Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Það skal vera mjög stutt. Ég er sannfærð um að hæstv. heilbr.- og trmrh. og ég komum til með að ná saman um þetta mál.
    Ég vil aðeins ítreka að þetta frv., sem hann hefur nú lagt fram, tekur á engan hátt til örorkumats. Þar stendur enn: ,,Rísi ágreiningur um bætur.`` Bætur eru á tryggingamáli peningar. Það getur verið fæðingarorlof, það getur verið ellilífeyrir, það getur verið hvað sem er, það geta verið slysabætur. Það er ágreiningur um útreikning bóta. Í raun og veru er enn fráleitara ef þetta á að taka til örorkumats sem er aldeilis ómögulegt að sjá af lagatextanum, þess í stað þyrfti þá bara að standa: Rísi ágreiningur um örorkumat, en ekki bætur. Þetta á síst af öllu heima í 7. gr. almannatryggingalaga eins og gert er ráð fyrir. 6. gr. gerir grein fyrir verkefnum tryggingaráðs og fjallar um fjárhagslegt eftirlit og er í liðum a--g en samkvæmt þeim á ráðið að líta til árlegrar fjárhagsáætlunar stofnunarinnar, ársreiknings stofnunarinnar, það á að annast heimildarsamninga við heilbrigðisstéttir, það á að setja meginreglur um notkun heimildarákvæða, það á að annast lánveitingar og verðbréfakaup og hafa eftirlit með því og það á að sinna öðrum þeim atriðum ,,sem lög þessi ákveða`` eins og þar segir.
    Þess vegna er hálfkyndugt ef 7. gr., sem nú er niður felld með lögum frá 1978, kemur inn aftur og hljómar á eftir þessari upptalningu: ,,Rísi ágreiningur um bætur leggur tryggingaráð úrskurð á málið``. Það getur auðvitað enginn tekið öðruvísi en svo að hér sé enn verið að tala um peninga vegna þess að bætur eru í Tryggingastofnun ríkisins peningaupphæð. Það sem við erum að fara fram á er að fleiri aðilar geti komið til sögunnar um sjálft örorkumatið. Sé manneskja metin 75% öryrki fær hún sinn lífeyri. Það er enginn ágreiningur um það. Ágreiningurinn snýst um matið sjálft. Það er þetta sem ég vil biðja hæstv. ráðherra að skoða vel. Og læknir á ekkert erindi inn í tryggingaráð rísi ágreiningur um bætur. Hann hefur einfaldlega ekkert með bætur að gera. Hann á, ef farið væri að lögum um almannatryggingar, að meta læknisfræðilegt ástand viðkomandi umsækjanda. En síðan þurfa, að mínu mati, fleiri að koma til sem hafa félagslega þekkingu, staðfræðilega þekkingu. Þess vegna finnst mér ósanngjarnt hjá hv. 3. þm. Reykv. að segja að frv. okkar breyti því á engan hátt. Það gerir það að því leyti að þar er gert ráð fyrir að tryggingaráð tilnefni mann sem skal vera félagsfræðingur eða félagsráðgjafi. Slíkur maður ætti að geta haft einhverja þekkingu á lífskjörum viðkomandi umsækjanda eða farið og kannað þær aðstæður ef á þarf að halda. Um það snýst þessi umræða. Ég vil leggja á það mikla áherslu að menn rugli ekki saman örorkumati og bótum. Það eru greiddar margar tegundir bóta og lífeyris í Tryggingastofnun ríkisins. Sumt af því er hreint útreikningsatriði, svo sem eins og þegar gamall maður hefur geymt að taka ellilífeyri, stofnunin greiðir honum ekki nema tvö ár aftur í tímann og hann getur

komið og sagt: Ég er óánægður með það. Þá er ágreiningur um bætur. En ágreiningur um örorkumat er einfaldlega allt annað.
    Ég vil segja það við hv. félaga mína hér á hinu háa Alþingi af kvenkyni að mörg dæmi eru um að konur, sem hafa unnið úti allt sitt líf, hafa þrælað á fiskvinnslustöðum staðarins þar sem þær hafa búið, verða síðan óvinnufærar og eru 75% öryrkjar sannanlega þar sem þær geta ekki lögum samkvæmt unnið sér inn *y1/4*y þess sem andleg og líkamleg geta o.s.frv. og skal ég nú ekki lesa 12. gr. enn einu sinni. Hvernig eru þessar konur afgreiddar? Þær fá 65% örorku vegna þess að þær geta unnið létt heimilisstörf. Um þetta snýst ágreiningurinn og slík tilvik. Það er ekkert vit í að segja við manneskju í litlu sjávarplássi á Íslandi sem hefur unnið við framleiðslustörf allt sitt líf að hún geti unnið létt skrifstofustörf. Það er engin skrifstofa og engin skrifstofustörf á staðnum, auk þess sem viðkomandi manneskja hefur aldrei nálægt slíku komið. Þetta er brot á afgreiðslu samkvæmt 12. gr. almannatryggingalaga.
    Þetta held ég að hljóti að vera orðið öllum áheyrendum nokkuð skýrt og ég er alveg sannfærð um að hæstv. ráðherra er allur af vilja gerður til að leysa vanda þessa fólks, sem finnst það ekki fá þær bætur frá samfélaginu sem það telur sig hafa unnið fyrir og tryggt sig fyrir áföllum lífsins með vinnu sinni og framlagi til þessara sameiginlegu verkefna. Ég mun reyna að bregðast við þessu frv. með því að bera jafnvel fram brtt. og vil biðja hæstv. ráðherra að líta aðeins á hana. Samnefndarmenn mínir í hv. heilbr.- og trn. vita mætavel um hvað þetta mál snýst þannig að ég held að við hljótum að geta náð saman um einhverja lausn á þessu máli þegar við erum búin að aðgreina skýrt og skorinort bætur og örorkumat. Það er ekki það sama og eru gersamlega óskyldir hlutir. Tryggingaráð hefur aldrei átt að annast annað en hina peningalegu hlið Tryggingastofnunar ríkisins. Af tryggingaráði, hinum pólitísku fulltrúum sem þar eru kjörnir, hefur aldrei verið ætlast til að þeir hafi minnsta vit á örorkumati, enda sjaldnast með menntun þar til.
    Þessu finnst mér mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir og skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta.