Varaflugvellir fyrir millilandaflug
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Eins og kom fram í svari hæstv. samgrh. sést það greinilega að rannsóknir á ágæti staða fyrir varaflugvelli eru ekki komnar langt og þær umræður sem hér hafa oft átt sér stað e.t.v. ekki nógu markvissar og ekki nógu miklar rannsóknir sem liggja að baki þeim. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. samgrh. hefur hér uppi mjög mikla fyrirvara á sínu máli. Það kemur líka á óvart í hans máli að það er ekki vitað í rauninni hvort þotur geta lent eða ekki lent í svona veðurskilyrðum og með hvaða hætti hægt væri að nýta þessa flugvelli fyrir utanlandsflug. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þessi svör hæstv. ráðherra vekja upp fleiri spurningar en þau svara og er því ekki vanþörf á að gerð verði ítarlegri úttekt á þessum málum með tilliti til veðurfarsskilyrða og með tilliti til þess hvort menn viti yfirleitt um það hvort þotur geti lent við slík skilyrði.