga, en sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Rísi ágreiningur um bætur leggur tryggingaráð úrskurð á málið. Þeim úrskurði má áfrýja til tryggingadóms, sem sett verði um sérstök löggjöf.``
    Slík löggjöf hefur aldrei verið sett og þess vegna hefur þetta ákvæði tryggingalaganna aldrei komið til framkvæmda. Ég er samþykkur því að þessi grein falli brott og fellst á röksemdir sem greinir í athugasemdum við 1. gr. frv.
    Ég get reyndar sagt strax, að ég er í öllum aðalatriðum samþykkur frv., en vil þó benda á varðandi 2. gr. frv. atriði sem heilbr.- og trn. ætti að taka til sérstakrar athugunar. Í greininni segir:
    ,,Ef ágreiningur er lagður fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu mati, er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá lækna sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Um þetta er allt gott að segja, en þá vaknar sú spurning hvernig með skuli fara ef ágreiningur er háður öðru mati en læknisfræðilegu, eins og hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson benti hér á áðan. Mér sýnist eins og honum að það kynni að vera rétt að bæta þarna inn ákvæði sem fæli það þá beint í sér að tryggingaráð gæti kvatt sér til ráðuneytis aðra sérfræðinga en lækna, ef til kæmi annað mat en læknisfræðilegt, t.d. þá lögfræðinga eða félagsfræðinga eins og hér hefur þegar komið fram og hæstv. ráðherra raunar nefndi í sinni ræðu að væri eðlilegt. Ég legg ekki fram neina tillögu hér við 1. umr. um þetta, en tel æskilegt að heilbr.- og trn. taki þetta til sérstakrar athugunar.
    Eins og ég sagði er reyndar í athugasemd með frv. beinlínis talað um þetta. Þar segir: ,,Á sama hátt gæti tryggingaráði reynst nauðsyn á að leita sér lögfræðilegrar ráðgjafar eða aðstoðar við úrskurði sína utan Tryggingastofnunar ríkisins, svo og ráðgjafar og aðstoðar félagsfræðinga eða félagsráðgjafa, svo dæmi séu tekin.`` Þarna er sem sagt beinlínis gert ráð fyrir því að aðrir en læknar séu kvaddir til ráðgjafar tryggingaráði ef ágreiningur er um annað en læknisfræðilegt mat. Til þess að taka af allan vafa sýnist mér rétt að setja um þetta beint ákvæði eins og um hitt ef leita þarf sérþekkingar lækna.
    Það kann líka að vera spurning hvort rétt væri að

setja í lagatextann frekari fyrirmæli um hvernig með skuli fara slík möguleg ágreiningsmál eða hvort slíkt skuli einungis koma í reglugerð.
    Ég vildi koma þessum atriðum á framfæri, herra forseti, nú við 1. umr. málsins en ítreka að ég er í megindráttum fylgjandi frv. og um önnur atriði þess hef ég ekki athugasemdir fram að færa.