Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar að tryggja að fylgt verði eftir ítrekuðum áformum um að ljúka smíði Þjóðarbókhlöðu án frekari tafa og hins vegar að skapa fjárhagsgrundvöll fyrir aðkallandi framkvæmdir við endurbætur og viðhald á húsakosti ýmissa helstu menningarstofnana landsins og á gömlum byggingum sem brýnt er að varðveita vegna menningarsögulegs gildis þeirra.
    Eins og kunnugt er er byggingarsaga Þjóðarbókhlöðunnar orðin alllöng. Þar er gert ráð fyrir því að hýsa tvö undirstöðubókasöfn þjóðarinnar, þ.e. Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Þrátt fyrir að byggingarsagan er löng hefur þessi bygging notið eindregnari heitstrenginga og viljayfirlýsinga af hálfu stjórnvalda en flestar aðrar byggingar sem byrjað hefur verið á í þessu landi.
    Byggingarsögu Þjóðarbókhlöðunnar má í raun og veru rekja allt aftur til ársins 1957 og það var vorið 1970 að samþykkt var á Alþingi þál. um að hús þetta skyldi reist í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Nokkuð gekk í þessum efnum en hægt miðaði og 22. apríl 1986 samþykkti Alþingi að tillögu Sverris Hermannssonar þáv. menntmrh. lög um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu. Þau kváðu á um álagningu sérstaks eignarskatts í þrjú ár, 1987--1989, sem átti að gera kleift að ljúka byggingunni miðað við þá kostnaðaráætlun sem fyrir lá á þeim tíma.
    Nú hefur það hins vegar gerst að árlegar fjárveitingar í fjárlögum hafa skorið framkvæmdunum miklu þrengri stakk en hinn lögákveðni tekjustofn gaf tilefni til og svo jafnframt hitt að kostnaður við að fullgera bókhlöðuna með nauðsynlegum búnaði hefur orðið mun meiri en gert var ráð fyrir, m.a. vegna tölvuvæðingar sem er óhjákvæmilegur hluti af rekstri nútímabókasafns. Það er því sýnt að átakið sem gert var ráð fyrir 1986 verður að standa mun lengur en sú lagasetning miðaðist við í upphafi.
    Samkvæmt framkvæmda- og fjármagnsáætlun frá hönnuðum Þjóðarbókhlöðu í desember 1988, miðað við byggingarvísitölu 400 var kostnaður við óloknar framkvæmdir að meðtöldum búnaði þá talinn vera 824 millj. kr. Innheimtur eignarskattsauki, en ógreiddur í byggingarsjóð bókhlöðunnar, vegna áranna 1987--1988 nam um sl. áramót um 157 millj. kr. og skatttekjur 1989 voru áætlaðar 240 millj. kr. Framlenging skattstofnsins árið 1990 er talin mundu gefa um 239 millj. kr. og árið 1991 um 245 millj. kr. Samkvæmt þessum áætlunum ætti því eignarskattsaukinn þessi tvö viðbótarár, miðað við lögin frá 1986, að geta gert nokkru betur en duga til að fjármagna smíðina til loka.
    Í stefnuyfirlýsingu þeirri sem birt var við myndun núv. ríkisstjórnar seint í september 1988 segir svo: ,,Þjóðarbókhlaðan verður fullgerð innan fjögurra ára.`` Sú fjármögnunaráætlun sem rakin er hér að framan á að gera kleift að húsið verði fullgert á árinu 1992.
