Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Vegna áskorunar hv. þm. og ábendinga um skipti um skoðun, þá vil ég taka það fram að bæði hef ég átt sæti í stól heilbr.- og trmrh. og átt sæti í tryggingaráði um átta ára skeið, en það hefur ekki dugað mér til þess að sýnast frv. hv. þm. nægilega skynsamlegt eða a.m.k. ekki til þess fallið að leysa nákvæmlega þann vanda sem hún gerði grein fyrir og vissulega er fyrir hendi. Það eru mörg sjónarmið sem til skoðunar koma þegar lagt er mat á svo vandasamt efni sem örorku manna. En það er nú einu sinni svo að það hefur verið talið hlutverk sem er á færi lækna að framkvæma, að meta það hvort einstaklingur geti unnið þetta eða hitt starfið sem honum annars bæri að vinna og þess vegna hefur það líka verið talið hlutverk lækna að kynna sér nægilega vel þennan hluta þegar til örorkumats kemur.
    Að því er varðar þá ábendingu hv. þm. að einnig þurfi að taka tillit til aðstæðna í byggðarlagi viðkomandi sjúklings eða öryrkja, sem er auðvitað líka rétt, það er mikilvægur hluti hinnar félagslegu aðstöðu mannsins, þá er mér alveg fyrirmunað að sjá að frv. það sem þingmaðurinn hvatti svo mjög til að við kynntum okkur og lagt var fram í vetur, 171. mál, leysi það efni. Það er engin ábending um hinn byggðastefnulega þátt í þessu eða m.ö.o. engin ábending um tillit til heimilisfangs eða atvinnuhátta á heimili mannsins. Sú hugmynd sem í því frv. felst er fólgin í því að sett sé yfirmatsnefnd sem skipuð sé til fjögurra ára og gerir enga kröfu um staðháttaþekkingu þeirra einstaklinga sem til mats eru hverju sinni. Það er alveg ljóst að það frv. tryggir ekki þau atriði sem hv. þm. benti sjálf á.
    Þá kem ég að því frv. sem raunverulega er hér til umræðu. Ég sé ástæðu til þess að lýsa stuðningi við flest atriði í því máli. Það er vissulega rétt að það þurfi að taka af tvímæli að því er varðar 7. gr. laganna að svo miklu leyti sem þau tvímæli eru fyrir hendi. Mér þykir líka vera mjög til bóta að það komi formleg reglugerðarheimild í lögin. Þó að það hafi verið álitið löngu helgað af hefð að sú reglugerðarheimild sé er það miklu betri frágangur að hún liggi formlega fyrir.
    Sömuleiðis er ég sammála um 6. gr., tel þetta allt vera framfaraspor. En af því að 2. gr. frv. er ætlað að taka af tvímæli verð ég að benda á það strax við 1. umr. að það þykir mér þessi grein, eins og hún er nú, ekki gera. Það eru nokkur atriði sem einmitt eru ekki nægilega greinileg.
    Í fyrsta lagi er það blátt áfram þessi spurning: Er tryggingaráði samkvæmt greininni, ef hún verður að lögum, ætlað að framkvæma nýtt örorkumat? Þetta þarf að liggja alveg ljóst fyrir. Þýðir orðalag greinarinnar að tryggingaráð geti metið örorkustig viðskiptamanns Tryggingastofnunarinnar annað en tryggingalæknir komst að niðurstöðu um? Þetta segir greinin í raun og veru ekkert um. Hún segir einungis: ,,Ef ágreiningur er lagður fyrir til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni

heimilt að kveðja sér til ráðuneytis 1--3 lækna sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Ef niðurstaða þessara ráðunauta sem til eru kvaddir er önnur en tryggingayfirlæknis segir ekkert um hvað á að gera næst. Þetta þarf að liggja fyrir. Hver verður afleiðingin af annarri niðurstöðu? Af þessari spurningu minni má ljóst vera að ég tel að svarið við henni liggi ekki í fyrri mgr. greinarinnar þar sem segir: ,,Rísi ágreiningur um bætur leggur tryggingaráð úrskurð á málið.`` Það er vegna þess að ég geri eins og fleiri glöggan greinarmun á bótunum og örorkumatinu. Það er enginn vafi á að það getur verið vafi um rétt til bóta, a.m.k. í sumum tilvikum, þó að örorkumatið sjálft liggi fyrir. Svo mikið svigrúm gefa ýmsar greinar tryggingalaganna að það er öldungis ljóst að það er iðulega sem það kemur fyrir að tryggingaráð þurfi að meta hina endanlegu fjárhæð sem réttur er til að greiða hverju sinni.
    En vegna þess að þetta er ljóst að því er bótaréttinn varðar þarf að svara því hvort frv. er ætlað að taka af tvímæli ef ágreiningur er um sjálft örorkustigið, sjálfa niðurstöðu örorkumats tryggingayfirlæknis sem skýr lagafyrirmæli eru um annars staðar í lögunum, sem sé í 12. gr. Ef það er ætlun hæstv. ráðherra að skapa nýja heimild til að breyta því mati þarf að segja það í frv.
    Þetta finnst mér nauðsynlegt að fá að vita núna til þess að starf okkar í heilbr.- og trn. verði markvissara við afgreiðslu frv. Að öðru leyti er ég hlynnt frv.