Varaflugvellir fyrir millilandaflug
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er fsp. til samgrh. um lendingarskilyrði á hugsanlegum varaflugvöllum fyrir millilandaflug. Sá vetur sem nú er senn að líða er óvenjulegur að því leyti að tíðin hefur verið óvenjurysjótt og veður vond. Þetta veðurfar gefur því betur möguleika á að meta ágæti hinna ýmsu staða á landinu sem framtíðarstaða fyrir millilandaflug og varaflugvöll fyrir það. Því er spurt:
,,1. Hve oft hefur þurft að fella niður áætlunarflug (frá og) til Sauðárkróksflugvallar, Akureyrarflugvallar, Húsavíkurflugvallar og Egilsstaðaflugvallar á tímabilinu 1. des. 1988 til 1. mars 1989?
    2. Hve oft hefði verið hægt að lenda þotum sem notaðar eru til millilandaflugs á áðurnefndum flugvöllum á sama tímabili ef nægilega langar brautir hefðu verið fyrir hendi og hve oft hefðu þær getað hafið sig til flugs frá sömu stöðum?``