    Þessum sjóði, sem hér er lagt til að stofnaður verði, er ekki ætlað að standa undir kostnaði við

nýbyggingar þegar Þjóðarbókhlöðu sleppir. Hins vegar kalla nú að mörg mjög viðamikil og brýn verkefni við endurbætur og viðhald á byggingum sem hýsa sumar mikilvægustu menningarstofnanir landsins og svo fjölmörg verkefni á sviði verndunar gamalla húsa. Dæmi um verkefni af þessu tagi eru Þjóðleikhúsið og endurreisn þess, en til þess er varið 70 millj. kr. á árinu 1989. Annað dæmi eru viðgerðir og endurbætur á húsi Þjóðminjasafns Íslands sem óhjákvæmilegt er að fara í nú þegar vegna þess að húsið er þegar orðið lekt og munirnir sem þar eru geymdir eru ekki lengur öruggir fyrir veðri og vindum. Þriðja dæmið sem ég nefni er Þjóðskjalasafnið, en húsnæði fyrir Þjóðskjalasafnið var keypt fyrir nokkrum árum, mjólkurstöðin gamla, og það mun kosta um 250 millj. kr. að gera það hús þannig úr garði að það geti orðið sæmilega öruggur staður til geymslu á þjóðskjölunum og til að tryggja húsnæði fyrir rannsóknir á þeim. Allt eru þetta kostnaðarsöm stórverkefni sem þola litla bið og mundu fyrirsjáanlega sækjast seint með venjubundnum stofnkostnaðar- og viðhaldsfjárveitingum á fjárlögum.
    Í þessu sambandi má einnig, virðulegi forseti, minnast á nauðsynlegar viðgerðir á Bessastaðastofu sem varið er til nokkrum fjármunum á þessu ári, en fullyrt er, m.a. af talsmönnum fjvn., að þar verði að ganga enn hraðar til verka en fjárlög þessa árs gera ráð fyrir.
    Þá er það alkunna að mikið hefur skort á að Þjóðminjasafn Íslands hafi haft nægilegt ráðstöfunarfé til að sinna þeim verkefnum sem því eru ætluð við varðveislu húsa. Víðs vegar um landið eru gamlar byggingar, bæði kirkjur og húsakynni af öðru tagi, sem almenn samstaða er um að varðveita beri en eru margar hverjar í hættu vegna þess að fjármuni vantar til nauðsynlegra verndunaraðgerða.
    Með sjóðsstofnun þeirri sem frv. þetta gerir ráð fyrir er stefnt að því að næsta áratug verði unnið samfellt og með markvissum hætti að þeim viðamiklum og brýnu framkvæmdaverkefnum sem vikið hefur verið að að framan. Leggja verður áherslu á að sjóðnum er ekki ætlað að standa undir venjulegu, árlegu viðhaldi húsa í eigu ríkisins heldur að stuðla að viðráðanlegri lausn tímabundinna verkefna sem krefjast sérstaks átaks.
    Í 1. gr. frv. er markað verksvið sjóðsins og því er slegið föstu að starfsemi hans verði ekki einskorðuð við byggingar í eigu ríkisins en gert ráð fyrir að í því efni komi til tillögur og mat frá Þjóðminjasafninu.
    Í 2. gr. frv. er því slegið föstu að megintekjustofnar sjóðsins verði annars vegar sérstakur eignarskattur, hliðstæður þeim sem ákveðinn var með lögum nr. 49/1986 og hann verði framlengdur til ársins 1999, þegar gert er ráð fyrir því að lög þessi féllu úr gildi ef frv. yrði samþykkt, og hins vegar er gert ráð fyrir því að um verði að ræða árlegt framlag úr ríkissjóði. Á þessu ári ver ríkissjóður umfram það sem kalla má eðlileg viðhaldsframlög verulegum fjármunum til menningarbygginga af þessu tagi og bygginga sem hafa sérstakt varðveislu- og

menningarsögulegt gildi. Þar er um að ræða upphæðir sem eru talsvert á annað hundrað millj. kr. Eins og tekið er hins vegar fram í almennum athugasemdum með frv. er hér gert ráð fyrir því að framlög samkvæmt 2. tölul. 2. gr. hljóti að vera umfram það sem telst venjulegt viðhaldsfé til ríkisstofnana samkvæmt fjárlögum. Loks er gert ráð fyrir því að sjóðurinn geti við ákveðnar aðstæður tekið lán til þeirra verkefna sem þarf að vinna samkvæmt fjárlögum og lánsfjárlögum hverju sinni.
    Í 3.--6. gr. frv. eru tekin upp þau ákvæði sem fjalla um álagningu sérstaks eignarskattsauka, en í 7. gr. frv. er fjallað um stjórn sjóðsins. Það er gert ráð fyrir því að menntmrh. skipi stjórn sjóðsins. Gert er ráð fyrir að formaður fjvn. Alþingis eigi þar sæti samkvæmt stöðu sinni. Tilgangurinn með þessu ákvæði er sá að tryggja að fjvn. Alþingis viti sem best hvað ætlunin er að gera á hverjum tíma við sjóð þennan.
    Í annan stað er þarna gert ráð fyrir að kirkjumálaráðuneytið tilnefni sérstakan fulltrúa í stjórn sjóðsins. Hvaða rök eru fyrir því? Þau rök má m.a. lesa um í fskj. með frv. þar sem það kemur fram að um allt land eru fjöldamargar gamlar kirkjubyggingar í verulegri eyðileggingarhættu nema þegar í stað verði gripið til sérstakra ráðstafana. Staðreyndin er sú að á stórum svæðum eru þessar gömlu kirkjur kannski einu menningarsögulegu byggingarnar sem til eru og það er til skammar satt best að segja hvernig staðið hefur verið að þessum málum á undanförnum árum og áratugum. Það stafar ekki af viljaleysi heldur því að þessar byggingar, þessar kirkjur hafa lent á milli mismunandi aðila í stjórnkerfinu. Annars vegar er um að ræða söfnuðina sem hafa þarna tilteknar skyldur en hafa mjög litla fjármuni en heyra að þessu leytinu til undir kirkjumálaráðuneytið. Söfnuðirnir þurfa að nota kirkjurnar til margvíslegrar starfsemi, en þar rekast þeir iðulega á önnur lagaákvæði sem eru lög um þjóðminjavernd og verndun þjóðminja þannig að það er bannað að breyta kirkjunum eða laga þær með þeim hætti sem fellur að þeirri starfsemi sem söfnuðirnir vilja hafa. Niðurstaðan hefur svo orðið sú að hvorugur aðilinn hefur tekið af skarið. Það er þess vegna sem ég lagði á það áherslu við undirbúning þessa máls að kirkjumálaráðuneytið væri kallað þarna sérstaklega inn til þess að það ásamt menntmrn. og Þjóðminjasafni gæti unnið þarna að sérstöku átaki varðandi kirkjurnar sem slíkar. Auðvitað eru þetta menningarstofnanir líka.
    Í 8. gr. frv. er talað um að sjóðsstjórninni verði falið að ákveða framlög úr sjóðnum, en leggja skal þó úthlutun fyrir menntmrh. til staðfestingar. Í 2. mgr. felst atriði sem er ein af forsendum þess að lagasetningin nái tilgangi sínum, þ.e. að úthlutun fjár úr þessum sjóði sé reist á skipulegum áætlunum til lengri tíma. Það er gert ráð fyrir að slík áætlun liggi jafnan fyrir til fimm ára, endurskoðuð árlega með hliðsjón af framvindu verka. Og að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að Alþingi fylgist nákvæmlega með fjárveitingum úr þessum sjóði á hverju ári í tengslum við fjárlagagerð.

    Eins og fram kom hér í ræðu minni áðan er gert ráð fyrir því að frv., ef að lögum verður, verði í gildi til loka ársins 1999.
    Í sérstöku fskj. með frv. birtist bráðabirgðaskrá um helstu viðfangsefni Þjóðminjasafns Íslands á sviði varðveislu húsa eins og það er nú orðað í þessu. Þar kemur fram að um fjöldamargar byggingar er að ræða og auðvitað kostar það verulega fjármuni að laga þessi hús þannig að skaplegt sé. Fyrsta verkið sem þessi sjóðsstjórn ætti að ákveða væri hins vegar að verja þær byggingar, hús og húshluta frá frekari skemmdum sem hér eru taldar upp, áður en farið er í hugsanlegar endurnýjunarframkvæmdir. Það er hægt að nefna hér fjölmörg dæmi um hús og húshluta á þessum lista sem eru svo að segja að verða eyðileggingunni að bráð.
    Í þeim efnum gæti ég t.d. nefnt Hóla í Eyjafirði, torfbæ frá 19. öld ásamt leifum af miðaldakirkju. Hér er um að ræða mannvirki, menningarsöguleg verðmæti sem eru að fara forgörðum ef ekki verður gripið í taumana strax. En að því er varðar önnur verkefni á einstökum landsvæðum þá bendi ég á Bessastaði eins og ég nefndi áður, bæði stofuna og kirkjuna. Ég nefni hér gamla prestshúsið í Görðum á Akranesi frá 1886. Ég nefni hér skóla og íbúðarhús í Flatey á Breiðafirði. Ég nefni hér Ólafsdal og Búnaðarskólann þar, myndarlegt hús frá því snemma á þessari öld ásamt margvíslegum mannvirkjum sem öll eru í stórkostlegri hættu. Ég nefni hér Stað á Reykjanesi, timburkirkju
frá 1858. Það mætti nefna margar byggingar á Ísafirði. Ég nefni hér t.d. stokkbyggt pakkhús frá 1772 á Hofsósi. Ég gæti nefnt hér kapelluna að Gröf fyrir utan Hofsós, fæðingarstað Hallgríms Péturssonar sem er ekki á þessum listum en sem þarfnast verulegrar lagfæringar. Ég nefni hér aftur Hóla í Eyjafirði. Ég nefni t.d. prestssetrið að Sauðanesi á Langanesi. Og ég gæti haldið áfram í gegnum þennan lista. Það er alveg augljóst mál að hérna hefur þjóðin og þingið alveg sérstakar skyldur.
    Mér er auðvitað ekki nein launung á því, virðulegi forseti, að ég tel að það þurfi að byggja hér ýmis hús til menningarstarfsemi. Ég gæti nefnt þar eitt og annað, m.a. hugmyndir sem uppi hafa verið um að reisa hús sem kosta jafnvel milljarða kr. Ég verð hins vegar að játa að hvort sem menn vilja kalla mig íhaldsmann fyrir vikið eða ekki finnst mér að við höfum kannski framar öðru skyldur við þau menningarsögulegu verðmæti sem m.a. felast í þeim gömlu byggingum sem við höfum þegar reist. Ég held að það færi vel á því að þjóðin notaði eitthvað af þeim fjármunum sem hún hefur á þeim árum sem eftir lifa til aldamótanna til þess a.m.k. að tryggja að þessi hús, þessi menning eyðileggist ekki þannig að við getum a.m.k. tekið eitthvað af þessari menningu, þessari sögu og þessari arfleifð með okkur inn í næstu öld.
    Menn geta velt því fyrir sér hvort það er rétt að fara þá leið að stofna sjóð í þessu skyni. Ég verð að segja eins og er að margir gætu kannski slegið því föstu að það væri nánast smekksatriði og einhverjir

gætu velt því fyrir sér að í rauninni væri málið þannig að með þessu sé verið að taka skyldurnar frá Alþingi, losa Alþingi við skyldurnar af þeim verkum sem það á að sinna. Það er dálítið til í þessu sjónarmiði. Reynslan er hins vegar sú að Alþingi hefur ekki gert þetta. Það hefur verið vinsælla að byggja, að leggja af stað með ný hús, að taka skóflustungur, helst fyrir framan myndavélar og leggja af stað með hús, en menn hafa ekki fundið sig í því að eyða þeim litlu fjármunum sem til eru til að vernda það sem gamalt er og við eigum að leggja rækt við.
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé ekki um flókið mál að ræða og ástæðulaust þess vegna að hafa um það lengri ræðu af minni hálfu í upphafi og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og vænti þess fastlega að það mæti skilningi og áhuga hv. nefndarmanna og hv. deildarmanna.